Leikmyndahöfundunum Steinþóri Sigurðssyni og Sigurjóni Jóhannssyni voru veitt heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands árið 2012 á Grímuhátíðinni í gærkvöldi.

Vigdís Finnbogadóttir, heiðursverðlaunahafi ársins 2006, fyrrum leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og forseti Íslands, afhenti þeim verðlaunin.

Steinþór og Sigurjón eru þeir tveir leikmyndahöfundar landsins, sem settu hvað mestan svip á þær leiksýningar sem sýndar voru á tveim helstu leiksviðum höfuðborgarinnar á ofanverðri 20. öld.

Steinþór á litla sviðinu í Iðnaðarmannahúsinu við Tjörnina, Iðnó; þar sem hugmyndaauðgi hans náði að töfra fram ótrúlegustu sviðsmyndir við hinar knöppu aðstæður.

Sigurjón á stóra sviðinu í álfaborginni við Hverfisgötu, Þjóðleikhúsinu; þar sem veröldin var hringsvið og leikhústurn, sem gáfu óþrjótandi hugmyndaflugi hans byr undir vængi.

Steinþór og Sigurjón eru myndlistarmenn sem helgaðu sig leikhúsinu, og sköpuðu sín stærstu og frægustu verk þar. Þeir eiga báðir að baki sviðsmyndir og oftast einnig búninga, við yfir 100 leiksýningar, auk þess að hafa starfað að frjálsri listsköpun sinni og sýningahönnun. Þá hafa leikfélög um allt land fengið að njóta listfengi þeirra.