Æfingar eru hafnar hjá Halaleikhópnum í Hátúni 12, á leikritinu Gaukshreiðrinu, eftir Dale Wasserman byggt á skáldsögu Ken Kesey (1962) í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur. Leikstjóri er Guðjón Sigvaldason. 

Leikritið endurspeglar þann uppreisnaranda sem ríkti í vestrænum heimi á seinni helmingi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það gerist á ríkisreknu geðsjúkrahúsi þar sem einn vistmaður æsir sjúklinga á stofnuninni með sér í uppreisn gegn því sem hann telur vera miskunnarlaust harðstjórnarkerfi. Kerfið bregst ókvæða við og ekkert er látið ógert til að brjóta uppreisnina á bak aftur. Það fjallar um eðli geðveikrahæla, stöðu sjúklinganna innan þeirra eins og litið var á geðjúkdóma um og upp úr miðri síðustu öld.

Gaukshreiðrið er í senn ógnvekjandi, grátbroslegt og sprenghlægilegt og þetta samspil er fyrst og fremst ástæðan fyrir hinum miklu vinsældum þessa heimsfræga verks.

Frekari upplýsingar um Halaleikhópinn og starfsemi hans má finna á www.halaleikhopurinn.is

{mos_fb_discuss:2}