Fimm sýningar á verkinu Hálsfesti Helenu verða sýndar núna í haust en verkið var frumsýnt á Smíðaverkstæðinu í vor. Sú fyrsta verður í kvöld, föstudaginn 28. september. Leikritið er eftir eitt þekktasta nútímaleikskáld Kanada, Carole Fréchette, en hún skrifaði verkið eftir að hafa dvalið um tíma í Líbanon árið 2000.  Leikstjóri sýningarinnar er María Sigurðardóttir en leikarar í sýningunni eru Edda Arnljótsdóttir, Arnar Jónsson og Guðrún Snæfríður Gísladóttir.

Aðalpersóna leikritsins er Helena, kona frá norðlægu landi, sem er á heimleið af ráðstefnu í borg í Austurlöndum nær, þar sem uppbygging er hafin eftir langvarandi stríðshörmungar. Skyndilega ákveður hún að verða eftir, í von um að finna hálsfesti sem hún hefur tapað. Leit Helenu um götur borgarinnar, í mannmergðinni og hitanum, leiðir hana á vit fólks sem hefur ekki síður en hún glatað einhverju sem er því dýrmætt. Hún öðlast nýjan og persónulegan skilning á samskiptum ólíkra menningarheima, hins arabíska og vestræna og verður ljóst að „við getum ekki lifað svona lengur“. 
Hér er á ferðinni einstaklega áleitið og óvenjulegt verk um mannlega samkennd, missi og harm, og löngunina til að endurheimta hið glataða. Þetta er einnig mikilvægt verk á tímum skelfilegra stríðshörmunga í Austurlöndum nær.
Líkt og í vor bíður Þjóðleikhúsið áhorfendum upp á stutt erindi og umræður eftir nokkrar sýningar á Hálsfesti Helenu. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum, en eiga það sameiginlegt að hafa sérstaka þekkingu á málefnum Austurlanda nær, eða haft sérstök kynni af landsvæðinu. 
Nú á sunnudaginn mun Viðar Þorsteinsson heimspekingur flytja erindi að lokinni sýningu en aðrir frummælendur verða Gréta Gunnarsdóttir lögfræðingur og nýskipaður sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra
Þýðandi verksins er Hrafnhildur Hagalín, lýsingu annast Lárus Björnsson, um leikmynd og búninga sér Helga I. Stefánsdóttir en hljóðmynd gerir Ester Ásgeirsdóttir.
 
{mos_fb_discuss:2}