Nýtt íslenskt leikrit „Gaggað í grjótinu· verður frumsýnt í Melrakkasetrinu í Súðavík 16. júní. Leikurinn er sérstaklega saminn fyrir Melrakkasetrið en safnið var opnað við hátíðlega athöfn fyrir skömmu og þar er sögð saga refsins sem hefur lifað lengur en elstu menn muna.

Leikari er Elfar Logi Hannesson, Marsbil G. Kristjánsdóttir hannar leikmynd og búninga, höfundur og leikstjóri er Halla Margrét Jóhannesdóttir en það er Kómedíuleikhúsið á Ísafirði sem setur leikinn á svið í samstarfi við Melrakkasetur Íslands.

Í „Gaggað í grjótinu“ fáum við einstakt tækifæri til að bregða okkur á greni með ónefndri refaskyttu sem kallar ekki allt ömmu sína. Saga skyttunnar er nefnilega ekki síður merkileg en skolla sjálfs. Meðan skyttan liggur og vaktar grenið styttir hann sér stundir og segir sögur af sjálfum sér og öðrum refaskyttum. Ævintýrin sem skyttunar hafa lent í í viðureigninni við melrakkann eru kannski lygilegar eða hvað …

Einsog áður sagði verður leikritið „Gaggað í grjótinu“ frumsýnt í Melrakkasetrinu í Súðavík miðvikudagskvöldið 16. júní kl. 20. Uppselt er á frumsýningu en önnur sýning verður fimmtudaginn 24. júní. Eftir það verða sýningar alla fimmtudag í sumar.
Miðasala á allar sýningarnar er í Melrakkasetrinu í Súðavík og í síma 456 4922.