Stúdentaleikhúsið frumsýnir verkið Heimsendi eftir Aron Martin Ásgerðarson þann 19. nóvember næstkomandi klukkan 20 í Sölvhólsgötu 13 (Gamli LHÍ). Heimsendir er gamanleikrit sem gerist í afmælisveislu hins eigingjarna Matthíasar sem er haldin sama dag og heimsendir á að gerast. Gestirnir eru mættir, kökur á borðunum og veislustjórinn reynir að halda uppi stemmningunni meðan gestirnir deila um ómerkilegustu mál þrátt fyrir yfirvofandi endalok.

Aron Martin er nýútskrifaður leikstjóri af Sviðhöfundabraut LHÍ og valdi hann marga reynda leikara í verkið. Verkið sjálft er spunnið úr hugarheimi Arons en kemur einnig frá leikhópnum sjálfum. Sýningin kemur áhorfandanum til að hlægja og hugsa á sama tíma er það fjallar um umræðu og viðhorf samfélags okkar tíma.

Stúdentaleikhúsið er á sínu 91. ári en það var stofnað 1928. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá þó ást stúdenta á leiklistinni sé enn sú sama.

Frekari upplýsingar um verkið má finna hér.   Miðapantanir á Tix.is.