Ó, þú aftur? er ný og endurgerð uppfærsla á leikritinu Ó, þú eftir Ingibjörgu Hjartardóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur og Unni Guttormsdóttur. Leikritið var frumsýnt af Hugleik á Galdraloftinu vorið 1987 og nú, rúmlega tuttugu árum síðar, er komið að því að færa þetta velumtalaða leikrit (og költverk) upp á nýjan leik á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Megintilefnið er aldarfjórðungsafmæli Hugleiks en þessi elsti starfandi áhugaleikhópur í höfuðstaðnum var stofnaður árið 1984. Í þessari aldursumfjöllun er nauðsynlegt að minna á þá sérstöðu Hugleiks, meðal annarra íslenskra leikfélaga, að leikverk hópsins eru öll samin innan hans og umfjöllunarefnið sprettur beint upp úr íslensku þjóðlífi (með póstmódernískri nálgun) þar sem markvisst er vísað til og unnið úr arfi íslenskrar menningar og sagnaritunar.

 

Það er því í eðlilegum hugleikskum anda að afbyggja verkið og semja við það nýja tónlist – en þótt ýmislegt sé fært úr stað frá frumuppfærslunni er vinnugleðin, skemmtunin, andinn, hlýjan, atorkan og glaðværðin enn hin sama svo vitnað sé til orða leikstjórans Odds Bjarna Þorkelssonar í leikskrá. Á þriðja tug leikara taka þátt í þessari sýningu ásamt sjö manna hljómsveit og er tónlist og söngtextar eftir þá Ljótu hálfvita, Eggert Hilmarsson, Odd Bjarna Þorkelsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Einnig má draga fram að þrír af þeim leikurum sem taka þátt í uppfærslunni nú, voru einnig með í frumuppfærslunni 1987, Hulda B. Hákonardóttir, Rúnar Lund og Silja Björk Huldudóttir.

othuaftur3Rammi sögunnar er sóttur til Pilts og stúlku (1850) eftir Jón Thoroddsen (1818-1868) þar sem ungir elskendur eru „hraktir” úr sakleysi æsku sinnar og hjarðmennsku til hinnar syndum spilltu Reykjavíkur. Þar fara unglingarnir stöðugt á mis við hvort annað af mannavöldum en ná að lokum áttum og halda aftur til baka sem fulltíða einstaklingar. Í leikritinu hittast þau Indriði og Sigríður að haustlagi undir réttarveggnum í sannkallaðri karnivalískri réttarstemningu þar sem menn kallast á og syngja og kindur jórtra af nautn og jarma í kór, lóa syngur og hrafninn krunkar. Þetta hljómeyki var sérstaklega hrífandi í byrjun sýningar og teygði sig reyndar fram fyrir hana og er ekki oft sem sjá má skellihlæjandi áhorfendur bíða eftir að leiksýning hefjist.

Þó Hugleikur sé áhugaleikhópur hefur sýningin að mörgu leyti faglegt yfirbragð. Fjölbreytilegir hæfileikar fá að njóta sín og margir leikaranna hafa greinilega mikla reynslu á leiksviði. Ýkjur, fáránleiki, klisjur og farsakenndir drættir eru nýttir í persónusköpun og framvindu en hefði mátt vera betur undirstrikað í leiknum. Þannig hefði hinn sérstaki húmor náð enn betur í gegn til áhorfenda. Leikararnir standa sig allir mjög vel hvort sem þeir eru í stórum eða litlum hlutverkum og óþarfi að gera þar upp á milli. Leikgleðin, leiknautnin var allsráðandi, textaflutningur og söngur til fyrirmyndar.

othuaftur2Tímaleysi verksins kemur vel fram í þessari uppfærslu þar sem persónur og hugtök ólíkra tíma er blandað saman. Valdi vert (Möller kaupmaður) er athafnamaður, sniffar kók og breytir ömmukaffihúsi fjölskyldunnar í súlustað. Sigtryggur vann birtist á íslenskum glímubúningi en endar sem útkastari í leðurbuxum. Hótel Borg er enn gildur skemmtistaður og Grasagudda verksins leysir syndugt og glórulaust líferni bæjarbúa úr viðjum og heldur með þá á fjall til hreinsunar. Umbreytingarnar í verkinu skírskota svo smekklega til þeirra umskipta sem orðið hafa á íslensku samfélagi og gildismati á liðnum áratugum: fyrir og eftir syndafallið. Þess vegna finnst mér leiðsögn Önnu grasalæknis og Flóka fuglasálfræðings í lok verksins eiga svo vel við, algerlega frábær lausn.

Flest má segja, að gangi upp í þessari sýningu. Framvinda er eðlileg og gerist öll á sviðinu. Persónur eru margbreytilegar og samskipti þeirra á mörgum plönum. Fjölmargir ástarþríhyrningar, augljósir og faldir. Rennslið er gott, hægara í fámennum senum og hraðara í hópsenunum. Skiptingar milli atriða gengu vel fyrir sig þar sem farið var úr söngatriði í talað mál. Leikmyndin er einföld og engir óþarfa hlutir að þvælast fyrir. Stemmingu breytt með fáum húsgögnum, töskum, skiltum og mismunandi ljósakrónum sem var sniðugt og hefði verið hægt að nýta enn meira í lýsingunni sem var annars einföld og vel leyst.

othuaftur1Mörgum skemmtilegum lausnum í leikstjórn brá fyrir, sem er augljóslega mjög vel ígrunduð, allar uppstillingar á leikurum á sviðinu áreynslulausar, dansar fjölbreyttir og skemmtilegir og stundum notaðir til að klára leikmyndina eins og þegar sjómennirnir bjuggu til skipið. Tónlistin í flutningi hljómsveitarinnar Ær og kýr kallar fram ólíka stemmningu og þar eru engin vettlingatök, allt efnið frumsamið, fjölbreytt notkun hljóðfæra, lögin grípandi og skemmtileg.

Búningarnir skapa hina eiginlegu heildarmynd verksins en þar eru teiknaðar upp margar skemmtilegar myndir með litum og ýmsum táknum eða vísunum. Kind er kind þó hún sé í lopapeysu, prestfrúin danska er eins og danski fáninn og fulltrúi herraþjóðar sem upphefur sjálfa sig með því að henda afganginum í vesalingana. Þegar haft er í huga að allt er búið til úr því sem finna má á „safnhaugum prestfrúarinnar“ í bland við tuskur úr geymslum leikfélagsins, má segja að það falli fullkomlega að því að sýningin sjálf er endurunnin og færð til nútímans. Ástarhugar allra hafa loksins ratað saman. Hrunadansinum er lokið, spillingarliðið orðið grænt og á leið til upphafsins í líkamlega og andlega hreinsun. Héðan í frá verður lífið sjálfbært og gildismatið óbrenglað.

Jón Özur Snorrason

{mos_fb_discuss:2}