Leikfélag Vestmannaeyja frumsýndi laugardaginn 6.des jólaleikrit sem þær Alma Eðvaldsdóttir, Arndís Ósk Atladóttir, Eva Lilja Árnadóttir og Steinunn Ragnhildur Guðmundsdóttir skrifuðu fyrir Leikfélagið og nefnist leikritið Grýla gerir uppreisn. Um leikstjórnina sáu þær Alma Eðvaldsdóttir og Eva Lilja Árnadóttir. Sýningar verða allar helgar í desember á laugardögum og sunnudögum klukkan 16:00.

Mikil aðsókn var á námskeið sem haldið var fyrir uppsetninguna og augljóst að krakkar í eyjum hafa mikinn áhuga á leiklist. Því var það ákveðið að allir sem mættu á námskeiði fengju hlutverk og handritið því fínpússað með það í huga og er leikhópurinn, sem einstaklingar frá 10-22 ára skipa, einn sá stærsti sem hefur verið hjá Leikfélagi Vestmannaeyja en hlutverkin eru rúm 50. Alls í kringum 70 manns koma að sýningunni þetta árið og erum við mjög lukkuleg hvað það eru margir sem sýna Leikfélaginu áhuga í ár.

Frumsýningin tókst vel og fólk sem kom að sjá sýniguna hjá okkur gekk út mjög ánægt.
Verkið fjallar í stuttu máli um Grýlu sem er orðin þreytt á því að enginn á heimilinu hjálpi henni við heimilisverkin og hún vill að jólasveinarnir fari nú að leggja eitthvað af sínum mörkum á heimilið, en eitthvað vefst þetta fyrir jólasveinunum sem klúðra öllu, hver á fætur öðrum. Inní þetta fléttast ferðir jólasveinanna til að gefa í skóinn og koma börnin einnig við sögu sem eru heima að bíða spennt eftir jólunum. 

{mos_fb_discuss:2}