Starfsemi Halaleikhópsins leikárið 2010-11 hefst með félagsfundi í Halanum, Hátúni 12. Kl. 20.00, þann 2. október þar sem verkefni leikársins verða kynnt. Aðalverkefnið er gamanleikurinn Góðverkin kalla eftir þríeykið Ármann Guðmundsson, Þorgeir Tryggvason og Sævar Sigurgeirsson, sem frumsýnt verður eftir áramót, en ráðnir hafa verið tveir leikstjórar til að setja verkið upp, þau Oddur Bjarni Þorkelsson og Margrét Sverrisdóttir. Þau munu einnig halda námskeið í haust með yfirskriftinni Hvernig skapar maður persónu?
Góðverkin kalla! er gamanleikrit sem gerist á Gjaldeyri við Ystunöf þar sem lífið snýst um góðverk. Allir sem ekki hafa tapað glórunni, lifa fyrir starfsemi góðgerðafélaga sem eru mörg á Gjaldeyri við Ystunöf. Segja má frá því að ný hjúkrunarkona kemur til bæjarins, og er tekið opnum örmum af ýmsum íbúum sveitarfélagsins. Sjúkrahúsið á afmæli og það þarf að finna veglega gjöf handa því, a.m.k. veglegri en það sem hin félögin gefa. Fyrirkomulag æfingatímabilsins verður svipað og síðustu ár.
Námskeiðið Hvernig skapar maður persónu? er ætlað til að hrista saman leikhópinn og undirbúa vinnu vetrarins. Þátttakendur verða síðan leiddir gegnum æfingar og aðferðir við að skapa persónur, bæði frá grunni og eftir handriti. Farið verður í raddbeitingu, notkun á leikmunum, líkamsbeitingu og búningum. Einu skilyrðin eru að þáttakendur mæti óundirbúnir og tilbúnir að leika sér og hafa gaman. Nánar kynnt á félagsfundinum. Námskeiðið hefst 20. okt. og stendur í 2 vikur eða 20 tíma alls. Verð kr. 3000 fyrir skuldlausa félagsmenn en 6000 kr. fyrir aðra. Allir velkomnir. Skráning á info@halaleikhopurinn.is eða í síma 897-5007
Að loknum félagsfundinum 2. október verður svo Halapartý með hefðbundnu sniði. Nýjir félagar eru velkomnir
{mos_fb_discuss:2}