Halaleikhópurinn
Góðverkin kalla
Leikstjórar: Margét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson
Leiðin til vítis er vörðuð góðum ásetningi segir einhversstaðar og því má snúa upp á leikritið Góðverkin kalla sem Halaleikhópurinn frumsýndi um liðna helgi. Leikritið sem er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, gerist í þorpinu Gjaldeyri við Ystunöf og bakgrunnurinn í verkinu er hörð samkeppni karlaklúbbanna Dívans og Lóðarís. Klúbbarnir keppast hvor við að yfirbjóða hinn í góðverkunum og fórnarlambið er sjúkrahúsið sem er að fyllast af allskyns nýtísku lækningatækjum sem enginn veit til hvers eru. Enginn hlustar á aumingja héraðslækninn sem aðeins vantar nýja hlustunarpípu þar sem sú gamla er orðinn lúinn. Inn í þennan heim kemur hjúkrunarfræðingurinn Ásta og hittir þar fyrir hinn áhugaverða Jökul Heiðar bankaútibússtjóra sem sveiflast á milli ljúfmennsku og grimmdar eins og … já, nafn hans ætti kannski að segja nóg.
Þráðurinn í verkinu verður ekki rakinn frekar en verkið ber helstu bestu einkenni höfunda sinna. Húmorinn er allsráðandi, groddalegur við hæfi og gamalkunnir orðaleikir krydda sýninguna. Af leikritum þeirra þremenninga er þetta sennilega það sem hefur mest farsa-element í sér og sannarlega yrði það áhugavert ef höfundarnir fyndu sér tíma til að skrifa hreinræktaðan farsa.
Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson deila með sér ábyrgðinni á leikstjórn verksins sem sýnt er í húsnæði Halaleikhópsins í Hátúni. Húsnæðið er langt frá því að teljast hentugt til leiksýninga en leikstjórunum hefur tekist einkar vel upp við sviðsetninguna. Leikmynd er einföld en úthugsuð og nýtist verkinu vel. Sýningin flæddi vel og jafnvel í atriðum þar sem reyndi á hraða gekk hún snurðulaust fyrir sig þó leikarar hafi eðli málsins samkvæmt verið missnarir í snúningum. Önnur tækniatriði voru vel af hendi leyst.
Leikarar standa sig með ágætum og sumir mjög vel. Árni Salómonsson sýnir mjög góða takta í hlutverki Jökuls Heiðar og Gunnar Gunnarsson gerir vel í hlutverki Jónasar. Úlfhildur Jóna Þórarinsdóttir er trúverðug sem aðkomustúlkan Ásta sem og Hanna Margrét Kristleifsdóttir sem Dagbjört eiginkona Jónasar og Kristinn Sveinn Axelsson sem Björn læknir. Þær Sóley Björk Axelsdóttir sem Bína og Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir sem Drífa, fara vel með sín hlutverk þó þau krefðust þess að önnur þyrfti að leika allnokkuð yfir sig í aldri en hin undir. Þá var Gunnar Freyr Árnason skemmtilegur sem sjarmörinn Nonni hefill.
Sérstaklega verður síðan að nefna frammistöðu Daníels Þórhallssonar í hlutverki kokkálsins Lúðvíks. Daníel sýnir framúrskarandi gamanleik í hlutverki sínu sem hann hefur svo gersamlega á valdi sínu að Lúðvík öðlast líf á sviðinu og lifir satt að segja enn í huga þess er þetta ritar. Tímasetningar, orð hans og æði voru einstaklega fínlega unnin, jafnvel svo að á stundum laumaðist undirritaður til að fylgjast með þöglum leik hans þó annað væri í gangi á sviðinu.
Leikritið hefur verið stytt allnokkuð og á stundum mátti finna fyrir því þó erfitt sé að setja fingurinn á það hverju hafi verið sleppt. Tempóið datt niður í einstaka senum en náði sér jafnan fljótt á strik að nýju. Þar er enda um smámuni að ræða sem eru lítt til skaða og í heildina litið er hér á ferðinni vel unnin sýning sem skilar áhorfendum vel skemmtum og skælbrosandi út í vetrarmyrkrið.
Hörður Sigurðarson