ImageSteypibaðsfélagið Stútur í samstarfi við Vesturport og Borgarleikhúsið frumsýnir fimmtudaginn 12. janúar leikritið Glæpur gegn diskóinu á Nýja sviði Borgarleikhússins, að leikskáldinu viðstöddu. Höfundur verksins, Gary Owen, þykir eitt af áhugaverðustu og bestu leikskáldum Breta í dag. Leikstjóri er Agnar Jón Egilsson.

Það er laugardagskvöld, og þrír strákar reyna að skera á böndin sem hafa haldið aftur af þeim frá fæðingu, með hjálp (og hindrun) vímuefna, kvenfólks og ómótstæðilegrar tónlistar. Dauður köttur, diskókvöld sem aldrei átti sér stað, brjóstin á starfskonu tryggingastofnunar og hauslausar dúfur eru vendipunktar í þessu mannlega ferðalagi um karlmennskuna.

Steypibaðsfélagið Stútur samanstendur af bekkjarbræðrum úr leiklistarskólunum, útskrifaðir árið 1998. Steypibaðsfélagið Stútur var stofnað haustið 1994 í Leiklistarskóla Íslands. Stofnfundurinn var haldinn bakvið sturtuhengið í útjaskaða búningaherbergi piltanna. Vatnsflaumurinn æddi niður úr gamaldags blöndunartækjunum, móðan settist á rúðurnar, vatnsheldu pókerspilin voru dregin upp úr plastpoka, ásamt spilapeningum sem voru yfir 40% í áfengismagni.

ImageNiðurstaðan af fundum SbfS var ætíð sú að enginn væri Steypibaðsfélaginu fremri og byrjað var að leita verkefnis sem hentaði því á fjölum leikhúsanna. Leitað var alla skólagönguna að verki sem hentaði þessum mætu drengjum. Hugmyndir voru ræddar, allt frá götuleikhúsi á ferðalagi í gegnum Evrópu til pólitískra söngleikja á Metrópólitan í Stóra Eplinu. Fjórum námsárum seinna og sjö árum, á misgóðum launum hjá hinum og þessum leikfélögum, kom Stjórnarformaðurinn af sturtugólfinu heim úr leikhúsferðalagi í útlöndum með leikrit í farteskinu sem vert var að setja upp. Verkið fjallaði um misskilda karlmenn og var samtímis grimmt og fyndið. Langþráð ákvörðun var tekin á aðalfundi í ónefndri sturtu og hafist handa við undirbúning sem leitt hefur sturtudrengina að frumsýningu á Glæpi Gegn Diskóinu í janúar 2006.

Segja má að lengri aðdragandi að uppsetningu sé vart til í sögu leikhússins en pókerpiltarnir votu eru spenntir og njóta samstarfsins, enda engin skólayfirvöld að þvælast fyrir þeim lengur.

Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson
Aðstoðar leikstjóri: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann
Leikarar: Ólafur Darri Ólafsson, Friðrik Friðriksson og Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Sviðsmyndahönnuður: Þórarinn Blöndal
Ljós: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Þýðing: Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Friðrik Friðriksson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Framkvæmdastjóri: Orri Ólafsson
Útlitsráðgjafi leikara: Sigríður Rósa Bjarnadóttir