Kleinur eftir Þórunni Guðmundsdóttur
Leikfélag Ölfuss
Leikstjóri: Árný Leifsdóttir
Laugardaginn 8. febrúar frumsýndi Leikfélag Ölfuss verkið Kleinur eftir Þórunni Guðmundsdóttur.
Verkið er í fimm þáttum og er í því rakin æfi Sigga smiðs, þó má segja að byrjað sé á öfugum enda ævi hans því verkið hefst á því að Gunna, eiginkona Sigga hefur verið burt kölluð úr þessum heimi og presturinn kemur í heimsókn til að undirbúa jarðarförina.
Leikverkið er eins og áður segir í fimm þáttum sem hver fyrir sig gæti staðið sjálfstæður en saman falla þeir líka vel hvor að öðrum. Verkið gerist á sjötta eða sjöunda áratug seinustu aldar. Allir þættirnir fyrir utan þann síðasti gerast í sömu stofunni og eru leikþættirnir byggðir á hnyttnum samtölum og lúmskum húmor. Siggi er nokkuð skrítin skrúfa og kleinur og kleinuát skipta hann miklu máli. Það má segja að kleinurnar tengist öllum mikilvægustu stundum lífs hans. Siggi, leikinn af Óttari Ingólfssyni, er aðalpersónan í öllum þáttunum og er Óttar mjög góður í hlutverki hans. Hann nær að túlka hann einkar vel á öllum aldurskeiðum, sem gamlan mann, miðaldra og ungan. Svo er hann alveg frábær í hlutverki barnsins Sigga. Aðrir leikarar standa sig líka vel og sennilega mæðir þar mest á Helenu Helgadóttur sem leikur Gunnu konu Sigga. Helena er nokkuð reyndur leikari hjá Leikfélagi Ölfuss og hún túlkar hlutverk Gunnu vel. Með önnur hlutverk fara þau Hafdís Leifsdóttir í hlutverki Ólafar, Brynhildur Óskarsdóttir í hlutverki þjóðfræðings, Ívar Örn Baldursson í hlutverki Jónasar rafvirkja, Telma Rut Jónsdóttir í hlutverki Fríðu og Björg Guðmundsdóttir í hlutverki Möggu. Allt eru þetta misreyndir leikarar en þau stóðu sig öll vel í sínum hlutverkum og greinilegt var að leikstjórinn Árný Leifsdóttir hafði skýra sýn á verkið og góða stjórn á öllu þáttum þess. Þetta er í fyrsta sinn sem Árný leikstýrir verki og á hún vonandi eftir að leikstýra fleirum.
Tónlist er notuð mjög sparlega í sýningunni. Einungis eru leikin lög á milli þátta og er henni ætlað að skapa stemmningu fyrir hvern þátt og skapa tilfinningu fyrir þeim tíma sem verkið gerist á.
Það hefði að ósekju mátt bæta inn nokkrum leikhljóðum t.d. í lokasenunni. Sömuleiðis hefði tónlistin mátt koma úr útvarpi sem síðan hefði verið slökkt á. Allt slíkt gerir leikinn meira lifandi og líkari lífinu. Ljósanotkun er einföld og leikmynd og búningar gegna sama hlutverki og tónlistin í sýningunni þ.e. að koma okkur inn stemmninguna og er óhætt er að segja að þar hafi tekst vel til.
Eins og fyrr segir snýst leikritið mikið í kringum kleinur og kannski einna helst í kringum skondin og örlagarík augnablik í lífi Sigga. Styrkur verkins liggur í samtölum þess sem eru skemmtilega skrifuð og oft er snúið eilítið upp þau (líkt og kleinu) þannig að þau nálgast það að vera absúrd og oftast óstjórnlega fyndin.
Þessari kvöldstund í Ráðhúsi Ölfuss var því vel varið og hvet ég Ölfusinga og nærsveitunga til að skella sér í leikhús og fá sér kleinur með mjólk á undan eða eftir sýningunni.
Elín Gunnlaugsdóttir