Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2010 til 2011 er að þessu sinni Góði dátinn Svejk, leikgerð Colin Teevan eftir sögu Jaroslav Hasek, í uppsetningu Freyvangsleikhússins. Leikstjóri er Þór Tulinius. Sýningin hefur verið sýnd við miklar vinsældir í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafirði, og verður nú sýnd á Stóra sviðinu þann 29. maí.
Þetta er bráðfjörug sýning um ævintýri Góða Dátans Svejk í Stríðinu mikla, þar sem hann dregur dár af (sjálfsköpuðum) raunum okkar mannana með æðruleysi sínu og auðmýkt. Andlit hans ljómar af kærleika og ást til refsandi yfirboðarana sem úrskurða hann „löggiltan hálfbjána“. Hann er „fullkomlega sáttur“ hvað sem á bjátar og þylur upp úr sér skondnar reynslusögur við hvert tækifæri sem rugla þann í ríminu sem hlýðir á. Þeir sem vilja refsa honum, falla á eigin bragði. Hann er hinn saklausi trúður í Sirkusi Fáránleikans.
Valið á áhugasýningu ársins fór nú fram í 18. sinn, en á hverju ári velur dómnefnd frá Þjóðleikhúsinu athyglisverðustu áhugasýningu ársins og leikhúsið býður viðkomandi leikfélagi að sýna sýninguna í Þjóðleikhúsinu. Freyvangsleikhúsið fer nú í fjórða sinn með sigur af hólmi í samkeppninni, en það hefur áður sýnt hér Kvennaskólaævintýrið 1995, Velkomin í Villta vestrið 1998 og Vínland 2009.
Umsögn dómnefndar: Sýningin ber merki þess að vera unnin af dirfsku og áhuga. Vilji, metnaður og geta lýsa einbeittum ásetningi til að koma sögunni til skila með snjöllum og hugvitsamlegum lausnum. Ytri útfærsla, hvað varðar búninga, leikmynd og lýsingu er til fyrirmyndar. Allir leggjast á eitt um að koma meistaraverki Hasek upp á svið með glæsibrag. Brynjar Gauti Schiöth, sem leikur Svejk, stendur sig frábærlega sem hin einfaldi en athuguli samfélagsrýnir og Ingólfur Þórsson er einkar trúverðugur í túlkun sinni. Svipaða sögu er að segja um allan hópinn sem í samvinnu við leikstjórann, Þór Tulinius, tónlistarstjórann, Hermann Inga Arason, nær að skapa heildstæða og frumlega sýningu.
{mos_fb_discuss:2}