ImageNú hefur verið gengið frá samningum um sýningar á hinum geysivinsæla gamanleik, Fullkomnu brúðkaupi, í Reykjavík. Sýningarnar hefjast í lok apríl og verða í Borgarleikhúsinu. Miðasala hefst í miðasölu Borgarleikhússins nú á föstudag, 10. mars. Fullkomið brúðkaup hefur slegið öll met hjá LA og er aðsóknarmesta sýning í sögu leikhússins. Sýningin hætti fyrir fullu húsi á Akureyri nú í febrúar til að rýma til fyrir næstu frumsýningu leikhússins, Litlu hryllingsbúðinni.
 
Gamanleikritið Fullkomið brúðkaup var frumsýnt hjá LA þann 20. október síðastliðinn. Sýningin sló þegar í stað í gegn og fullt var á allar sýningar verksins og fjölda aukasýninga bætt við. Þrátt fyrir að sýningin hafi enn verið sýnd fyrir fullu húsi var ákveðið að standa við það að sýningum lyki 18. febrúar enda ljóst að ella hefði þurft að fresta frumsýningu á Litlu hryllingsbúðinni fram á haust. Fullkomið brúðkaup er aðsóknarmesta sýning LA frá upphafi.
 
Starfsfólk leikhússins hefur orðið fengið fjölda fyrirspurna um sýningar í Reykjavík. Til að mæta fjölda áskorana hefur verið ákveðið að hefja sýningar á Fullkomnu brúðkaupi í Reykjavík í vor.  Þrír aðilar standa að sýningarhaldinu í Reykjavík í samstarfi við LA, það eru Borgarleikhúsið, Á þakinu og 3 Sagas.
 
Fyrsta sýningin verður 30. apríl en næstu sýningar þar á eftir eru: 2., 3, 7, 8 og 9 maí. Athugið að sýningar verða einungis í maí og júní og því rétt að hvetja áhugasama um að tryggja sér miða þegar. Miðasala Borgarleikhússins mun hefja sölu á sýninguna nú á föstudag, 10. mars.  Visa korthöfum býðst sérstakt tilboð á miðum á fyrstu sýningarnar en þeir fá miðann á krónur 1.800. Síminn í miðasölu Borgarleikhússins er 568 8000.
 
Fullkomið brúðkaup er vel skrifaður gamanleikur, hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað…
 
Fullkomið brúðkaup er eftir Robin Hawdon, leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson en þýðingu gerði Örn Árnason. Leikarar eru Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Maríann Clara Lúthersdóttir, Esther Thalia Casey og Þráinn Karlsson. Samstarfsaðilar við uppsetninguna eru Visa Ísland, Höldur bílaleiga og Egils.