Nú er hauststarfið komið á fullt hjá mörgum aðildarfélögum Bandalagsins. Leiklistavefurinn forvitnaðist aðeins um hvað er í pípunum og í ljós kom að eins og við var að búast kennir þar ýmissa grasa, íslensk og erlend klassík í bland við nýrri verk, gaman, alvara, söngur og allt þar á milli. Það er því bara útlit fyrir viðburðarríkan og skemmtilegan leiklistarvetur um allt land…
Leikfélag Húsavíkur æfir nú Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren í leikstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Frumsýning verður 8. nóvember. Á myndinni sem hér til hliðar má sjá þau Patrek og Ragnheiði Diljá sem fara með hlutverk Emils og Ídu.
Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur hafið æfingar á gamanleiknum Góðverkin kalla! eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og frumsýnt verður 18. október.
Leikfélag Sauðárkróks æfir nú af kappi barnleikritið Pétur Pan eftir J.R. Barrie í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Leikendur eru 22 á aldrinum 7 ára til fimmtugs og um 10 manns í viðbót koma að sýningunni með öðrum hætti. Leikstjóri er Stefán Sturla Sigurjónsson og reiknað er með frumsýningu 18. október.
Leikfélag Kópavogs ætlar að frumsýna Skugga Svein í leikstjórn Ágústu Skúladóttur seinni part október.
Leikfélag Dalvíkur ætlar að setja á svið Jóladagskrá, samantekt af ýmsu efni tengdum jólum, bæði leiknu og sungnu. Stefnt er á frumsýna í byrjun nóvember, hugsanlega þann fimmta. Höfundar eru Arnar Símonarson, Sólveig Rögnvaldsdóttir og Lovísa María Sigurgeirsdóttir, þau munu jafnframt leikstýra dagskránni.
Leikfélag Keflavíkur ætlar að setja upp Sex í sveit eftir Marc Camoletti í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri er Örn Árnason og frumsýning verður seinni part október.
Hugleikur mun fram að áramótum halda tvö námskeið og sýna eina stuttverkasýningu. Fyrra námskeiðið er tónlistarspunanámskeið undir stjórn Gunnars Ben sem haldið verður í október, en afrakstur námskeiðsins mun nýtast í stuttverkasýningu félagsins. Seinna námskeiðið er leikaranámskeið með áherslu á textameðferð hjá Rúnari Guðbrandssyni leikstjóra sem haldið verður í nóvember og desember. Þetta árið hyggst Hugleikur aðeins vera með eina stuttverkasýningu og verður hún því með veglegra móti. Höfundar félagsins hafa skrifað ný stuttverk sem öll hafa það sammerkt að fjalla með einum eða öðrum hætti um afmæli, en Hugleikur fagnar 25 ára starfsafmæli sínu á þessu leikári. Stuttverkin verða frumsýnd í fjölnota sal Listasafns Reykjavíkur föstudagskvöldið 31. otkóber.
Leikfélag Ölfuss mun hefja æfingar á gamanleiknum Blúndur og blásýra eftir Joseph Kesselring seinnipart október. Stefnt er að frumsýningu upp úr miðjum janúar. Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson.
Peðið mun fljótlega hefja æfingar á sinni árlegu jólasýningu sem að þessu sinni verður í leikstjórn Björns Gunnlaugssonar. Um er að ræða tvö stutt verk sem verður skeytt saman í bráðskemmtilega sýningu með söngvum og fíneríi. Annars vegar er það leikgerð Magnúsar heitins Péturssonar á Litlu Stúlkunni með Eldspýturnar eftir HC Andersen, en hins vegar nýtt verk eftir innanbúðarmanninn Gunnar Gunnsó Gunnarsson sem enn hefur ekki hlotið endanlegt heiti. Frumsýning verður 30. nóvember og sýningar verða á efri hæð Grand Rokk, Smiðjustíg 6, alla sunnudaga í aðventu.
Leikfélag Ólafsfjarðar ætlar að setja upp Á svið! eftir Rick Abbot og mun Jón St. Kristjánsson leikstýra.
Leikfélag Hveragerðis setur upp frumsamið verk sem heitir H.V.S.F.Í. eða
Himnaríki – Verndarans skýra og fagra ívist. Höfundar eru Hafsteinn Þór Auðunsson, Jakob Hansen og Sindri Kárason og leikstjóri Ólafur Jens Sigurðsson. Frumsýnt verður ca. 20. október.
Halaleikhópurinn ætlar að sýna verk samsett úr Shakespeare-verkum undir stjórn Þrastar Guðbjartssonar eins og lesa má annars staðar á síðunni en jafnframt mun Þröstur halda námskeið í október þar sem varið verður í alla grunnþætti leiklistarinnar. Námskeiðið hefst 13. okt. og lýkur 25. okt. Kennt verður mánudaga til fimmtudaga frá kl. 19.30 til 21.30 og frá 13.00 til 15.00 á laugardögum. Skráning og nánari upplýsingar í síma 862-4276 og á info@halaleikhopurinn.is Verð er 3000 kr. fyrir skuldlausa félagsmenn og 5000 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir.
Leikfélag Selfoss verður með sýna árlegu stuttverkasýningu Hugarflug í fyrstu helgina í nóvember. Æfingar hefjast síðan á leikriti fyrir börn um miðjan nóvember og verður leikstjóri Ármann Guðmundsson. Frumsýning verður í kringum mánaðarmótin janúar/febrúar. Auk þess stendur félagið fyrir tveimur opnum námskeiðum í haust sem lesa má um annars staðar á síðunni.
Hjá Leikfélagi Mosfellssveitar eru hafnar eru æfingar á nýju íslensku leikriti sem heitir Ættarmótið og er eftir Birgi Sigurðsson og verður frumsýnt í janúar, leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir. Í lok október/byrjun nóvember verður félgaið með einþáttungakvöld og í desember verður jóladagskrá. Einnig er hafin vinna við uppsetningu á Litlu hafmeyjunni sem er í samstarfi við Listaskóla Mosfellsbæjar og munu að þeirri sýningu koma 35 leikarar, 15 tónlistarmenn þarna hefur verið ráðinn leikstjóri Bjarney Lúðvíksdóttir. Einnig verður barna- og unglingastarf í blóma eins og s.l. ár og er nýlokið sýningum á Ýkt kominn yfir þig þar sem 30 ungliða Mosó sýndi. Innan leikfélagsins er nýbúið að stofna Unglið LM og er það starf undir stjórn Agnesar Þ. Wild og Sigrúnar Harðardóttur.
Leikfélag Rangæinga stendur fyrir leiklist fyrir börn eins og undanfarin ár og er ætlunin að setja upp eina sýningu fyrir jól. Ekki hefur verið ákveðið hvaða verk verður sýnt.
Leikfélag Hólmavíkur er með sögustund í gangi sem er dagskrá sett saman úr þjóðsögum sem gerast í Strandabyggð. Fór þetta verkefni í gang í vor og var sýnt í heild á tveimur sýningum nú í lok ágúst. Síðan verða sýndir bútar úr verkinu á hinum ýmsu viðburðum á svæðinu í haust. Dagskráin var sett saman af Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur sem einnig leikstýrði. Síðan er leikfélagið að vinna í búningamálum sínum, það er að búa til búninga frá fyrri tíð, frá því um og eftir aldamótin 1900. Þessa hluti hefur félagið vantað mjög í gegnum árin og munu því félagsmenn sauma, prjóna og annað í þeim efnum.
{mos_fb_discuss:3}