Nú er komið að því að þeir félagar Harry og Heimir sæki Akureyri heim. Þetta sprenghlægilega svakamálaleikrit verður sýnt í Samkomuhúsinu og verður fyrsta sýningin 5. nóvember. Harry og Heimir er gestasýning frá Borgarleikhúsinu, þar sem hún hefur verið sýnd fyrir troðfullu húsi alls 125 sinnum.

Einkaspæjararnir óborganlegu Harry og Heimir flækjast inn í dularfullt hvarf eiginmanns hinnar undurfögru Díönu Klein. Þeir fara alla leið til Transylvaníu og þurfa að takast á við illmennið og söngleikjanördinn Doktor Frank N Steingrímsson. Þeir þurfa líka að kljást við skrímslið Rúrik og ekki síður að bera fram nafn þorpsins Trawitzenfikopfendorf.  Já Trawitzenfikopfendorf! En ástin lætur á sér kræla og Harry gefur Díönu auga … innpakkað… og Heimir spökúlerar, þó hann sé með minnsta heila í Heimi…

Það eru stórleikararnir Sigurður Sigurjónsson, Karl Ágúst Úlfsson og Örn Árnason sem skrifa, stýra og leika Harry og Heimi – með öðrum morðum. Leikritið er byggt á geysivinsælum útvarpsþáttum þeirra félaga um einkaspæjarana Harry Rögnvalds og Heimi Schnitzel og svakamálin sem þeir taka að sér að leysa. Nú bætast töfrar leikhússins við og hér koma einkaspæjararnir ljóslifandi fyrir augu áhorfenda.

{mos_fb_discuss:2}