Leikdeild Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi frumsýnir Gullna hliðið í félagsheimilinu Lyngbrekku föstudaginn 5. mars kl. 20.30. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.
Hátt í 30 manns koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Gullna hliðið er eftir eitt af öndvegisskáldum Íslendinga, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og hans þekktasta leikrit, enda hefur Gullna hliðið unnið sér verðskuldaðan sess meðal sígildra íslenskra leikrita.
Í Gullna hliðinu fylgjast áhorfendur með kerlingu sem leggur á sig mikið ferðalag og ómælt erfiði til að reyna að tryggja að sál Jóns, eiginmanns hennar, komist í Himnaríkisvistina fyrir innan Gullna hliðið. Á því ferðalagi verða margir misjafnlega kynlegir kvistir á leið hennar og sál eiginmannsins fylgir alltaf með í skjóðu kerlingar.
Kerlingin er með stærstu hlutverkum í íslenskum leikritum, en hún er inni á sviðinu frá upphafi og allt til enda. Það er Rebekka Atladóttir sem er í hlutverki hennar. Með hlutverk Jóns heitins fer Jónas Þorkelsson. Þröstur Reynisson leikur óvininn.
Leikdeild Skallagríms hélt fyrsta samlestur á verkinu í desember en æfingar fóru á fulla ferð í byrjun febrúar. Vaxandi gróska og áhugi hefur verið á starfi leikdeildarinnar undanfarin ár og er þetta annað árið í röð sem sett er upp leikrit. Í fyrra var það gamanleikurinn Á svið og árið 2007 var það Sex í sveit sem deildin setti upp. Rúnar Guðbrandsson leikstýrði einnig báðum þessum leikritum og þetta er þriðja leikritið sem deildin setur upp í Lyngbrekku.
Gullna hliðið kom fyrst út á prenti snemma hausts árið 1941 og var frumsýnt sama ár á annan í jólum í Iðnó. Sýningar Leikfélags Reykjavíkur urðu alls 66 og þótti slík aðsókn tíðindum sæta á þeim tíma. Hefur leikritið síðan margoft verið sett upp hérlendis og erlendis og oft og tíðum fengið frábæra aðsókn.
Þó Gullna hliðið sé þekktasta leikrit Davíðs Stefánssonar er hann þó e.t.v. þekktari fyrir kvæði sín sem lifað hafa með þjóðinni í hartnær heila öld. Lög hafa verið gerð við mörg þeirra og nægir þar að nefna Capri Katarínu eftir Jón frá Hvanná, Ég leiddi þig í lundinn eftir Pál Ísólfsson, Til eru fræ, Kvæðið um fuglana og Hamraborgina.
Næstu sýningar verða sunnudaginn 7. mars, fimmtudaginn 11. mars, föstudaginn 12. mars og laugardaginn 13. mars. Allar sýningar hefjast kl. 20.30. Miðaverð er kr. 2.000 en kr. 1.000 fyrir börn 13 ára og yngri. Miðapantanir eru í síma 848 9043. Lyngbrekka er u.þ.b. 10 km vestan Borgarness í hinum forna Álftaneshreppi sem nú er hluti Borgarbyggðar.
Nánari upplýsingar veitir formaður leikdeildar, Jónas Þorkelsson, sími 863 6539.