Sunnudaginn 3. desember klukkan 18.00 frumsýnir leikhópurinn Peðið söngleikinn Jólapera – helgileikurinn um Jósef frá Nasaret, á Grand Rokk.
Jólapera er þriðja leikverkið sem Peðið setur upp en áður hefur hópurinn sýnt leikritið Lamb fyrir tvo og söngleikinn Barpera. Báðar sýningarnar voru liður í Menningarhátíð Grand Rokk en leikhópurinn samanstendur af fastagestum og velunnurum staðarins.
Í þessu þriðja verkefni hópsins er sjónum beint að Jósef og stöðu hans á hinni helgu nótt.
Þetta manntalsvesen á keisaranum hefur sett allt hans líf úr skorðum og hann neyðist til að halda upp í langt og erfitt ferðalag með konu sína sem er að því komin að fæða barn sem hann á ekkert í. Gistihúsin eru öll full og þau verða að hafast við í fjárhúsi þar sem barnið fæðist. Þá hefst vægast sagt óvenjulegur gestagangur engla og vitringa svo Jósef þarf að taka á öllu því jafnaðargeði sem hann á til.
Höfundur verksins er Jón Benjamín Einarsson og leikstjóri er Vilhjálmur Hjálmarsson. Tónlist er samin af Björgúlfi Egilssyni og Magnúsi Einarssyni sem jafnframt sjá um tónlistarflutning ásamt Tómasi M. Tómassyni.
Verkið verður sýnt þrjá fyrstu sunnudaga í aðventu á efri hæð Grand Rokk kl. 18.00.