Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna frumsýndi um helgina Gamanleikinn Góðverkin kalla eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason í leikstjórn Gunnars B. Guðmundssonar.

Ég fór, sá og skemmtl mér konunglega. Leikritið var fyndnara en mig minnti. Smábæjarbragurinn og samkeppni á milli góðgerðarsamtaka höfð í flimtingum af stakri snilld. Ýmsu fórnað á altari fyndsins og þótti mér vel.

Sýningin var ágætlega unnin á öllum póstum, leikmynd og búningar nokkuð raunsæislegir (með tilbrigðum þó) og gerðu trúverðugan heildarsvip. Tónlistin kom nokkuð vel út, þó ég furðaði mig reyndar örlítið á hljóðfæraskipan þar sem í hana vantaði e.t.v. taktslátt, af einhverju tagi. Það var ekki laust við að maður fyndi að erfitt væri fyrir leikhópinn að finna takt út frá orgeli og gítar. Kom samt furðuvel út og orgelið undirstrikaði vissulega sveitalega hljóminn í verkinu.

Leikstjórinn Gunnar Björn er ekki lengur upprennandi eða efnilegur. Ég hef ekki séð honum bregðast bogalistin ennþá, þannig að hann verður að teljast bara reglulega flinkur og fær í sínu, þrátt fyrir ungan aldur. Þessi sýning er tvímælalaust enn ein rósin í hans hnappagat og er hann þar með kominn með heilan vönd þetta árið. Hópurinn er sterkur þó svo að vissulega hafi sumir staðið sig betur en aðrir, eins og gengur. Örlítið óöryggi var reyndar sums staðar í sýningunni en vísast skrifast það að mestu á frumsýningarstress.

Frammistaða Egils Jónassonar í hlutverki fjölmennisins Jökuls Heiðars var með því snjallara sem ég hef nokkurn tíma séð. Íris Blandon var skemmtileg sem hraðlygin og drykkfelld móðir hans og hefur hún einstaklega góða tilfinningu fyrir kómískum tæmingum. Eins var nálgun Ólafs Ásbjörnssonar á naglanum Nonna hefli mjög skemmtileg.