Nú er haust- og vetrarvertíðin að hefjast hjá Leikfélagi Selfoss og nóg er á dagskrá, reyndar svo mikið að stjórnin hefur setið sveitt undanfarið við að koma öllum þeim viðburðum sem boðið verður uppá fyrir á dagatalinu. Það verður því engin lognmolla í leikhúsinu á Selfossi og mun það iða af lífi frá hausti og fram á vor og allir ættu að finna eitthvað spennandi við sitt hæfi. Að venju mun haustið hefjast á haustfundi leikfélagsins þar sem dagskrá vetrarins verður kynnt.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 9. september kl. 20:30 í Litla leikhúsinu við Sigtún á Selfossi. Fundurinn verður afar heimilislegur í notalegu húsi með notalegu fólki og opinn öllum. Leikfélagið hvetur alla til að mæta og kynna sér leikfélagið og starfið þar sem fólk á öllum aldri getur gleymt amstri dagsins og fengið útrást fyrir sköpunarkraft, hæfileika en umframt allt gleði. Heitt verður á könnunni, takið daginn frá og takið endilega með vini og kunningja sem kynnu að hafa áhuga. Þar verður m.a. kynnt verk vetrarins, Hugarflug, 2 frábær námskeið, Margt smátt, laugardagskaffi og höfundahópur.

{mos_fb_discuss:3}