Ný íslensk ópera verður frumflutt í Íslensku óperunni á Listahátíð í Reykjavík um komandi helgi. Hér er um að ræða óperuna Hel eftir Sigurð Sævarsson tónskáld, sem byggð er á samnefndri sögu eftir Sigurð Nordal, en textinn í verkinu er saminn af leikhópnum sem setur hana upp, Hr. Níelsi. Óperan verður frumflutt laugardagskvöldið 23. maí kl. 20 og endurtekin kvöldið eftir, sunnudagskvöldið 24. maí kl. 20.
Óperan Hel er sett upp í samstarfi sviðslistahópsins Hr. Níelsar, Caput-hópsins, Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík. Í einsöngshlutverkum í Hel eru Ágúst Ólafsson, barítón, í hlutverki Álfs, Jóhann Smári Sævarsson, bassi, í hlutverki Skugga og Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran, í hlutverki Unu. Caput-hópurinn ásamt Kór Íslensku óperunnar kemur einnig fram í sýningunni undir stjórn tónskáldsins, Sigurðar Sævarssonar. Leikstjóri er Ingólfur Níels Árnason.
Sagan Hel er samin upp úr hugleiðingum Sigurðar Nordals um Einlyndi og Marglyndi. Sagan segir af manni sem heitir Álfur og er frá Vindhæli. Álfur er persónugervingur hinnar mannlegu viðleitni til að finna lífinu tilgang. Af ótta við að glata sjálfum sér í alls kyns fjötra, hvort sem þeir eru úr járni eða rósum, yfirgefur hann ástkonu sína og heldur í ferðalag að leita gæfunnar.
Enginn unnandi íslenskrar tónlistar og óperutónlistar ætti að láta þessa spennandi sýningu fram hjá sér fara. Miðasala fer fram á www.opera.is og í miðasölu Íslensku óperunnar og er miðaverð 3.900 kr. Eldri borgarar og öryrkjar fá 10 % afslátt af miðaverði, en félögum í Vinafélagi Íslensku óperunnar býðst 25 % afsláttur af miðum. Athugið að afsláttarmiða er ekki hægt að bóka á netinu. Sími í miðasölu er 511-4200 og er hún opin alla daga kl. 14-18 og fram að sýningu sýningardaga.
Nánari upplýsingar um verkið og aðstandendur þess má fá á www.opera.is