Leikfélagið Hallvarður Súgandi frumsýnir í kvöld leikritið Galdrakarlinn í Oz á Suðureyri við Súgandafjörð. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson. Sýningin er hluti af bæjarhátið Súgfirðinga, Sæluhelgi, sem haldin verður þar um helgina.
Ólánið hefur elt þá sem starfa við leiksýninguna. Þar sem liðið er af æfingum hafa sjö þurft að leita sér lækninga og á síðustu æfingu fyrir generalprufu tókst þrem leikurum að slasa sig á fótum og eru tveir leikarar í burðarhlutverkum haltir. Ekki er vitað til þess að bölvun hvíli á verkinu en marga er farið að gruna að svo sé. Þetta er farið að minna á skoska Shakespeare-verkið sem ekki má nefna.
Rúnar Guðbrandsson leikstjóri segist aldrei á sínum ferli hafa lent í öðru eins.
Guðjón Davíð Karlsson setti upp Galdrakarlinn í Oz í Brekkuskóla á Akureyri nú á vordögum. Nokkur slys urðu á fólki, meðal annars sneri ein leikkonan sig illa á fæti. Í ferlinu komu oft upp einkennileg tæknivandræði sem ekki fannst skýring á; tæki virkuðu ekki þegar æfingar voru í gangi en reyndust í lagi þegar þeim lauk.
Á lokasýningu hvarf tæknimaður sporlaust og fannst aftur, jafnsporlaust, skömmu síðar á öðrum stað.
Elfar Logi Hannesson hefur ekki heyrt neitt um bölvun varðandi þetta verk þó alkunna sé að bölvun fylgi mörgum leikverkum. Vestfirðir eru mikið galdrasvæði svo það er ekki ólíklegt að fornir kraftar hafi sýnt þessu verki áhuga.
Dr. Jón Viðar Jónsson segir að hann þekki ekki til þess að bölvun fylgi þessi verki en vekur athygli á að varasamt sé að vinna með galdra í leikhúsi því þá geti vaknað öfl sem erfitt er að hafa stjórn á.
Dr. Ólína Þorvarðardóttir þjóðfræðingur tekur undir með Jóni Viðari og segir að alltaf sé hættulegt að fást við hluti sem maður þekki ekki vel til og bætir við að þekkt sé að bölvun fylgi leikritinu Galdralofti líkt og áðurnefndu Shakespeare-verki. Þess má líka geta að Karl Ágúst Úlfsson sem þýðir verkið er magnaður höfundur og gæti því hafa laumað inn launrúnum, vitandi eða óafvitandi. Hún bætir við að þegar hún var að vinna að doktorsritgerð sinni um galdra hafi óskýrð óhöpp átt sér stað í tölvu hennar, handrit og heilir kaflar glatast.
Karl Ágúst Úlfsson tjáir sig ekki um launrúnirnar en segir að líkt sé með þessu leikriti og ónefnda Shakespeareleikritinu að þar séu nornir á ferð og gætu því verið einhver tengsl á milli. Hann þekkir til þess að óhöpp hafi elt þá sem setja upp ónefnanlega verkið bæði hérlendis og erlendis, sama sé hægt að segja um Galdraloft meðal annars datt húsvörður niður stiga í miðri galdraþulu í því verki og mikið neyðaróp heyrðist út í sal.
Þrátt fyrir þetta gengur allt samkvæmt áætlun og má búast við því að sýningin verði stórskemmtileg og áhorfendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að óhöppin elti þá.
Enn er hægt að fá miða á frumsýningu. Miðapantanir eru í síma 861 7060 eða á www.hallvardur.is
{mos_fb_discuss:2}