Reykjavík Fringe hátíðin hefst um næstu helgi og stendur yfir frá 3.-11. júlí. Þetta er fyrsta listahátíðin sem fer fram eftir allar afléttingar, og verða 70 atriði sýnd yfir 150 sinnum á 8 daga tímabili á 15 staðsetningum víða um borgina.
Sérstök RVK Fringe miðstöð verður í Aðalstræti 2, gamla Geysishúsinu, þar sem gestir og gangandi geta sótt hátíðararmbönd, séð málverkasýningar og sótt viðburði. Þar fer einnig fram Fringe Hot Pot – þar sem aðrar norrænar Fringe hátíðir munu kynna sig, en hér á landi eru staddir hátíðarhaldarar frá Bergen og Gautaborg.
Opnunarviðburðir eru eftirfarandi:
Laugardaginn 3. júlí:
• Gallerí opnun í Gallerí Fold milli kl 14 og 16. Veitingar í boði Jacob’s Creek.
• Opnunarsýningin Sauðatónar kl 17 á Árbæjarsafni.
• Opnunarpartý í Mál og Menning frá 20-miðnættis.
Sunnudaginn 4. júlí:
• Fringe Hot Pot – opinn norrænn kynningarviðburður á Nordic Fringe Network sem fer fram í Aðalstræti 2. Veitingar í boði Brauð & Co.
• Forsýningarkvöld á öllum 70 viðburðum milli kl 20 og 23 í Tjarnarbíó. Öll atriði fá sléttar 2 mínútur til að kynna sig og úr verður fjölbreytt kvöldskemmtun.
„Dagskráin er ótrúlega fjölbreytt og litskrúðug, verkin eru fyndin, flott, skrítin, skemmtileg og umhugsunarverð og koma víða að.“ segir Nanna Gunnars, hátíðarhaldari.
Sem dæmi um fjölbreytileikann er hægt að fara á loftfimleikasýninguna Game On þar sem sirkúslistamenn fara í gervi ofurhetja og áhorfendur ráða útkomu verksins, sjá uppistandssýningu með köttum í Pure Evil: A One Man Show About My Cat, sjá nýtt vegglistaverk verða til eftir listamanninn Angry Dan á Skólavörðuholti eða kíkja á poppaða tónleikana Perfect World of Love í Mengi.
Það eru tvær gjörólíkar verðlaunasýningar frá Svíþjóð í boði, leiksýningin Egoland sem fjallar um popúlisma og draumkenndi leikhús- og tónlistarviðburðurinn The Clown on the Fifth Floor. Einnig eru þrjár rússneskar uppistandssýningar; Economy Vodka, Russian Troll og No Penis, No Knowledge en Russian Troll verður tekin upp hér á landi.
En það eru líka verk sem fara fram á íslensku, eins og leiksýningarnar Nokkur orð um mig og Ást á elliheimili – er ég góð manneskja? sem fara báðar fram í Tjarnarbíó og söngdagskráin Allt fyrir ástina sem fer fram á Máli og Menningu.
Hægt er að skoða fulla dagskrá hátíðarinnar á rvkfringe.is og hlaða niður dagskránni á appinu Sched. Miðasala fer fram á tix.is.