Þetta er sýning með tónlist og söngvum, fyrir börn á öllum aldri. Leikritið fjallar um Rympu sem býr á ruslahaugnum. Hún er frekar ófyrirleitin og hagar lífi sínu ekki alltaf eftir lögum og reglu og er svolítið einmana með tuskukarlinum sínum honum Volta. Það er því mjög kærkomið þegar hún fær heimsókn tveggja afskiptra barna sem hún tekur í sína umsjá og kennir þeim ljóta siði. Ýmis fyrirbæri koma einnig við sögu; möppudýr sem vill helst geyma börn og gamalmenni í hólfum og gömul amma sem er yfirgefin og gleymd á elliheimili, ásamt haug, álfi og rottu.
Leikgerð og leikstjórn er í höndum Herdísar Rögnu Þorgeirsdóttur sem hefur verið viðloðandi leikhús í rúmlega 40 ár. Hún hefur leikið í fjölda leikrita og sótt fjölmörg námskeið t.d í leikstjórn, framsögn, ljóðalestri, trúðaleik og svo almenn leiklistarnámskeið.
Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992. Hann hefur frá upphafi haft það markmið að „iðka leiklist fyrir alla“. Hópurinn hefur sett upp eina stóra sýningu árlega, stundum fleiri, og er handbragð hópsins metnaðarfullt. Meðal sýninga sem hópurinn hefur staðið að eru: Kirsuberjagarðurinn eftir Anton P. Tsjekhov árið 2005 og Gaukshreiðrið eftir Dale Wassermann í leikstjórn Guðjóns Sigvaldarsonar. Þar hlaut hópurinn mikið lof enda var sýningin kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2007-2008 á vegum Þjóðleikhússins. Fékk hópurinn að stíga á stóra svið leikhússins að launum með verk sitt fyrir fullu húsi. Einnig hefur leikhópurinn látið semja fyrir sig ný íslensk verk nokkrum sinnum.
Næstu sýningar:
16. feb. laugardagur sýning kl. 16.00
17. feb. sunnudagur sýning kl. 16.00
23. feb. laugardagur sýning kl. 16.00
24. feb. sunnudagur sýning kl. 16.00
Allar nánari upplýsingar er að finna á vef félagsins www.halaleikhopurinn.is.
Sýnt verður í Halanum, Hátúni 12. Hægt verður að nálgast miða á Rympu á ruslahaugnum í síma 897-5007 og á midi@halaleikhopurinn.is.