Haustfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
Haldinn á Hótel Selfossi 01.10. 2006

Fundur settur kl. 09.00

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir flutti lítinn “skyndihjálparpistil” til bjargar deyjandi leikfélögum.

SKYNDIHJÁLP
Fyrir leikfélög í andnauð

Algeng sjúkdómseinkenni
– Félagaleysi
– Peningaleysi
– Húsnæðisleysi
– Aðsóknarleysi
– Almennt vonleysi

Félagaleysi
– Gæði félagsins mælist ekki í fjölda á félagaskrá
–    Einu sinni var einn í leikfélagi Hólmavíkur
– Betra að hafa fáa en áhugasama en fleiri nauðuga
–    Það eru til mjög skemmtileg leikrit fyrir fáa leikara
–    Bar Par
– Sníða sér stakk eftir vexti
–    Hlusta á hversu mikla starfsemi félagar vilja
– Ekki hætta að auglýsa fundi þó fáir mæti
–    Hver einstaklingur getur reynst hvalreki

Er kassinn tómur?
–    Hugsa smátt í byrjun
–    Verkefni kosti sem minnst
–    Reikna með því að ríkisstyrkur dekki kostnað, innkoma verði bónus, ef einhver verður
–    Fá vilyrði fyrir styrk frá bæjarfélaginu
–    Reyna að fá góða krafta ódýrt. Er t.d. atvinnumaður í faginu úr byggðarlaginu?
–    Reyna að fá fyrirtæki á svæðinu til að styrkja félagið, t.d. Um efni í umgjörð sýningar. (Borga fyrir ALLT með auglýsingum í leikskrá.)

Að keppa við sjónvarpsdagskrána
– Sjá til þess að menn viti af sýningunni
–    Auglýsa vel á svæðinu, líka í nærliggjandi plássum
–    Bjóða aðstandendum og “silkihúfum” á frumsýningu
– Reikna aldrei með einum einasta áhorfanda
–    Hver einasti áhorfandi telur
–    Hver sýning markar nýtt upphaf. Forðist samanburð við síðasta kassastykki.
– Taka tillit til íbúafjölda á svæðinu
– Eðli verkefnisins
–    Gaman selur betur en drama
–    Þekkt selur betur en óþekkt
–    Barnaleikrit ganga yfirleitt vel
–    Tónlist spillir aldrei fyrir

Öll veröldin er leiksvið
Í leikhúsnæði þarf ekki:
– upphækkað svið
– flókinn ljósabúnað
– Ekki einu sinni stóla

– Gömul atvinnuhúsnæði
– Stofan hjá formanninum
– Kaffihús
– Á sumrin er hægt að leika úti

Leikfélagsþunglyndi
Af hverju erum við að þessu?
–    Hver annar myndi svosem?
–    Samfélagið ætlast til þess
–    Aðrir félagar ætlast til þess
–    Svarið þarf alltaf að vera:
Vegna þess að mig langar til þess!

Félagið þarf aðeins að vera til á meðan einhver VILL starfa í því.

Margrét taldi rétt að setja þennan pistil á Leiklistarvefinn.

Þorgeir: Gott framtak að gera sjálfshjálparbók handa hræddu leikfélagi. Hann taldi þó göfugt í sjálfu sér að halda lífi í félaginu, verðmæti í því að félagið deyi ekki, gögn, auðveldara að hefja starfsemi í félagi sem er til heldur en í félagi sem lagt hefur verið niður.
Einnig þótti honum rétt að hafa hugmyndir í verkefnavali.

Lárus:    Stundum heldur maður lífi í félagi af skyldurækni. Vill ekki vera sá sem er ábyrgur fyrir að leggja niður 75 ára félag. Þarf ekki marga til. Erfitt að fá fólk til starfa sem kann til verka. Lagði til að stofnuð yrði björgunarsveit bandalagsins sem kæmu félögum í tilvistarkreppu til aðstoðar.

Margrét sagðist hafa fengið góð ráð hjá Lárusi um hvernig endurlífga skyldi leikélag. Hún mælti með stofnun björgunarsveitar og einnig með reynslubanka með góðum ráðum, hugsanlega á Leiklistarvefnum.

Þorgeir velti upp gamalli hugmynd sem snerist um að athuga hvort Bandalagið gæti fjarstýrt stofnun leikfélags.

Guðrún Halla kynnti uppkast að samningi við leikstjóra fyrir leikfélög. Hún sagði mikilvægt að semja um allt fyrirfram. T.d. ekki sérgreiðslu fyrir útlitshönnun sýningar nema samið sé um það sérstaklega. En það er ekki einhliða ákvörðun leikstjóra. Ekki er skylda að leikfélag borgi uppihald eða ferðir en vitaskuld má semja um það sérstaklega. Félög geta áskilið sér rétt til að greiða ekki bakreikninga. Þetta samningsform að duga til þess að halda utan um alla þætti vinnunnar. Félagið ber ábyrgð á að manna ákveðnar stöður. Halla ítrekaði að ekki væri til launataxti fyrir leikstjóra og að félög ættu ekki að nota samninginn frá leikstjóra- eða leikarafélaginu. Hægt að fá samningseyðublað á Bandalaginu, verklagsreglur eru til, gott að hafa skipurit með.

Spurt var hvort hægt væri að gefa út yfirlýsingu þess efnis að ekki ætti að nota samninga frá Leikara- og Leikstjórafélagi.

Ármann sagði frá því að félög hringdu mikið á skrifstofuna og spyrja um launataxta leikstjóra. Eins og menn hefðu ekki á hreinu hvað var borgað árið áður.  Gömlu launataxtarnir eru til uppfærðir inni á vef Leikstjórafélagisns. En þá þarf alls ekki að nota.

Vilborg sagði frá því að hún hefði reiknað út meðaltal þess sem leikfélög voru að greiða utanaðkomandi leikstjórum í laun síðasta vetur. Út úr því kom að laun voru um 550.000 fyrir sýningu í fullti lengd. Þarna var aðeins um að ræða “strípuð” laun fyrir leikstjórn, utan allra hlunninda.

Ingvar, formaður Leikfélags Hafnarfjarðar, sagði frá því að sitt félag treysti mikið á leikstjóra innan félags. Umræða hefði komið upp í því félagi um að greiða innanfélagsleikstjórum laun. Hann auglýsti eftir reynslusögum um slíkt.

Guðrún Kristín, formaður Leikfélags Húsavíkur, sagði það sjálfsagt.

Guðfinna, formaður leikfélags Selfoss,  sagði að þau hefðu alltaf greitt innanfélagsleikstjórum eitthvað, minna en utanaðkomandi, samt.

Herdís, Leikfélag Mosfellssveitar: Allt í lagi að borga eitthvað, en myndi ekki taka full laun fyrir að leikstýra í sínu félagi.

Hrund:     Hjá leikfélagi Kópavogs er það haft þannig að leikstjórar fá sem nemur ríkisstyrknum.
 
Sigurður, formaður Hugleiks sagði frá því að hans félag hefði talsvert verið með innanfélagsleikstjóra, en ekki borgað þeim. Erfitt að draga mörkin hvar leikstjórnarvinna er gjaldskyld. Af hverju ættu leikstjórar að fá greitt en ekki aðrir?

Þorgeir sagði aldrei hafa staðið til að borga innanfélagsleikstjórum í Hugleik. Hins vegar hefur fagmaður á öðru sviði hefur rukkað fyrir að gera það sem er hans atvinna. Leikfélagið á aldrei að borga fyrir það sem það getur fengið ókeypis. Samningsatriði. Hann sagðist vera áhugaleikstjóri þar sem honum þætti það skemmtilegasta vinnan í leikfélaginu. Sækist því eftir að fá að vinna þá vinnu á sömu forsendum og aðrir.

Herdís taldi að ekki ætti að vera sjálfgefið að fá leikstjóralaun fyrir sýningu.

Guðfinna sagði félagið hafa greitt félagsmönnum laun fyrir vinnuna þar sem það hefði leitað til leikstjóranna.

Guðrún Halla sagði frá því að hennar félag, Freyvangsleikhúsið, hefði styrkt hana að fullu á leikstjórnarnámskeið á skólanum og ætlast er til að menn skili einhverju heim. Hún sagðist hafa leikstýrt styttri verkum hjá þeim  en tók fram að það væri vinnutap fyrir sig ef hún ætti að setja upp sýningu í fullri lengd, sem sér þætti eðlilegt að félagið bætti.

Lárus sagði þessa umræðu hafa mikið verið í gangi í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Aðrir hafa fengið greitt, til dæmis fyrir tæknivinnu. Á sínum tíma var ákveðið að ekki yrði greitt fyrir leikstjórn. Munur sem liggur í því að menn séu að vinna við sitt fag. Það hefur bjargað leikfélögum úr alvarlegum fjárhagsvanda að nota leikstjóra innan félagsins sem vinna frítt. Þó er því ekki að neita að leikstjóravinnan meiri tíma en önnur störf í leikhúsinu, spurning um hvað menn treysta sér til að gera. Það verður að vera einstaklingsbundin ákvörðun. Menn eiga að vera í áhugaleikfélagi af áhuga. Leikfélag Hafnarfjarðar hefur greitt atvinnuhönnuðum og tónlistarmönnum.

Þorgeir sagði að þó engar reglur væru til þyrfti að vera sátt um málið innan hvers félags. Bara bannað að vera með vesen.

Halldór sagði að fjölmiðlar og/eða fagfólk dáist að því  hversu margir starfa að sýningunum launalaust. Hann taldi rétt að félögin reyndu að halda sig við það.  Um leið og menn fara að fá borgað er  áhugamennskan í hættu. Hann taldi þetta geta orðið viðkvæmt innan hópsins. Ef einhver ætlar að fá borgaðan t.d. kostnað vegna leikfélagsins. Til dæmis símakostnað. Því að borga þeim frekar en leikurum? Honum þótti rétt að hafa þeta eins og í íþróttum. Svo geta menn bara farið út í atvinnumennsku ef þeir vilja það.

Lárus sagði ekkert klippt og skorið í þessu efni. Lengi framanaf fengu menn greitt. Allir fengur greitt dagpeninga í leikferðum. Á 3. og 4. áratugnum fór helmingur innkomu í laun. Mörg félög þróuðust yfir í að verða atvinnuleikhús. Málið að allir séu sáttir. Sjálfsagt þótti að borga fólki þegar peningar voru til, fyrir 30 árum.

Margrét sagðist hafa tekið þátt í að gera bæði. Ekki allir félagar jafnfjáðir. Sagðist sjálf ekki hafa haft efni á að leikstýra frítt þegar hún var blönk. Hvað á t.d. að gera við leikara sem hefur ekki efni á að keyra á milli? Hún taldi minni peninga vera til á smærri stöðum.

Guðrún Halla: Var einu sinni útvegað pössun af leikfélaginu að kröfu leikstjórans. Pabbi hennar var áhugaleikari, og sagði að þetta væri ekkert nema útgjöld og peningaaustur, þau borguðu sjálf fyrir sig í leikferðir.

Ingvar:    Þakkaði fyrir umræðuna. Niðurstaðan í hans félagi var að menn fái borgað óski þeir þess.

Hlé

Guðrún Halla sagði frá því að ætlunin væri að halda leiklistarhátíð Norður-Evrópsku áhugaleikhússambandins (NEATA) á Íslandi árið 2010. Hún velti einnig upp spurningunni af hverju fólk mætti svona illa á fundi og þing Bandalagsins.

Ármann minnti á stuttverkasamkeppni Leiklistarvefjarins. Hann hvatti leikfélög til að nota sér auglýsingaborða á vefnum, en hver svoleiðis kostar 10.000 krónur. Sala á þeim færi í að greiða niður kostnað Bandalagsins vegna stuttverkakeppni sem verður 50.000 krónur.
 
Þorgeir auglýsti sýningu á Systrum hjá Hugleik í Möguleikhúsinu um kvöldið.
Hann sagði innbyggt vandamál í vefinn að fréttir væru fljótar að hverfa. T.d. hvatning til að fara á alþjóðlegt leiklistarnámskeið sem auglýst var í haust, í Rússlandi. Hann sagðist hafa trú á þessum námskeiðum. Spurði hvort hægt væri að endurnýja fréttina.
Þorgeir sagði frá því að Morgunblaðið væri hætt að láta skrifa gagnrýni um áhugaleiksýningar. Fulltrúar úr stjórn fóru á fund Moggafólks og stjórn og skrifstofa tóku að sér að vísa á fólk í landsfjórðungum sem gæti skrifað. Gagnrýnendur verða ekki sendir að sunnan. Hann mælti samt með því að menn héldu áfram að bjóða gagnrýnendum Morgunblaðsins á sýningar, ef ske kynni að einhver þróun yrði með að finna gagnrýnendur heima fyrir.

Ármann sagði frá því að í gang væri komin nefnd sem væri að vinna í því að fá handritasafn Bandalagsins viðurkennt sem safn. Hann sagði ennfremur frá því að safninu hefðu nýverið borist nokkuð af handritagjöfum, og þar hafi verið að finna talsvert af handritum sem ekki hafi verið til í safninu. Bæði frá sjálfstæðum leikhópum og frá því áður en félög fóru að þurfa að skila handritum til skrifstofu. Ármann hvatti leikfélög til að koma handritakössum sem hugsanlega væru að flækjast fyrir þeim á skrifstofu Bandalagsins þar sem markmið safnsins væri að safna öllu sem til væri á íslensku.

Lárus sagði litla handritasögu. Ákveðið var að grafa upp gamalt handrit af vinsælasta verki sem Leikfélag Hafnarfjarðar hefur sett upp, Ráðskona Bakkabræðra. Fann bara stílabók með einu hlutverki, niðurskrifuðu, hjá leikfélaginu. Það var ekki til í handritasafni Bandalagsins. En svo fannst verkið fyrir tilviljun, í nýlegri handritagjöf til Bandalagsins frá ekkju fyrrverandi formanns Leikfélags Hafnarfjarðar.

Halldór, formaður Freyvangsleikhússins, sagði frá því að Ráðskona Bakkabræðra hefði einnig verið eftirlýst í Freyvangi þar sem þar stendur fyrir dyrum stórafmæli, en Ráðskonan var einmitt fyrsta verkið sem Freyvangsleikhúsið setti upp.

Guðrún Halla sagði nánar frá ákvörðuninni að halda NEATA hátíð. Á slíkum hátíðum eru jafnan sýningar frá öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum auk boðsýninga frá löndum utan NEATA. Í ágúst var haldin glæsileg NEATA-hátíð í Færeyjum. Því ætti alveg að vera hægt að halda slíka á Íslandi, sérstaklega þar sem fjögur ár eru enn til undirbúnings. Búið er að ræða við bæjarstjóra Akureyrar um að hátíðin yrði haldin þar. Ljóst er að búið verður að byggja menningarhús þar auk þess sem leikrými eru þegar orðin fleiri og betri en áður. Aðstæður á Akureyri eru mjög góðar til að halda slíka hátíð.
Halla spurði hvað þyrfti að gera til að fá fólk til að vera með? Hún saði ljóst að sjálfboðaliðar frá leikfélögunum þyrftu að taka þátt í vinnunni.

Fyrirspurn: Í hverju felst vinnan?

Lárus: Vinnan felst í vinnu margra sjálfboðaliða. Gaman er að fá að taka þátt, sjá 13 – 14 leiksýningar. Hver gestaleikhópur þarf leiðsögumann. Það þarf starfsfólk í upplýsingamiðstöð, fólk í mötuneyti, tæknimenn og ýmislegt annað á staðnum. Einnig væri gott að sem flestir mættu og tækju þátt í opnunarhátíð.
En gestgjafarnir þurfa að sjá um allt. Aðeins verða ein ein eða tvær íslenskar sýningar á hátíðinni, aðrar verða erlendar. Sennilega þarf um 40 – 50 sjálfboðaliða á hátíðinni.
Svo þarf fólk í undirbúningsnefndir, svo sem fjáröflunarnefnd, kynningarnefnd og ritnefnd leikskrár. Nákvæm tímasetning er ekki alveg á hreinu. Þessar hátíðir hafa jafnan verið í byrjun ágúst, en ljóst er að hátíð á Íslandi verður ekki haldin um verslunarmannahelgi.
Vel gekk vel að manna leiklistarhátíðina L2000, en ekki leiklistarhátíðina Leikum núna árið 2005.

Þorgeir talaði um leiklistarhátíðir. Hafði farið á margar svona og svipaðar hátíðir og sagði það vera stórkostlega upplifun. Taldi verða ánægjulegt að fá að vera gestgjafi. Hann sagði mikla stemmingu vera víða fyrir íslensku áhugaleikhúsi, það hefði á sér mjög gott orð erlendis. Frábært væri að fá sem flesta sjálfboðaliða og mikilvægt að þeir sem starfa í íslensku áhugaleikhúsi fjölmenni.

Margrét Tryggva sagðist hafa tekið þátt í alþjóðlegri leiklistarhátíð á Íslandi árið 1986. Hún sagði gaman að vinna á svona hátíð. Sagði sögu af sýningu frá Álandseyjum þar sem konan sem átti leikfélagið hafði keypt sér aðalhlutverkið.

Hjalti sagði leiklistarhátíðir vera það skemmtilegasta í heimi. Hann staðfesti einnig að margir erlendis hefðu mikið álit á Íslensku áhugaleikhúsi.

Lárus sagði söfnun sjálfboðaliða þurfa alveg eins að beinast til einstaklinga eins og félaga.

Ingvar, formaður Leikfélags Hafnarfjarðar sagðist ætla að skapa stemmingu fyrir hátíðinni í sínu félagi.

Íris sagðist hafa áhuga á að taka þátt að svo miklu leyti sem hægt væri að ákveða slíkt 4 ár fram í tímann.

Guðrún Halla vakti máls á því hversu fáir mæta á Bandalagsþing og haustfundi. Hún ítrekaði að Bandalagið væri hagsmunasamtök leikfélaganna. Hún taldi brýnt að finna leið til að fá fólk til að skilja að þess félag þurfa að taka þátt í vinnunni sem fram fer á fundunum. Á aðalfund í Stykkishólmi kom fulltrúi menntamálaráðuneytisins, en aðeins 20 manns frá félögunum voru mættir á þann fund. Fleiri þurfa að koma að stjórnun samtakanna. Hvað þarf stjórn Bandalagsins og viðstaddir að gera til þess að vekja þá til meðvitundar sem ekki eru á svæðinu?

Agnes Drífa Pálsdóttir, formaður Leiklistarfélags Seltjarnarness sagði hafa verið mjög gagnlegt fyrir sig sem stjórnarmann í leikfélagi að mæta á allsherjarfund.

Halldór, Freyvangi, kom í fyrsta skipti á þing síðasta vor en taldi þessa helgi hafa gagnast sér betur en síðasta þing.

Gerður spurði hvort þetta yrði kannski að vera eins og með Múhammeð og fjallið? Spurði hvort mögulegt væri að senda erindreka heim til félaganna og fjalla um mikilvægi þess að hittast. Hún taldi þau skilaboð greinilega ekki að komast til skila.

Lárus sagðist hafa starfað með leikfélagi síðan 1983. Kom fyrst á þing 1996. Fram að því hélt hann að þetta væri bara eitthvað fyllerí og hórgangur. Hann taldi mikilvægt að þeir sem fundina sæktu gæfu góða mynd af því sem gert væri á fundinum þegar heim kæmi. Hann fór fyrst á þing með nýjum formanni sem þorði ekki einn og komst þá að því að þetta væri alvöru vinna.

Þorgeir taldi ýmislegt vera hægt að gera í þessu en þó ekki neina töfralausn vera til. Hann lagði til að stjórn settist niður einhversstaðar með gögnin og skoðaði hvernig þátttaka hefði verið að þróast. Vitum við af hverju sum félög mæta aldrei? Skoða svo hverju er hægt að breyta. Hægt að vinna nokkur praktísk atriði.

Vilborg: Eitt af því sem gert var, var að fela stjórnarmönnum fósturhlutverk þannig að hver þeirra tæki að sér að vera í sem bestu sambandi við hver félag.

Ingvar taldi að á þessum vanda yrðu helst unnið með peningum.

Gerður stakk upp á að félög sem mættu ekki yrðu sektuð.

Ólöfu þótti alveg umhugsunarvert að setja aukagjald á þá sem ekki mættu.

Lárus varaði við aukaálögum það væri yfirleitt peninga- og tímasóun.

Guðfinna taldi vænlegt til árangurs að hringja oft í formenn. Sýna þeim áhuga til að vekja áhuga þeirra á Bandalaginu.

Embla taldi sektir ekkert hafa að segja og taldi ekki gott að fá menn á þing sem ekki vildu vera þar.

Hrund taldi alltaf þörf á að halda haustfundi. Alltaf hægt að finna eitthvað þarft til að ræða eða kenna.

Margrét lýsti yfir ánægju með umræðuna á fundinum. Hún sagði haustfundi e.t.v. frjálslegri en aðalfundi. Hún vildi heldur verðlauna þá sem mættu frekar en að refsa hinum.

Einar Þorgeirsson taldi þörf á að kynna dagskrár funda betur út í félögin.

Vilborg: Spurning um að reyna að einfalda dagskrá aðalfundar þannig að hægt væri að eyða meiri tíma í frjálsari umræður. Eins og er eru þeir afgreiðslufundir. Spurning um að skoða lög og vinnureglur.

Halla Rún bauð fram sína krafta á leiklistarhátíð 2010. Spurning um að menn tækju upp hjá sjálfum sér að hringja í fólk hjá öðrum félögum, þar sem þeir þekktu til og skapa stemmingu fyrir NEATA-hátíð 2010.

Guðrún Kristín velti fyrir sér hvernig hægt væri að kynna samtökin inn í sitt félag. Fundargerðir stjórnar eru á vefnum. Hvar má nálgast upplýsingar? Hún sagðist gjarnan vilja taka þátt í hátíð og kvaðst munu segja frá henni í sínu leikfélagi. Hún sagði mikilvægt að allir ættu fulltrúa á fundum og að þeir væru mikilvægir til að ráða fram úr þeim vandamálum sem félögin stæðu frammi fyrir. Ætlar að segja frá gagnsemi fundarins í sínu félagi.

Halldór spurði hvort hægt væri að setja saman ferðapakka fyrir þá sem vildu fara á hátíðina í Lettlandi 2008.

Friðjón Elli, Leikfélagi Selfoss, sagði frá því að fyrirhugað væri að halda ljósanámskeið hjá Leikfélagi Selfoss sem væri öllum opið. Tveir dagar, fyrri dagur er fyrir alla, ekki bara ljósamenn. Hann fann að því að fréttir væru fljótar að hverfa af forsíðu á vefnum og stakk upp á að sér síða væri með upplýsingum um námskeið og hátíðir?
Hann benti einnig á að kominn væri tími á að endurskoða netföng á Leiklistarvefnum.

Hrund vakti máls á stuttverkahátíðinni Margt smátt. Hún hefur nú verið haldin þrisvar undir mismunandi formerkjum og er í stöðugri endurskoðun endurskoðun. Einkum hefur staðið styr um þátttöku Borgarleikhússins og hvort velja eigi inn á hátíðina. Síðasta vor haldin hátíð fyrir alla sem vildu taka þátt. Spurning hvað menn vilja. Ekkert endilega komið til að vera. Búið er að ákveða að halda hátíðina á þessu leikári einhversstaðar nálægt páskum. Ármann, Ólöf og Hrund eru í undirbúningsnefnd.
Hún sagði sína persónulegu skoðun vera þá að hátíðin ætti að sýna bestu stuttverkin félögin væru að gera. Henni þótti ekki við hæfi að fá Borgarleikhúsið lánað til að halda í því “almenna” hátíð.

Herdísi þótti síðasta hátíð ekki hátíðleg. Var einnig þeirrar skoðunar að aðeins ætti að sýna ný íslensk stuttverk.

Fundi slitið