Himnaríki

himnariki_plakatLeikfélag Ölfuss
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundsson

Eftir að hafa farið villu vegar einhverstaðar á milli Hveragerðis og Vestmannaeyja í dálítinn tíma, römbuðum ég og betri helmingur minn loks inn í Ráðhúsið, þar sem Leikfélag Ölfuss sýnir þessa dagana Himnaríki eftir Árna Ibsen.  Höfðu heimamenn og aðrir velunnarar  nýlega slátrað einu lambi, fáeinum humarsræflum og saklausum rabarbarastöngli og stunduðu veisluvenjur eins og góðu óhófi gegnir. Köld eftir langa göngu frá bílnum að útidyrahurðinni horfðum við öfundaraugum á kræsingarnar og sáum strax að skemmtilegra hefði nú verið að sleppa hamborgaratuðrunni í bænum og mæta frekar aðeins fyrr í veislu fyrir sýningu, sem kostaði lítið meira en fyrrnefnd tuðra.

Þegar blásið var til sýningar þá voru sumir áhorfendurnir orðnir vel hressir eftir humarsræflana og því sem þurfti til að skola þeim niður. Ríkti almenn kátína í salnum áður en leikarar stigu á svið. Og hélt hún sér út sýninguna.

Himnaríki er með sanni geðklofinn gamanleikur eftir Árna Ibsen. Sýningin er leikin tvisvar, á tveim sviðum, fyrir tvo hópa af áhorfendum. Það eina sem ekki er tvennt af eru leikararnir. Þó er ég ekki viss, því kannski er ekki hægt að láta þessa sýningu ganga svona smurt nema með nokkrum settum af tvíburum. Verkið gerist í sumarbústað og er annað sviðið inni í bústaðnum en hitt úti. Felst styrkur verksins ekki endilega í söguþræðinum (fólk kemur saman sumir enda saman, aðrir ekki) heldur í persónunum og samskiptum þeirra á milli. Ofboðslega skemmtilegt verk sem hefur skapað sér fastan sess í íslensku leikhúslífi. 

himnariki_1Leikmyndin var mjög góð. Var kappkostað við að hafa hana eins raunverulega og hægt er. Tókst þetta með ágætum. Einkenndi þetta líka leikmuni. Myndir á veggjum, glös, vín, skóflur, og jafnvel nútímalegur heitur pottur, allt þetta fékk mig til að trúa að ef leikmyndinni væri skellt upp úti á túni væri ekki hægt að sjá mikinn mun á henni og hinum fínasta sumarbústað. Fyrir utan áhorfendur sem væri eflaust kalt. Það eina sem ég gat kvartað undan var eldhúsborðið, sem tók heldur stórt rými á sviðinu inni. Átti ég rökræður um það við betri helminginn minn á leiðinni heim. Henni fannst það alls ekkert of stórt. Kannski hefur hún rétt fyrir sér, enda langtum betri kokkur en ég.

Leikurinn var kraftmikill og þéttur. Boltanum var haldið viðstöðulaust uppi á milli þess sem skorað var mark og stuðningsmenn grenjuðu úr hlátri. Hraðinn var stundum slíkur að erfitt var að skilja orðin sem flugu á milli. Kannski það hefði verið hægt að tala aðeins hægar svona hratt… hvað sem því líður þá voru tímasetningar og tempó aðdáunarvert. Leikurinn á útisviðinu var öðruvísi að því leytinu til að þar var meira rými fyrir þagnir og spuna. Tókst það oftast vel, en stundum fannst manni eins og maður væri að bíða eftir einhverju.  Leikarar sem stóðu upp úr að öðrum ólöstuðum voru Aðalsteinn Jóhannsson með hófstilltum húmor hér og þar í verkinu, og Þrúður Sigurðardóttir sem lék svo skemmtilega fyllibyttu að hún myndi sóma sér vel meðal atvinnu drykkjumanna. Ef til vill naut hógværðin í persónum þeirra líka góðs af ofsanum hjá öðrum. 

Búningar voru fínir, pössuðu persónum vel og fylgdu flæði verksins. Einnig stóðu ljós fyrir sínu, voru einföld og hlutlaus. Er erfitt að segja meira um það, enda er það oft merki um að vel takist til í þeim efnum þegar ekki er tekið eftir þeim.Til að gera langa sögu stutta, þá var það vel þess virði að sigla austur fyrir fjall í rigningunni til að sjá þessa ágætu sýningu. Vil ég óska Leikfélaginu Ölfuss til hamingju með vel unnið verk.

Hörður S. Dan.