Indíana Jónsdóttir býr í blokk í Fellahverfinu umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur. Indíana lifir á bótum en er fullkomlega heilbrigð. Hún kann á kerfið – er svokallaður kerfisfræðingur. Í litla garðskikanum fyrir aftan íbúðina hefur hún ræktað tré sem er hennar stolt og yndi – Gullregn. Þegar fulltrúi Umhverfisráðuneytisins bankar upp á og tilkynnir að uppræta skuli allar gróðurtegundir sem ekki voru til staðar á Íslandi fyrir árið 1900 snýst heimur Indíönu á hvolf með baráttu upp á líf og dauða.
Ragnar Bragason er í fremsta flokki íslenskra kvikmyndagerðarmanna en meðal verka hans eru Börn, Foreldrar, Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin og Bjarnfreðarson. Aðferðin við sköpun Gullregns er sú sama og Ragnar hefur notað í kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni síðasta áratuginn. Persónur eru þróaðar í samvinnu við hvern og einn leikara í tiltölulega langan tíma. Það skemmir svo ekki fyrir að þjóðargersemin Mugison semur tónlistina við verkið og er þetta frumraun þeirra beggja í íslensku leikhúsi.
Leikarar í verkinu eru þau Sigrún Edda Björnsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir, Halldór Gylfason, Hanna Maja Karlsdóttir og Jóhanna Axelsdóttir.