Himnaríki
Frevangsleikhúsið
Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson

Föstudagskvöldið 17. febrúar s.l. frumsýndi Freyvangsleikhúsið leikritið „Himnaríki – geðklofinn gamanleik“ eftir Árna Ibsen, í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Hönnuður lýsingar er Benedikt Axelsson og leikmyndar þeir Finnur Arnar Arnarson og Þórarinn Blöndal. Verkið var frumflutt af Hafnarfjarðarleikhúsinu haustið 1995 en hefur verið skemmtilega staðfært í meðförum Freyvangsleikhússins.

 

Leikritið segir sögu þriggja ungra para sem dvelja saman í sumarbústaðnum Himnaríki snemma vors, með tilheyrandi nesti og öllu því drama, árekstrum og uppgjörum sem slíkar aðstæður bjóða upp á. Leikritið er harla óvenjuleg að því leyti að leikmynd sýnir sumarbústaðinn bæði innanhúss og utan. Henni er skipt með því sem táknar útvegg og helmingur áhorfenda sér innisviðið og helmingur útisviðið. Svo er skipt um sali í hléi og allt byrjar upp á nýtt. Tilviljun ein ræður hvort áhorfendur sjá á undan, enda skiptir það engu máli. Gluggar og hurðir útveggjarins tengja sviðin tvö þannig að bæði sjá áhorfendur og heyra að nokkrum hluta það sem fram fer hinu megin veggjar, en einnig vaða leikararnir í sífellu milli sviðanna og eiga því innkomur og útgöngur af sviðunum til skiptis.

Uppsetningin reynir gríðarlega á leikarana og það er með ólíkindum hvað leikstjórinn hefur náð að samhæfa þennan misreynda hóp. Hraðinn í verkinu er mikill og allir þurfa að skila sínu á hárréttu augnabliki. Það er ekkert nýmæli í gamanleik en tvíleikurinn í verkinu tvöfaldar um leið mikilvægi tímasetninganna. Þannig er persóna sem strunsar út af sviðinu með tilheyrandi hurðarskelli ekki kominn í öryggi baksviðsins, heldur á hún um leið innkomu í senu sem er í gangi fyrir öðrum áhorfendum. Og leikararnir sex bara gera þetta eins og það sé ekkert mál.

himnariki2Það er ekki tilgangur verks sem þessa að birta áhorfendum djúpa og flókna persónuleika, hvað þá að fylgjast með sjálfsskoðun þeirra eða þroskaferli. Þær birtast fullmótaðar og það er tengingin milli þeirra og samskiptin öll sem keyrir söguna áfram. Persónurnar eru nokkuð mis eftirminnilegar enda hlutverkin mis þakklát og spennandi. Leikararnir allir standa sig hins vegar einfaldlega frábærlega. Þau halda öll takti og eru með ólíkindum samtaka. Þau eru öll trúverðug og halda sér í hlutverkum sínum alla sýninguna. Innkomur allar ganga upp, tjáskiptin milli þeirra eru sannfærandi og svo eru svipbrigði þeirra og líkamsbeiting oft hreint óborganleg. Ólöf Huld Matthíasdóttir er fantaflott. Hún skilar af krafti miklum persónuleika sem á í erfiðleikum með skapið og tilfinningarnar. Inga María Ellertsdóttir er ógleymanleg í hlutverki blaðurskjóðunnar, sem segir það sem hún hugsar, stundum jafnvel áður en hún hugsar. Jóhann Axel Ingólfsson er yndislegur sem ungi maðurinn sem reynir að gera gott út öllu og halda uppi gleði hvernig sem honum líður sjálfum. Steingrímur Magnússon er traustur í fremur rislitlu hlutverki enda túlkar hann mann sem alltaf er varamaður! Hann er þó sannfærandi í sínu og nýtir þær senur sem hlutverkinu bjóðast. Hildur Axelsdóttir fer líklega með vanþakklátasta hlutverk sýningarinnar en skilar sínu vel. Hún dettur aldrei úr karakter og heldur köldu og fálátu fasi út í gegn. Brynjar Gauti Schiöth fer með ýktasta karakter verksins og er sá sem fer næst því að vera í leikgervi. Hann er frábær að vanda, leikur hér gaurinn sem alltaf er tappi sama á hverju gengur og bara neitar að taka lífið of alvarlega.

Freyvangsleikhúsið hefur verið gjarnt á að setja upp krefjandi verk og það er sannarlega tilfellið að þessu sinni. Flækjustigið í leikritinu sjálfu kallar á gríðarflókna leikmynd. Yfirsmiður hennar er Haukur Guðjónsson og hefur hann með sínu fólki smíðað hljóðeinangraðan vegg sem skiptir sal Freyvangs í tvö rými, auk þess að smíða þar tvær leikmyndir. Uppskipting salarins þýðir að tæknimenn sýningarinnar sjá einungis annað sviðið og vinna út frá því. Segja má að þar sjáist eini veiki hlekkurinn í annars frábærri sýningu. Allar persónur verksins eiga á einhverjum tímapunkti eintöl þar sem þau standa í dempuðu kastljósi. Eintölin veita innsýn í líf og tenginu persónanna og eru sem slík ágæt. Vandamálið snýr að tvíleiknum því eintölin virðast ekki öll alveg jafnlöng og því verður í sumum tilfellum örlítið hik á öðru sviðinu þar til ljósin breytast á ný. Þetta undirstrikar þó enn hið gríðarlega samræmi sem tæknimenn og leikarar,verða að treysta á að sé til staðar á báðum sviðum samtímis til að allt gangi upp.

Og utan þessara örlitlu hika gengur bara allt upp og þá er sama hvar borið er niður. Leikurinn, hönnun og smíði leikmynda, val leikmuna, hönnun og keyrsla lýsingar, val búninga og útsetning förðunar. Þetta er allt til fyrirmyndar. Leikmyndir og leikmunir skapa heildar stemningu sumarbústaðar – samsafn gripa, húsganga og smáhluta gerir innisviðið mjög trúverðugt. Heitur pottur í fullri virkni sem notaður er óspart í sýningunni er svo kapítuli út af fyrir sig og setur mjög skemmtilegan blæ á sýninguna alla. Förðunin er smekkleg og látlaus og búningarnir hefðbundinn fatnaður sem þó er nógu fjölbreytilegur til að undirstrika persónugerðirnar í leiknum. Sýningin er enn einn sigurinn fyrir Freyvangsleikhúsið og þá ekki síður fyrir leikstjórann Jón Gunnar Þórðarson.

Áhorfendur frumsýningar skemmtu sér konunglega og hlátrarsköllin dundu út alla sýninguna. Þetta er ekki leikrit sem ætlar sér að gera heiminn betri með beittri samfélagsádeilu eða grundvallandi upplýsingum. Þetta er gamanleikur, settur á svið til að gleðja áhorfendur og veita skemmtilega tilbreytingu á hefðbundnu formi leikhússins. Í þessari sýningu tekst það fullkomlega og heimsókn í Himnaríki Freyvangsleikhússins er tíma verulega vel varið.

Þórný Barðadóttir

{mos_fb_discuss:2}