Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 10. október á Stóra sviðinu leikritið Heimkomuna eftir nóbelsverðlaunaskáldið Harold Pinter í leikstjórn Atla Rafns Sigurðarsonar leikara og leikstjóra en það er einmitt afmælisdagur leikskáldsins Harolds Pinters. Óhætt er að segja að einvalalið íslenskra leikara fari með helstu hlutverk í sýningunni. Ingvar E. Sigurðsson leikur slátrarann Max en Ingvar hefur síðustu vikur fengið feykigóða dóma fyrir leik sinn í stórmyndinni Everest eftir Baltasar Kormák. Auk Ingvars leika í sýningunni Eggert Þorleifsson, Björn Hlynur Haraldsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.

Harold Pinter lést árið 2008 en hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005. Hann er eitt þekktasta nútímaleikskáld Breta og var ötull baráttumaður fyrir mannréttindum. Leikrit Harolds Pinters hafa mörg hver allt að því hversdagslegt yfirbragð, en í þeim býr óvenjulegur kraftur, og undir yfirborðinu leynast heiftúðug átök, kynferðisleg spenna, kúgun og ótti. Heimkoman var frumflutt árið 1965, hlaut Tonyverðlaunin sem besta leikrit ársins og er af mörgum talið magnaðasta verk Pinters.

Leikritið fjallar um Teddy sem snýr óvænt heim á æskuheimili sitt í London með eiginkonu sinni Rut. Þar uppgötvar hún áður óþekktar hliðar á eiginmanni sínum þegar hún kynnist fjölskyldu hans: föður hans Max, fyrrum slátrara, föðurbróður hans Sam sem er bílstjóri, og bræðrum hans tveimur, hórmangaranum Lenny og boxaranum Joey. Þessir óhefluðu karlmenn taka að bítast um athygli Rutar og samskiptin á heimilinu verða sífellt ofsafengnari.

Sviðsmyndin í Heimkomunni er eftir Börk Jónsson sem hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir leikmyndir sínar, nú síðast kanadísku leiklistarverðlaunin fyrir sviðsmyndina í Í hjarta Hróa hattar. Um búninga sér Helga I. Stefánsdóttir og tónlistin er eftir Einar Scheving djasstrommuleikara sem flytur hana sjálfur á sviðinu. Halldór Örn Óskarsson sér um lýsingu. Þýðing verksins eftir Braga Ólafsson rithöfund er ný, en hann þýddi áður Afmælisveisluna eftir Pinter fyrir Þjóðleikhúsið.