Leikfélag Hörgdæla
Djákninn á Myrká
Höfundur og leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson

Það er langt í frá leiðinlegt að dusta rykið af góðum drauga- og þjóðsögum okkar Íslendinga, rifja þær upp og kynna fyrir nýjum kynslóðum. Á Melum í Hörgárdal býður Leikfélag Hörgdæla upp á söguna af djáknanum á Myrká, sögu sem flestir kannast við og gerðist í Hörgárdalnum.

Höfundur verksins, og jafnframt leikstjóri sýningarinnar, Jón Gunnar Th., prjónar við sjálfa þjóðsöguna og við sögu kemur meðal annars tröllskessan Geira, auk þess sem heyra má brot úr Gullna hliði Davíðs Stefnánssonar og erindi úr vísum Vatnsenda Rósu. Til þess að auðvelda áhorfendum að átta sig á samhengi hlutanna grípur höfundurinn til þess ráðs að hafa sögumanninn Mána og þrjár kjaftakerlingar til þess að skýra framvinduna.

djakninn_gudrunLeikarar í sýningunni eru vel á annan tug, margir hverjir þrautreyndir leikarar þrátt fyrir að leiklistin sé ekki þeirra lifibrauð. Það verður að segjast alveg eins og er að hópurinn stóð sig einstaklega vel í að miðla þessari þekktu og dularfullu þjóðsögu til áhorfenda. Ekki er  annað hægt en að minnast hér á Ídu Irene Oddsdóttur sem fór með hlutverk Guðrúnar. Ída túlkaði hana af mikilli einlægni og hógværð, en sýndi jafnframt á áhrifamikinn hátt þá togstreitu sem bærðist innra með henni. Þess utan söng hún áreynslulaust og fallega og náði þannig til hjarta áhorfenda. Sjálfur djákninn var leikinn af Bjarna Karlssyni, sem fórst það prýðisvel úr hendi. Þá sýndi Reynir Albert Þórólfsson, í hlutverki Lofts ríka, mjög sannfærandi leik og sama má segja um Ragnar Örn Arnarson í hlutverki særingarmannsins Móra. Leikstjórinn fór þá leið að skopgera persónur Péturs biskups og Sveins djákna, sem leiknir voru af Sigurði Baldvin Sverrissyni og Sigurði Elvari Viðarssyni. Þeir félagar kitluðu hláturtaugar áhorfenda óspart með dönskuslettum og tilheyrandi. Sindri Snær Jóhannesson lék hárprúðan gamlan blindan mann og gerði það feikna vel. Aðrir leikarar stóðu sig einnig með prýði.

Skúli Gautason samdi tónlist og hljóðmynd sýningarinnar, en tónlistin er mjög stór hluti hennar og lifir undir flestum atriðunum. Tónlistin er frábær og alltaf viðeigandi, undirstrikar það sem verið er að segja í verkinu og býr til magnaða stemningu á köflum, svo magnaða að gæsahúðin spratt fram í nokkrum áhrifamiklum atriðum. Leikmynd og lýsing haldast vel í hendur út alla sýninguna. Sviðið á Melum er ekki stórt, en það var með ólíkindum hversu mikla dýpt það bauð upp á og hvernig höfundum tókst að skapa ólíka heima í litlu rými. Lýsingin á þar sinn þátt og var hún afbragðsgóð og skapaði mikla dýpt og ólíka stemningu. Það er einna helst að eitthvað sé hægt að finna búningum í sýningunni. Sögusviðið er Hörgárdalur árið 1394, en hægt er að draga í efa að hárauður blúndukjóll hafi verið í eigu fátækrar vinnukonu á þeim tíma. Þá voru búningar Sveins djákna og Péturs biskups á Hólum heldur skrautlegir og minntu helst á klæði páfans í Vatíkaninu.

Ekki er annað hægt en að óska Leikfélagi Hörgdæla til hamingju með glæsilega sýningu sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Stærsta heiðurinn á þó að sjálfsögðu höfundur verksins og leikstjóri sýningarinnar, Jón Gunnar.

Sólveig Elín Þórhallsdóttir,
upphaflega birt með í Akureyri – Vikublaði.
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

i