Leikfélag Akureyrar auglýsir eftir 9-12 ára stúlku til að leika og syngja í jólaleikriti LA! Mánudaginn 6. október nk. verður skráning í Rýminu kl. 15:00-17:00.

Seinni hluta október mun LA hefja æfingar á íslensku jólaleikriti, Lápur, Skrápur og jólaskapið sem ætlunin er að sýna á aðventunni. Þetta er bráðskemmtilegt leikrit með söngvum eftir Snæbjörn Ragnarsson sem einnig semur tónlistina. Lápur og Skrápur eru einu tröllabörnin í Grýluhelli sem hafa ekki enn komist í jólaskap. Grýla mamma þeirra rekur þá því af stað úr hellinum og bannar þeim að koma til baka fyrr en þeir eru búnir að finna jólaskapið. Lápur og Skrápur leita um allt og leitin ber þá inn í herbergi Sunnu litlu. Hún ákveður að hjálpa bræðrunum og saman rata þau í alls kyns ævintýri.

Það sannaðist svo sannarlega í Óvitum og Óliver á sínum tíma að hér á svæðinu búa mörg mjög hæfileikarík börn og unglingar og LA vonast til að sem flestar stúlkur láti sjá sig á mánudaginn og taki þátt í áheyrnarprufum fyrir stórt og skemmtilegt hlutverk í Lápi, Skrápi og jólaskapinu.

Nánari upplýsingar fást hjá Maríu Sigurðardóttur leikhússtjóra í síma 897-4820

{mos_fb_discuss:2}