Harry og Heimir – með öðrum morðum var frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins 12. september sl. Síðan þá hafa verið leiknar 50 sýningar fyrir fullu húsi og komast færri að en vilja nú fyrir jólin þar sem uppselt er langt fram í janúar.  „Við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í og áttum ekki von á þessum gríðarlega góðu viðtökum“ segja þér grínistar Kalli, Örn og Siggi „en við erum mjög sáttir við viðtökurnar. Það var búinn að vera draumur okkar lengi að koma Harry og Heimi úr útvarpinu og upp á svið og hann hefur svona heldur betur ræst.“

Það varð svo óvænt uppákoma eftir hlé á Harry og Heimi í fyrrakvöld þegar 10.000 gesturinn á sýninguna þetta haustið var leystur út með gjöfum í miðri sýningu. Það var hann Jón Torfason sem var sá heppni og fékk hann frá strákunum veglegan blómvönd, gjafakort í Borgarleikhúsið og geisladiskinn með fyrstu útvarpsleikritunum um þá félaga Harry og Heimi.

Ævintýrið er langt frá því að vera á enda því stákarnir segjast munu sýna svo lengi sem fólk vill koma. Það er því spurning hvort Harry og Heimir verði á fjölum Borgarleikhúsins næstu árin því það eru að vaxa upp nýjar kynslóðir sem vilja örugglega kynnast þessum sprengfyndnu spæjurum.