Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga
Haldinn í Félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði 7. maí 2016
Fundur settur kl. 9:01
1. Fundarsetning. Kosning 2ja fundarstjóra og 2ja fundarritara, sem taka þegar til starfa
Snorri Emilsson og Rúnar Gunnarsson frá Leikfélagi Seyðisfjarðar skipaðir fundarstjórar og Halla Rún Tryggvadóttir, Leikfélagi Húsavíkur og Fanney Valsdóttir, Leikfélagi Hörgdæla fundarritarar. Lögmæti fundarins sannreynt.
2. Kjörnefnd afgreiðir kjörbréf og afhendir atkvæðaspjöld, skýrir stöðu mála varðandi stjórnarkjör og auglýsir eftir tillögum
Dýrleif Jónsdóttir, Hugleik, talar fyrir hönd kjörnefndar og dreifir atkvæðum til fundarmanna.
3. Menningarstefna Bandalagsins lesin og rædd
Bernharð Arnarson, Leikfélagi Hörgdæla, las hana fyrir fundargesti.
4. Staðfest inntaka nýrra félaga, félög tekin af félagaskrá
Þráinn Sigvaldason, Leikfélagi Hörgdæla, kynnti að Leikklúbburinn Saga á Akureyri og Leikklúbbur Laxdæla í Búðardal hefðu sagt sig úr Bandalaginu þar sem starfsemin hefur legið niðri undanfarin ár. Umf. Ármann, Leikfélag Ólafsvíkur og Áhugamannaleikklúbbur Grundarfjarðar verða tekin af félagaskrá vegna árgjaldaskulda.
Leikfélagið Borg í Grímsnesi og Leikfélagið Órion í Reykjavík óskuðu eftir að ganga í Bandalagið og var þetta allt samþykkt.
5. Fundargerð síðasta aðalfundar afgreidd
Samþykkt.
6. Skýrsla stjórnar
Guðfinna Gunnarsdóttir flutti skýrslu fyrir hönd stjórnar:
Skýrsla stjórnar Bandalags íslenskra leikfélaga á aðalfundi Seyðisfirði 7. maí 2016:
I. Stjórn
Á starfsárinu skipuðu stjórn þau:
Guðfinna Gunnarsdóttir, Selfossi, formaður
Ólöf Þórðardóttir, Mosfellsbæ, varaformaður
Þráinn Sigvaldason, Borgarfirði eystri/Hörgárdal, ritari
Bernharð Arnarsson, Hörgárdal, meðstjórnandi
Gísli Björn Heimisson, Reykjavík, meðstjórnandi
Í varastjórn sátu:
Þrúður Sigurðardóttir, Ylfa Mist Helgadóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir, Ágúst T. Magnússon og Embla Guðmundsdóttir.
Framkvæmdastjóri og altmuligmanneskja í Þjónustumiðstöð er og var sem endranær Vilborg Valgarðsdóttir.
Stjórn hélt fimm starfsfundi á árinu. Einn að afloknum aðalfundi í Hörgárdal, þrjá í þjónustumiðstöð okkar í Reykjavík og þann fimmta og síðasta hér á Seyðisfirði. Fjarfundarbúnaður var notaður endrum og sinnum með góðum árangri þegar ritari vor Þráinn átti ekki heimangengt. Einnig hafa símtæki, fésbókarhópur og tölvupóstur verið nýtt til góðra samskipta stjórnarmanna árið um kring.
Ármann Guðmundsson var svo vænn að leysa Vilborgu af í Þjónustumiðstöð vegna veikinda og leyfa.
Er starfsfólki og stjórn þökkuð góð samvinna og vinnusemi á árinu.
II. Starfsemi félaganna
36 aðildarfélög Bandalagsins sendu inn styrkumsóknir fyrir alls 109 leiksýningar og leikþætti, 17 námskeið og 38 skólanemendur fyrir leikárið 2014-2015. Fullur styrkur reyndist vera 258.274 krónur. Ársritið okkar inniheldur síðan allar frekari upplýsingar um starfsemina. Ekki liggja fyrir tölur um umfang starfsins á þessu leikári en engin ástæða til að ætla annað en það sé svipað og verið hefur. Félögin í Bandalaginu eru nú 57 talsins.
III. Starfsáætlun
Á síðasta aðalfundi var að venju samþykkt starfsáætlun og og verður nú farið yfir hana og sagt frá hvað gert var til að efna einstaka liði hennar:
Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni
Rekstur þjónustumiðstöðvar hélt áfram að vera í járnum, en Vilborg framkvæmdastjóri hefur með sinni styrku stjórn og ofurútsjónarsemi haldið vel utan um reksturinn eins og sjá má í reikningum Bandalagsins sem kynntir verða hér á eftir. Um skólann og vefinn munu fulltrúar viðkomandi nefnda fjalla í sínum skýrslum.
Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna
Framlag ríkisins til starfsemi áhugaleikfélaganna er nú 16,2 milj. kr. Til þjónustumiðstöðvarinnar var framlagið 5 milj. kr. á ári samkvæmt samningi sem gilti til loka ársins 2015 og hefur enn ekki verið endurnýjaður.
Framkvæmdastjóri og formaður fóru á fund nýs fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytis í okkar málaflokki í september til að kynna starfsemi Bandalagsins og fá fréttir af samningamálum. Þar var lítið að frétta og má segja að ykkar fulltrúar hafi fengið „hland fyrir hjartað“ í heimsókninni þar sem engin staðfesting fékkst á að samingur yrði yfirhöfðuð gerður. Brá Vilborg á það ráð að knýja fram fund með ráðherra – sem hefur hingað til ekki getað hitt okkur á sínu kjörtímabili og var hún staðfestan uppmáluð við ritaraborð ráðherra. Fundurinn fékkst og fóru framkvæmdastjóri og varaformaður á fund ráðherra í október þar sem ráðherra lofaði samningi um rekstur þjónustumiðstöðvar. Sá samningur hefur enn ekki verið gerður.
Eftir talverða óvissu í upphafi þessa árs fékkst þó það fram að þjónustumiðstöðin fengi 6 milljónir króna til rekstursins á árinu, en við bíðum spennt eftir samningi til að allri óvissu verði eytt. Á sama fundi var áréttuð sú krafa að hækkun fengist á framlagið til aðildarfélaganna á næstu fjárlögum. Engin vilyrði fengust þar. Við bíðum þess vegna spennt eftir fjárlagagerð haustsins.
Sérverkefni ársins
1. Skipuleggja stuttverkahátíð á leikárinu
Ákveðið var að vinna það með Seyðfirðingum að halda stuttverkahátíð samhliða aðalfundi og afraksturinn sáuð þið öll í gærkvöldi. Það var ekkert sérstaklega leiðinlegt.
2. Vekja athygli á 65 ára afmæli Bandalags íslenskra leikfélaga
Stjórn skipaði þær Guðfinnu Gunnarsdóttur, Þrúði Sigurðardóttur og Ólöfu Þórðardóttur í afmælisnefnd og tóku þær saman þær hugmyndir sem fram komu á aðalfundi í Hörgárdal. Ákveðið var að efna til samkeppni um ritun afmælisstuttverka sem svo yrðu leikin um land allt á vikutímabili í nóvember. Valin voru þrjú verk sem voru sýnd og leiklesin hjá nokkrum félögum. Vissulega hefði þátttaka mátt vera betri almennt séð, en nú eru til ný verk tengd afmæli Bandalagsins og það hlýtur að vera gott.
3. Stjórn beiti sér fyrir endurskoðun á taxta höfundar- og þýðendalauna (með það fyrir augum að ná fram lækkun á gjaldi fyrir styttri verk)
Búið er að fá þessu breytt.
IV – Önnur mál
Uppfærsla Leikfélags Mosfellssveitar á Ronju Ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins af valnefnd Þjóðleikhússins og var hún sýnd þrisvar fyrir fullu húsi á stóra sviði Þjóðleikhússins fyrstu helgina í júní við góðan orðstír. Í ár eru sýningarnar sautján sem valið verður milli og mun Þjóðleikhússtjóri tilkynna um það undir borðum í Herðubreið í kvöld.
Af erlendum vettvangi má geta þess að sýning Hugleiks, Hin einkar hörmulega ópera um grimman dauða Píramusar og Þispu, var valin til sýningar á IATA/AITA alþjóðlegu leiklistarhátíðinni í Belgíu liðið sumar. Þátttakendur í sýningunni sátu ársfund NEATA og aðalfund IATA/AITA fyrir hönd Bandalagsins. Leikfélag Selfoss fór sumarið 2015 með sýninguna Kjánar og kynlegir kvistir til Thisted í Danmörku á leiklistarhátíðina NoBa. Leikfélagi Hafnarfjarðar hefur verið boðið að sýna Ubba kóng á leiklistarhátíð í Austurríki í júní nk. og framundan er svo stuttverkahátíð NEATA sem haldin verður í Færeyjum í október samhliða fundi. Þar vera tvö leikfélög, Hugleikur og Leikfélag Hafnarfjarðar, fulltrúar Íslands með þrjú stuttverk.
Þakka ber okkar ötula nefndarfólki í skólanefnd og Lénsherra fyrir frábært starf nú sem endranær. Skólinn blómstrar og dafnar og aðsókn er framar vonum. Árangurinn af skólastarfinu skilar sér margfalt tilbaka inn í félögin, þá vítamínsprautu og menntun skyldi enginn vanmeta. Við hlökkum til að halda upp á 20 ára afmæli skólans á næsta ári, það er alltaf gott að líta tilbaka til að geta svo horft til framtíðar.
Lénsherra vor er óþreytandi í að horfa fram á veginn með okkur og þó sérstaklega fyrir okkur. Nýtt rafrænt umsóknarkerfi mun örugglega gera alla umsýslu greiðari og auðveldari fyrir bæði félögin og skrifstofuna.
Stjórn þakkar ennfremur Vilborgu framkvæmdastjóra fyrir gott samstarf á árinu. Útsjónarsemi og multitaskhæfileikum hennar eru engin takmörk sett.
Vonandi mun á þessu ári verða kominn stöðugleiki og framtíðarsýn varðandi fjárframlög ríkisins til þjónustumiðstöðvar Bandalagsins, en losaragangur og vond vinnubrögð í ráðuneyti menningarmála virðast því miður hafa haft áhrif á okkar stöðu þó svo að úr hafi ræst á síðustu stundu. Það er óþolandi að ekki sé búið að gera samning við Bandalagið um framlög til rekstursins næstu árin og gerir ekkert nema skapa óvissu og óþol, því vissulega hefur verið sagt við okkur að slíkt verði gert, það hefur bara ekki verið gert. Það má hafa ýmsar skoðanir á fjárlögum hverju sinni, en þar er gott að vera og þar vorum við áður með þjónustumiðstöðina … og sem betur fer situr styrkurinn til aðildarfélaganna þar sem fastast þó hann mætti vissulega vera hærri.
En hvað sem á gengur er engan bilbug á okkur að finna, því leiklistin hefur sem betur fer þann mátt að hefja sig yfir argaþras um péninga. Það má sjá á þeim krafti sem leikfélög um allt land leika meira og meira, æfa sig, skemmta hvert öðru, ala upp áhorfendur jafnt sem iðkendur, gleðja og græta og eru jafnframt frábær félagskapur.
Við leikum alltaf – aftur og aftur.
Guðfinna Gunnarsdóttir, formaður.
7. Framkvæmdastjóri leggur fram endurskoðaða reikninga síðasta árs og skýrir þá.
Vilborg Valgarðsdóttir kynnti reikningana.
8. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga
Elli frá Leikféalgi Selfoss nefndi varðandi skýrslu stjórnar að leikferð sem Leikfélag Selfoss fór til Danmerkur hefði ekki ratað í skýrsluna.
Þórfríður frá Leikfélagi Norðfjarðar spurði hvort það hefðu verið 17 eða 18 leiksýningar sem sóttu um í Þjóleikhúsið og hún spurði einnig um árgjöldin og hvernig það virkar þegar félög eiga inni, eftir að hafa ekki sett upp sýningu. Guðfinna og Vilborg svöruðu Þórfríði.
Hverjir eru á launaskrá BÍL? Og hverjir fá dagpeninga? Fjóla frá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs spurði um þetta og Vilborg svaraði og vitnaði í lög og aðalfundarsamþykktir.
Reikningar BÍL samþykktir samhljóða.
9. Skýrslur nefnda og umræður um þær
Leiklistarvefurinn – Skýrsla vefnefndar 2016
Lögð fram á aðalfundi BÍL á Seyðisfirði 7.-8. maí 2016.
Eftirfarandi er skýrsla vefnefndar Leiklistarvefsins. Í vefnefnd sitja undirritaður og framkvæmdastjóri Bandalagsins.
Eftir að hafa hangið saman í mörg ár með sjóreknum snærisspotta, límbandi, gorminum af ónýtu handriti af Pilti og stúlku og bjargfastri trú á hið góða í manninum, var síðastliðið vor loks ráðist í löngu tímabærar uppfærslur á Leiklistarvefnum. Nýr vefur var formlega opnaður á aðalfundi fyrir réttu ári síðan þannig að nú er komin árs reynsla á breytingarnar og við hæfi að líta aðeins um öxl. Hér verður stiklað á helstu breytingum og farið yfir hvernig til hefur tekist með einstaka liði en heilt yfir má segja að uppfærslan og breytingarnar hafi tekist vonum framar. Miðað við umfang breytinganna, þar sem m.a. var skipt um umsjónarkerfi, verður að segjast að breytingarnar hafi verið óvenju sársaukalitlar. Auðvitað voru einhverjir hnökrar en flestir voru minniháttar og yfirleitt auðleystir. Þó honum sé tíðrætt um tæknifötlun sína er það einnig ánægjuleg staðreynd að framkvæmdastjóri tók breytingunum eins og fiskur vatni og hefur verið eldfljótur að tileinka sér nýtt kerfi og nýjar vinnuaðferðir.
Eins og áður sagði skiptum við úr hinu aldna Joomla-kerfi sem var farið að há okkur illilega í viðhaldi auk þess að vera sístækkandi öryggishola. Við skiptum yfir í WordPress sem er að öllu leyti nútímalegra, öruggara og einfaldara í notkun enda er langhraðasti vöxturinn í því af vefumsjónarkerfum í dag. Í gegnum WordPress höfum við t.d. aðgang að gríðarlega stórum markaði viðbóta sem leysa ýmis sértæk mál á einfaldan, ódýran og það sem mestu máli skiptir, öruggan hátt. Ekki þarf lengur að bíða milli vonar og ótta þó einhverju sé bætt við vefinn eða hann uppfærður, heldur er hægt að treysta því að jafnvel þó breytingar og uppfærslur virki ekki fullkomlega muni þær a.m.k. ekki taka allt kerfið niður með sér eins og var stöðug áhætta á gamla vefnum.
Það var sem sé algerlega nýtt kerfi sem tekið var formlega í notkun á aðalfundi í Hörgárdal í fyrra. Ekki aðeins voru innviðir og undirstöður splunkunýjar heldur var einnig ráðist í nýtt útlit og notendaviðmót. Aðalheiðurinn af því á sérlegur vinur Bandalagsins, Einar Þór hjá fyrirtækinu HugsaSér. HugsaSér hefur jafnframt séð um hýsingu á vefnum um margra ára skeið en sú breyting varð þó á síðasta ári að þeir hættu sem milliliðir hýsingarþjónustu sem er eftir sem áður hjá hýsingarfyrirtækinu 1984.is.
Ein af stærri breytingum síðastliðið vor var opnun Leikhúsbúðarinnar á vefnum. Við tókum sem sé í notkun svokallaða WooCommerce viðbót sem er verslunarkerfi fyrir vefi. Nú eru nánast allar vörur búðarinnar komnar á vefinn með öllum nauðsynlegum upplýsingum og var það helsta markmiðið. Nú er hægt að fá meiri og betri upplýsingar um vörurnar án þess að þurfi að hafa samband við Þjónustumiðstöð og fylgir því eflaust einhver tímasparnaður. Þó ekki hafi það verið aðaltilgangurinn, býður WooCommerce einnig upp á pantanir á vef, sem hægt er að sækja eða láta senda í póstkröfu. Á því ári sem liðið er síðan vefverslunin var opnuð hefur u.þ.b. 7-8% heildarsölu Leikhúsbúðarinnar farið fram í gegnum pantanir á vefnum. Framkvæmdastjóri upplýsir væntanlega betur um sína reynslu af vefversluninni.
Kostirnir við uppfærsluna eru fleiri en svo að hægt sé að telja alla upp. Sem dæmi um má þó benda á Vikupóstinn frá Þjónustumiðstöðinni. Þjónustumiðstöðin hefur í mörg ár sent út póst með fréttum af vefnum frá liðinni viku. Var það fastur liður í vinnu starfsmanns að setja saman fréttabréfið á föstudögum og senda út. Gera má ráð fyrir að 15-25 mínútur hafi farið í að taka saman fréttirnar og senda út og fastur liður var að útsendingin stoppaði vegna þess að póstþjónar töldu að um ruslpóst væri að ræða og iðullega þurfti Lénsherra að koma til skjalanna að leysa úr málinu. Nýi vefurinn ásamt annarri tækni gerir það hinsvegar að verkum að Vikupósturinn er nú sendur út sjálfvirkt kl. 16.00 á hverjum föstudegi með fréttum liðinnar viku án þess að mannshöndin komi þar neitt við sögu. Mínúturnar sem þannig sparast safnast fjótt upp.
Í síðustu skýrslu vefnefndar voru viðraðar vonir um að hægt yrði að koma umsóknum vegna ríkisstyrksins á stafrænt form á vefnum, ef og þegar aurar fyndust til þess. Á þeim tíma leit út fyrir að kaupa þyrfti utanaðkomandi vinnu til verkefnisins og kostnaður það mikill að ekki leit út fyrir að neitt yrði úr verkinu næstu misserin a.m.k. Lénsherra lagðist í rannsóknir síðastliðið sumar og er leið að hausti kom í ljós að hægt yrði, með umtalsverðri vinnu þó, að framkvæma verkið innanhúss. Haustið fór í að setja upp prótótýpu sem var tilbúin til prófana eftir áramót. Þrír prófarar voru fengnir til aðstoðar Lénsherra og framkvæmdastjóra við leita uppi villur. Vefnefnd kann þeim Gísla Birni, Ella og Magnþóru bestu þakkir fyrir þeirra framlag við að sníða helstu vankanta af kerfinu og einnig formanni Bandalagsins sem kom með þarfar ábendingar.
Kerfið nýtist þó ekki eingöngu við styrkumsóknirnar heldur hefur það einnig verið nýtt við umsóknir vegna Athyglisverðustu áhugaleiksýningar ársins og einnig fyrir umsóknir vegna Stuttverkahátíðar NEATA á komandi hausti. Þau félög sem ekki hafa enn fengið aðgang eru hvött til að sækja um sem fyrst og einnig eru félögin öll hvött til að senda inn umsóknir eins fljótt og auðið er en ekki bíða fram á síðustu stundu.
Stjórn ákvað að umsóknakerfið yrði fjármagnað með 10 þús. króna eingreiðslu félaganna. Var ákveðið að greiðslan yrði valkvæð á yfirstandandi leikári en frá og með því næsta verður ekki lengur boðið upp á að skila umsóknum á pappírsformi. Umsóknakerfið er nú þegar komið í fulla notkun og þegar þetta er ritað hafa 23 félög fengið aðgang að kerfinu. Eitthvað hefur borið á erfiðleikum hjá sumum við innskráningu og er þar í langflestum tilvikum um að kenna að upplýsingapóstur vegna kerfisins hefur ekki verið lesinn nógu vandlega af notendum. Í ljósi þess hvernig gengið hefur fram til þessa eru Lénsherra og framkvæmdastjóri undir það búin að einhver vandamál komi upp þegar nær dregur skiladegi vegna styrkumsókna enda er það umsóknaform margfalt stærra í sniðum og flóknara en hin.
Ýmislegt fleira jákvætt væri hægt að telja upp um uppfærsluna á Leiklistarvefnum en læt ég nægja að endurtaka það að heilt yfir hefur uppfærslan gengið ótrúlega vel. Vefurinn hefur verið að þróast undanfarið ár og mun gera það áfram. Allar góðar ábendingar og hugmyndir varðandi hann eru vel þegnar. Ekki er þó hægt að flytja svona skýrslu án þess að vera með mysing yfir einhverju. Lénsherra ber ásamt framkvæmdastjóra vissulega ábyrgð á að Leiklistarvefurinn virki sem skyldi en það hefur ekki verið eins áberandi að tölvukostur Þjónustumiðstöðvar hefur einnig verið í hans umsjá. Vert að benda á að tölvubúnaður Þjónustumiðstöðvar er að allnokkrum hluta kominn vel yfir eðlilegan afskriftatíma og þó tölvukerfið standi sína plikt með virktum og ekki hafi þurft að sinna miklu viðhaldi eru má búast við að bregðast þurfi við því á næstu misserum.
Lýkur svo skýrslu Vefnefndar.
F.h. vefnefndar, Hörður Sigurðarson, lénsherra
Hrefna Friðriksdóttir flutti skýrslu skólanefndar:
Leiklistarskólinn, skýrsla skólanefndar á aðalfundi BÍL 7.-8. maí 2016
Á liðnu starfsári sátu með mér í skólanefnd Dýrleif Jónsdóttr, Herdís Þorgeirsdóttir, Hrund Ólafsdóttur og Gísli Björn Heimisson. Skólanefndin ber sem fyrr höfuðábyrgð á að skipuleggja starf Leiklistarskóla Bandalagsins og fundar reglulega allt árið. Ég nota þetta tækifæri til að þakka kærlega öllu samnefndarfólki mínu fyrir metnaðarfullt og skemmtilegt samstarf.
Leiklistarskóli Bandalagsins var settur í 19. sinn þann 6. júní 2015 að Húnavöllum í Húnavatnshreppi. Það var nokkur spenna í undirbúningi skólans þar sem skipt var um rekstraraðila á staðnum á milli ára. Við bárum þá gæfu að ná góðum samningi við Gyðu Einarsdóttur, hótelstýru Hótels Húna og það er óhætt að segja að samstarfið við hana hefði ekki getað gengið betur. Hún tók á móti okkur opnum örmum og fagnaði öllum okkar ólátum og yfirgangi.
Skólann árið 2015 sóttu alls 39 nemendur. Námskeiðin voru:
1. Leiklist II – kennari Ágústa Skúladóttir
2. Leikstjórn I – kennari Rúnar Guðbrandsson
3. Sérnámskeið fyrir leikara – Haraldurinn langspuni – kennarar Bjarni Snæbjörnsson og Dóra Jóhannsdóttur
Niðurstöður viðhorfskönnunar bentu til mikillar ánægju með skólastarfið.
Árið 2016 verður Leiklistarskólinn settur að Húnavöllum þann 4. júní. Hann er óvenjusnemma á ferðinni þetta árið en þarna erum við fyrst og fremst að koma til móts við eindregnar óskir hótelstjóra. Getum við ráð fyrir að árið 2017 verði skólinn settur uþb viku síðar. Í sumar er boðið upp á þrjú námskeið:
– Ágústa Skúladóttir mun kenna Leiklist I – þar eru skráðir 13 nemendur og hægt að taka 3 í viðbót
– Rúnar Guðbrandsson mun kenna Leikstjórn II – þar eru skráðir 13 nemendur og hægt að bæta 1 við
– Stephen Harper kemur frá Bretlandi og býður upp á sérnámskeið fyrir leikara með áherslu á líkamlegt leikhús, trúðaleik, grímur og fleira – þar eru skráðir 16 nemendur, námskeiðið er fullt og einhverjir á biðlista.
Þá bjóðum við höfundum að koma í heimsókn til að vinna að skrifum og eigum von á alls 5 af þeirri sort.
Námskeiðsgjald hækkar aðeins milli ára – var kr. 89.000.- en er nú á bilinu kr. 96 – 99.000.- Þetta má auðvitað rekja til almennra verðhækkana í samfélaginu en þess verður líka að geta að nýr staðarhaldari hefur bætt aðbúnað talsvert, t.d. skipt um öll rúm o.fl. þannig að það fer mun betur um okkur.
Eins og glöggir hafa tekið eftir þá verður Leiklistarskólinn settur í 20 sinn í sumar! 20 ár!! Það á nú skilið lófatak. Af þessu tilefni verður fyrrverandi skólastýru og fyrrverandi skólanefndarfólki boðið í heimsókn í skólann í sumar. Við höfum ekki pláss til að taka á móti fyrrverandi nemendum eða öðrum velunnurum og þá viljum við satt best að segja ekki raska hefðbundnu skólastarfi um of. Skólanefnd og stjórn Bandalagsins hafa á hinn bóginn ákveðið að leggja til að halda sérstaka 20 ára afmælishátíð og stefnan sett á mars 2017. Við hvetjum ykkur til að ræða þetta seinna í dag og fögnum öllum tillögum um fyrirkomulag og fagnaðarlæti.
Og – þetta er ekki bara í 20 sinn sem skólinn verður settur – þetta verður líka í 10 sinn sem okkur Dillu hlotnast sá heiður að stýra honum! Við hefðum auðvitað átt að nýta árið til að ákveða að hætta, hætta við að hætta og hætta við að hætta við að hætta. En vegna fjölda áskoranna – aðallega frá hvor annarri – þá erum við bara alls ekki hættar – og hvenær það verður veit nú enginn. Orð fá því ekki lýst hve glaðar við erum og þakklátar fyrir embættið. Við ætlum að vera fastar fyrir, hlusta á fólkið, standa utan allra fylkinga og leiða öll erfið mál til lykta! Við lofum nú samt að verða ekki ellidauðar í embættinu.
Hér lýkur þá skýrsla skólanefndar sem hlakkar til skólaársins. Takk fyrir.
Hrefna Friðriksdóttir skólastýra
Elli, Leikfélagi Selfoss, ræddi vefinn, lýsti ánægju sinni með allar nýjungarnar þar.
Sigríður Hafsteinsdóttir, Leikfélag Selfoss, lýsti ánægju sinni með BÍL skólann.
Hörður Lénsherra kannaði óformlega hverjir af viðstöddum fundarmönnum væru ekki áskrifendur af Vikupósti Leiklistarvefsins. Og mæltist til þess að þeir sem ekki fá póstinn skrái sig á póstlistann nú þegar. Hann bað fundargesti að skoða upplýsingar á vefnum um hvernig hægt er að setja inn upptökur af leiksýningum á vefinn, í staðinn fyrir að nota DVD diska.
Kaffihlé
Eftir hlé voru þeir sem mættu eftir að fundur hófst beðnir að kynna sig.
Sigríður Lára, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, úr kjörnefnd kom í pontu hvatti fólk til að skila inn framboðum í stjórn og varastjórn til kjörnefndar.
10. Drög að starfsáætlun næsta árs kynnt og skipað í starfshópa
Guðfinna kynnir fyrirkomulag starfshópanna. Fundargestum er skipt í 4 hópa.
Hópstjórar:
Ása Hildur Guðjónsdóttir, Halaleikhópnum – hópur 1
Sigríður Lára, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs – hópur 2
Stefán H. Jóhannesson, Leikfélagi Hafnarfjarðar – hópur 3
Örn Alexandersson, Leikfélagi Kópavogs – hópur 4
Stjórn leggur eftirfarandi starfsáætlun fram til umræðu í hópunum:
Tillaga stjórnar að starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2016-2017:
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Sérverkefni ársins
1. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.
2. Að halda afmælishátíð í tilefni af 20 ára afmæli Leiklistarskóla Bandalagsins vorið 2017.
Matarhlé.
Fulltrúar hópa kynna niðurstöður hópavinnu:
Ása Hildur Guðjónsdóttir og Halla Rún Tryggvadóttir kynna niðurstöður hóps 1:
Í hópnum voru: Ása Hildur Guðjónsdóttir Halaleikhópnum, Fanney Valsdóttir Leikfélagi Hörgdæla, Jörundur Ragnarsson Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, Anna María Hjálmarsdóttir Freyvangsleikhúsinu, Halla Rún Tryggvadóttir Leikfélagi Húsavíkur, Stefanía E. Hallbjörnsdóttir Leikfélagi Hörgdæla, Sigríður Hafsteinsdóttir Leikfélagi Selfoss, Jóhanna Fanney Hjálmarsdóttir Leikfélagi Norðfjarðar og Anna Margrét Pálsdóttir Leikfélag Kópavogs.
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
Handrit, spurning um að endurvekja Lestrarhestana þar sem það vantar mikið af upplýsingum inn á Leiklistarvefinn um leikritin. Við getum verið dugleg að senda inn upplýsingar um verk sem við erum að vinna með og þannig bætist smátt og smátt við upplýsingarnar.
Leiklistarskólinn er dásemd. Spurning um að fá námskeið í hári og förðun og ljósum og tækni. Hugsanlega geta nágrannafélög tekið sig saman og haft slík námskeið, fengið skólastýrur til að aðstoða sig í að skipuleggja og finna kennara. Eða að hafa „baktjaldanámskeið“ þar sem kennt yrði allt fyrir utan að leika og leikstýra. Og þá væri hægt að sækja um styrki í menningarsjóði á svæðunum til að halda svoleiðis námskeið.
Stærsta lán BÍL er Vilborg, hrós … hrós … hrós til hennar.
Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
JÁ!
Lista upp sjóði í hverjum fjórðungi svo auðveldara yrði fyrir félögin að sækja um styrki eða fá að vita hvar hægt er að sækja um styrki.
Senda ráðamönnum tölvupósta eins og hefur verið gert. Ekki að gera það of oft en annað slagið. Og nýta það ef menn þekkja einhverja ráðamenn og reyna að ota sínum tota þar.
Mæta á kosningaskrifstofur og minna á BÍL, í haust eða vor, þegar verður kosið.
Senda leikskrár á bæjarskrifstofur.
Sérverkefni
Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.
Já takk.
Markaðssetningin mikilvæg.
Fjölmiðlafulltrúi – hvernig gerir maður sýningar sýnilegar á mikils kostnaðar?
Að halda afmælishátíð, BÍL skólinn er að verða 20 ára.
Já, já, já, ekki spurning.
Gera eitthvað í anda lokadagsins í skólanum. Hafa afmælishátíðina í ágúst, í tengslum við skóla-rejúníon helgina.
Skipa nefnd fyrir afmælishátíð skólans.
Að gera eitthvað í öllum félögum víðsvegar um landið.
Athuga með að fá fjölmiðla til að gera heimildamynd eða þátt um skólann, fá t.d. Gísla Einars með í skólann í vor til að taka upp og gera svo smá þátt um skólann eða innslag í Landann. Eða fá N4 til að taka þátt í þessu.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir kynnir niðurstöður hóps 2:
Hópstjóri: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Leikfélagi Fljótsdalshéraðs
Meðlimir hóps: Magnþóra Kristjánsdóttir Leikfélagi Ölfuss, Rúnar Gunnarsson Leikfélagi Seyðisfjarðar, Margrét Guttormsdóttir Halaleikhópnum, Ágúst T. Magnússon Leikfélagi Seyðisfjarðar, Bára Einarsdóttir Umf. Reykdæla, Lilja Jóna Halldórsdóttir Leikfélagi Selfoss og Gerður Halldóra Sigurðardóttir Leikfélagi Selfoss.
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefs og annarra fastra liða í starfseminni.
Auglýsa og kynna starfsemi þjónustumiðstöðvar, vefverslunar og handritasafns á landsvísu. Kynna vefverslunina sérstaklega í skólum, leikskólum og sambærilegu. Fara í kynningarátak. Fá t.d. fyrirtæki sem heitir Eltu mig til þess að sjá um kynningu á netinu. Gera heimildamynd um áhugaleikfélögin í landinu, starfsemi Bandalagsins og Leiklistarskólans. Jafnvel til efni hjá sjónvarpsstöðvunum og leikfélögunum sem hægt væri að nýta. Nota vefinn til þess að sýna klippur frá uppsetningum félaganna, æfingum og þess háttar.
Almenn ánægja með skólann. Hefur skilað sér vel inn í leikfélögin og orðið til þess að margir mennta sig frekar í leiklist. Mikilvægt fjöregg fyrir starfsemi áhugaleikfélanna. Reynslan hefur sýnt víða að þegar fólk hefur farið í skólann hefur það smitað út frá sér innan félaganna og aukið áhuga og nýliðun. Rætt um pláss sem losna á síðustu stundu og mikilvægi þess að þau fyllist.
Halda tækninámskeið og förðunarnámskeið. Jafnvel að hafa förðunarnámskeið í skólanum í júní, t.d. tvo síðustu dagana og tengja við lokadaginn.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Kanna hvort hægt sé að leita eftir styrkjum til að niðurgreiða skólann. Notfæra okkur komandi kosningar til að þrýsta á ráðamenn varðandi hækkuð framlög frá ríkinu. Ágúst og Rúnar stinga upp á því að Bandalagið bjóði fram Leiklistann á landsvísu í kosningunum í haust þó ekki væri nema til þess að vekja á okkur athygli.
Sérverkefni ársins
1. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.
Já. Mikilvægt að stjórnir leikfélaga séu vel að sér í þessum málum. Margt nýtt komið fram sem vert er að kynna sér. Gott væri til dæmis að ræða á námskeiðinu hvernig samskiptum við sveitarfélög er háttað varðandi styrki, húsnæðismál og þess háttar. Einnig þarf að kynna vel öll praktísk atriði varðandi rekstur leikfélanna, hvert er hlutverk hvers og eins.
2. Að halda afmælishátíð í tilefni af 20 ára afmæli Leiklistarskóla Bandalagsins vor 2017.
Að setja upp vefleikrit þar sem leikrit eru sett upp út um allt land og sýnd á netinu. Kjörið tækifæri til þess að kynna Bandalagið og skólann. Fá kannski bara styrk hjá Google gegn því að nota þeirra græjur til að framkvæma verkefnið.
Halda partí.
Stefán H. Jóhannesson kynnir niðurstöður hóps 3:
Hópstjóri: Stefán Jóhannesson Leikfélagi Hafnarfjarðar.
Aðrir í hóp: Aðalsteinn Hreinsson Leikfélagi Hörgdæla, Árný Leifsdóttir Leikfélagi Ölfuss, Brynhildur Sveinsdóttir Leikfélagi Mosfellssveitar, Snorri Emilsson Leikfélagi Seyðisfjarðar, Guðrún Ásgeirsdóttir Leikfélagi Norðfjarðar, Eva Kjerúlf Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, Tristan Theodórsson Leikfélagi Norðfjarðar.
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefs og annarra fastra liða í starfseminni.
Almenn ánægja með þjónustumiðstöðina. Verslunin mikið notuð, mætti auka kynningu á henni út fyrir leikfélögin t.d. á facebook. Búðin heitir víst leikhúsbúðin, spurning um að kynna nafnið betur og gera fb síðu fyrir hana. Leiklistavefurinn er orðinn mjög flottur og mikið aðgengilegri. Við elskum skólann. Hvetja félögin til að senda fólk í skólann og styrkja, það skilar sér inn í starf leikfélaganna og getur jafnvel haldið kostnaði félaga niðri, t.d. í leikstjórn. Spurning um námskeið utan skólatíma s.s. förðunar- og búninganámskeið. Er hlekkur á landsnetið á leiklist.is?
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Við styðjum stjórn og framkvæmdastjóra til að leggja áherslu á að ná samningi við ríkið til lengri tíma. Leita til álrisanna um styrki til reksturs BÍL. Athuga með stóru fyrirtækin sem starfa á landsvísu.
Sérverkefni
1. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.
Já, spurning hvort þurfi aukadag undir það eða hvort það náist innan hefðbundinnar þinghelgar.
2. Að halda afmælishátíð í tilefni af 20 ára afmæli Leiklistarskóla Bandalagsins vor 2017.
Afmælishátíð – virkja gamla nemendur til að gera eitthvað skemmtilegt. Ríjúníonhelgin stækkuð? Karnival. Leikgleðiganga, óviss staðsetning. Vor.
Örn Alexandersson kynnir niðurstöður hóps 4:
Hópstjóri: Örn Alexandersson, Leikfélagi Kópavogs
Aðrir í hóp: Fjóla Egedia Sverrisdóttir Leikfélag Fljótsdalshéraðs, Berglind Ósk Ingólfsdóttir Leikfélagi Húsavíkur, Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir Leikfélagi Hörgdæla, Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir Leikfélagi Norðfjarðar, Brynjar Örn Rúnarsson Leikfélagi Norðfjarðar, F. Elli Hafliðason Leikfélagi Selfoss og Oddfreyja Oddfreysdóttir Leikfélagi Ölfuss.
1. Gott starf skrifstofu. Hrósa vef. Átak í að auglýsa vefverslun s.s. fyrir öskudag, bæjarhátíðir, 17. júní. T.d. í gegnum facebook (ódýr lausn). Samhliða auglýsa handritasafn BÍL.
2. Sækja um styrki vegna afmælishátíðar BÍL skóla t.d. vegna gerðar kynningarefnis fyrir skólann.
Sérverkefni:
1. Umfjöllunarefni námskeiðs t.d. fundarsköp, hlutverk stjórnar og starfa í leikhúsi, fjárhagsáætlanir, kynna markaðssetningu á vef og útfylling styrkumsókna.
2. A) Kynna skólann í framhaldsskólum. Fara í framhaldsskóla og kynna skólann af þeim sem hafa verið í honum. Gera kynningarbækling. T.d. gera trailer um veru í skólanum.
B) Hátíðin sjálf. Skipa nefnd. Lagt til að hafa hátíðina í maí eða ágúst.
Annað:
Hafa förðunarnámskeið samhliða BÍL þingi. Endurvekja lestrarhesta. Hafa skil frá þeim á vef (komið) Bandalags skrifstofan minni þá á sem eru að fá handrit til yfirlestrar að fylla út útdrátt úr leikritum sem þeir lesa og skila inn til Bandalagsins eða beint á vef. (Eyðublað til á skrifstofu BÍL).
11. Kjörnefnd tilkynnir niðurstöður sínar og mælir með a.m.k. 1 aðila í hvert sæti sem kjósa skal í
Gerður H. Sigurðardóttir Leikfélagi Selfoss, lætur vita að allt er óbreitt, þrír sem eiga að ganga úr aðalstjórn en gefa allir kost á sér áfram og tveir eiga að ganga úr varastjórn, þar gefur Ágúst T. Magnússon, Leikfélagi Seyðisfjarðar áfram kost á sér en Ylfa Mist Helgadóttir, Leikfélagi Bolungarvíkur, ekki. Framboð hafa komið frá Sigríði Hafsteinsdóttur og Snorra Emilssyni Leikfélagi Seyðisfjarðar.
12. Lagabreytingar
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundi.
13. Tillögur lagðar fyrir fundinn
Fram er lögð tillaga frá stjórn:
Tillaga lögð fyrir aðalfund BÍL 2016
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að 1 m. kr. af verkefnastyrk aðildarfélaganna verði látin ganga til rekstrar þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.
Fh. stjórnar,
Ólöf Þórðardóttir.
Bernharð tekur undir orð Ólafar, segir þetta gert af illri nauðsyn, stjórn gerir ráð fyir að þetta dugi til að hada starfinu áfram til áramóta og leggur til að tillagan verði samþykkt. Fleiri tjá sig ekki um málið.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
14. Starfsáætlun afgreidd.
Vilborg áréttar að starfsáætlun, eins og hún fór til hópa, er tillaga stjórnar. Þannig að ef hópar eru með breytingatillögur eða viðbætur við starfsáætlun þá þarf að leggja þær fram skriflega.
Hrefna kveður sér hljóðs og þakkar öll falleg ummæli um skólann en vill taka fram varðandi aðgengi fatlaðra í skólanum að leitað hafi verið logandi ljósi að stað fyrir skólann þar sem þarfir sem flestra eru hafðar að leiðarljósi og þrátt fyrir að aðgengi sé ekki fullkomið á Húnavöllum þá sé þetta eiginlega eini staðurinn sem stendur til boða bæðir hvað varðar verð og aðgengi. Varðandi kynningarmál segir hún að skólinn sé á þeim stað að námskeiðin fyllist yfirleitt alltaf og því spurning hversu mikið kynningarátak þarf fyrir skólann sem slíkan. En samt sem áður væri gaman að fá kynningu á því góða starfi sem unnið er í skólanum í tengslum við almenna kynningu á Bandalaginu.
Sigríði Hafsteinsdóttur langar til að kanna hvort afmælishátíð skólans gæti ekki verið í tengslum við árlegt reunion skólans. Dilla bendir á að það sé Leikfélagið Sýnir sem hefur staðið fyrir reunion en ekki skólinn. Hrefna talar um að skólinn hafi fyrst starfað sumarið 1997 og því er árið 2017 afmælisárið þó að skólinn sé settur í 20. skipti sumarið 2016.
Elli vill árétta, varðandi tímasetningu, að mars er frekar óhentugur tími þar sem mörg félög eru að sýna þá og eins varðandi gistimöguleika að á veturnar er ekki hægt að gista í tjaldi.
Hrefna svarar því til að hugmyndin hafi verið að hafa þetta á milli þess að skólinn sé settur í 20. og 21. skipti og því var mars til umræðu en þetta er ekki fastneglt og maí kemur vel til greina.
Embla spyr um staðsetningu á afmælishátíð, hvort því hafi eitthvað verið velt upp. Og segir jafnframt að það sé nauðsynlegt að taka ákvörðun fljótlega hvað á að gera og ákveða dagsetningu upp á að senda inn styrkumsóknir sem oft þarf að senda um áramót og þá þarf að vera búið að negla þessa hluti niður. Leggur jafnframt til að eitthvað svipað verði gert varðandi kynningu á skólanum eins og hestamenn hafa verið að gera með vikulegum þáttum í sjónvarpinu.
Vilborg bendir á að í tillögu stjórnar að starfsáætlunum sé gert ráð fyrir að haldið verði námskeið í tengslum við aðalfund 2017 þannig að það sé kannski ekki raunhæft að halda afmælishátíð BÍL líka í tengslum við aðalfund. Og hún veltir því líka upp hvort afmælishátíð skólans höfði ekki aðallega til nemenda skólans og annarra þeirra sem hafi látið hann sig einhverju skipta í gegnum árin.
Guðfinna segir að það sé vart framkvæmanlegt að halda afmælið í tengslum við aðalfund.
Örn Alexandersson leggur til að afmælishátíð verði haldin í Svarfaðardal þar sem skólinn var starfræktur fyrstu árin.
Margrét Guttormsdóttir, Halaleikhópnum, talar um netleikrit til að fagna afmælinu, nota mætti netið til að leika saman um allt land.
Hrefna velti fyrir sér hvort það yrði gaman að setja saman netleikrit fyrir 70 ára afmæli Bandalagsins árið 2020 þar sem unnin yrði sýning með bútum úr öllum leikritum sem væru í gangi hjá aðildarfélögunum.
Sigríður Hafsteinsdóttir áleit að kannski væri sniðugra að hafa samband við N4 eða Landann um að gera veglegan þátt um starfsemi Bandalagsins í tilefni 70 ára afmælisins og þá væri kynning á skólanum þar inni.
Eftirfarandi starfsáætlun lögð fyrir fundinn og samþykkt samhljóða:
Starfsáætlun Bandalags íslenskra leikfélaga leikárið 2015-2016
Almenn starfsemi
1. Rekstur þjónustumiðstöðvar, Leiklistarskóla, Leiklistarvefsins og annarra fastra liða í starfseminni.
2. Leita eftir hækkuðum framlögum úr opinberum sjóðum og frá einkaaðilum til starfsemi áhugaleikfélaganna og sameiginlegra verkefna.
Sérverkefni ársins
1. Að haldið verði námskeið í stjórnun leikfélaga og markaðssetningu samhliða aðalfundi 2017.
2. Að halda afmælishátíð í tilefni af 20 ára afmæli Leikslistarskóla Bandalagsins vorið 2017.
15. Stjórnarkjör
Dýrleif kynnir hverjir eru í framboði
Úr aðalstjórn eiga að ganga Bernharð Arnarson, Ólöf Þórðardóttir og Þráinn Sigvaldason. Ólöf var kosin í fyrra til eins árs. Gefa þau öll kost á sér áfram, engin önnur framboð hafa borist.
Úr varastjórn eiga að ganga Ágúst T. Magnússon og Ylfa Mist Helgadóttir. Ágúst var kosinn í fyrra til eins árs. Ylfa gefur ekki kost á sér áfram en Ágúst gefur kost á sér.
Í framboði til setu í varastjórn eru þá Ágúst, Snorri Emilsson og Sigríður Hafsteinsdóttir.
Frambjóðendur kynntu sig.
Bernharð Arnarson, Ólöf Þórðardóttir og Þráinn Sigvaldason voru sjálfkjörin í aðalstjórn þar sem engin mótframboð bárust. Samþykkt með lófataki.
Kosningar til varastjórnar fóru svohljóðandi:
Sigríður 13 atkvæði
Ágúst 14 atkvæði
Snorri 3 atkvæði
Sigríður og Ágúst eru því réttkjörin til setu í varastjórn Bandalagsins næstu tvö árin.
16. a. Kosning 3ja manna kjörnefndar og eins varamanns til eins árs
b. Kosning 2ja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs
Dýrleif Jónsdóttir, Gerður H. Sigurðardóttir og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir bjóða sig fram áfram sem aðalmenn í kjörstjórn. Örn Alexandersson býður sig fram sem varamaður.
Samþykkt samhljóða.
Núverandi skoðunarmenn reikninga eru þær Anna Jórunn Stefánsdóttir, Leikfélagi Hveragerðis, Hrefna Friðriksdóttir og til vara Júlía Hannam, Hugleik.
Þær gefa allar kost á sér aftur.
Samþykkt samhljóða.
17. Ákveðið árgjald til Bandalagsins.
Gísli Björn Heimisson kynnti tillögu stjórnar að árgjald til Bandalagsins fyrir leikárið 2016-2017.
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga leggur til að árgjöld aðildarfélaga fyrir leikárið 2016-2017 verði kr. 67.000.
Félög sem setja upp tvær styrkhæfar sýningar á leikárinu borgi eitt og hálft gjald eða 100.500 og félög sem setja upp þrjár sýningar eða fleiri borgi tvöfalt gjald eða kr. 134.000.
Félög sem setja ekki upp styrkhæfa sýningu á leikárinu borgi hálft árgjald eða kr. 33.500.
Stjórn leggur til að árgjaldið hækki reglulega um lágar upphæðir í stað þess að hækka árgjaldið sjaldnar og þá um hærri upphæðir.
Tillagan samþykkt samhljóða.
18. Önnur mál
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir sagði frá fjölþjóðlegri rannsókn á áhugaleikhúsi sem er að fara í gang. Stofnfundur um hana verður í sumar á ráðstefnu IFTR (International Federation for Theatre Research) í Stokkhólmi. Einnig hefur fengist vilyrði frá Háskóla Íslands um að árleg ráðstefna IFTR verði haldin í Reykjavík árið 2020, sama ár og BÍL verður 70 ára. Möguleiki væri að tengja málstofu á henni Bandalaginu.
Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, Leikfélagi Norðfjarðar, sagði frá hópi fólks sem verður með vikulangt námskeið í ágúst í sumar í tengslum við leiklist og fleiri listgreinar. Líklega að mestu leyti á Norðfirði en gæti verið á fleiri stöðum á Austurlandi.
Hörður Sigurðarson sýndi Leiklistarvefinn á skjávarpa og ræddi nokkra hluti varðandi vefinn og nýja umsóknarkerfið sem þar er að finna.
Guðfinna Gunnarsdóttir bauð nýja stjórn velkomna til starfa og þakkaði Ylfu Mist Helgadóttur sem gekk úr varastjórn fyrir hennar störf.
Sigríður Hafsteinsdóttir þakkaði fyrir kosninguna í varastjórn.
Elli Hafliðason sagði frá því að Leikfélag Selfoss hefði notað það „að boosta“ á facebook sem kynningartæki fyrir leiksýningu LS og hefði það gengið mjög vel og mætli hann með slíkri aðferð.
Guðfinna Gunnarsdóttir þakkaði Herði Lénsherra mikið og vel fyrir nýja umsóknarkerfið á Leiklistarvefnum og hans störf við Leiklistarvefinn yfirleitt og bað fundargesti að rísa úr sætum og klappa fyrir honum í þakklætisskyni.
19. Næsti aðalfundur, hugmyndir reifaðar um stað og stund
Elli Hafliðason Leikfélagi Selfoss og Magnþóra Kristjánsdóttir Leikfélagi Ölfuss buðust, fyrir hönd félaga sinna, til að halda næsta aðalfund.
Guðfinna Gunnarsdóttir þakkaði fundarstjórum og fundarriturum fyrir þeirra vinnu. Eins þakkaði hún félögum í Leikfélagi Seyðisfjarðar móttökurnar og fyrir að halda vel utan um fundargesti. Hún sleit fundi upp úr klukkan 15:30.
Fundinn rituðu Fanney Valsdóttir og Halla Rún Tryggvadóttir.