ImageAf óviðráðanlegum orsökum getur ekki orðið af sýningu leikstjórans og myndlistarmannsins Christophs Schlingensiefs, Ragnarökum 2010, í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð í vor. Því hefur verið ákveðið að taka til sýningar nýjasta verk Harolds Pinters, Celebration.

Undirbúningur fyrir Ragnarök 2010 hefur staðið í um hálft ár, en í síðustu viku tilkynnti Schlingensief leikhúsinu að af samvinnu gæti því miður ekki orðið,  þar sem hann kysi fremur að einbeita sér að verkefnum á sviði myndlistar að svo stöddu.

Það er Þjóðleikhúsinu mikið ánægjuefni að geta tilkynnt áhorfendum sínum að í stað sýningar Schlingensiefs hefur verið ákveðið að setja á svið nýjasta leikrit Harolds Pinters, Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum árið 2005. Verkið heitir á frummálinu Celebration og hlaut þá umsögn gagnrýnenda þegar það var frumflutt í London að það væri fyndnasta og aðgengilegasta verk þessa frábæra leikskálds í langan tíma.