Vegna óviðráðanlegra orsaka hefur orðið að hætta við fyrirhugaða uppsetningu á leikritinu Þið munið hann Jörund, hjá Leikfélagi Dalvíkur. Kristján Guðmundsson formaður LD, segir að ýmsir þættir hafi spilað þar inní sem ekki verð raktir nánar hér. Kristján segist vonast til að hægt verði að setja verkið upp í nánustu framtíð. Þess í stað eru hafnar æfingar á farsanum Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon, sem Örn Árnason þýddi og er verkið í leikstjórn Aðalsteins Bergdal. Sex leikarar koma fram í sýningunni og er frumsýning áætluð í byrjun apríl.

Kristján segir að hér sé um drepfyndinn og rómantískan gamanleik að ræða, hann er hraður, fullur af misskilningi, framhjáhöldum og ást. „Leikritið segir frá ungu fólki sem er að glíma við ástina, verða ástfangið, hætta að vera ástfangið og að verða ástfangið af þeim sem það má ekki verða ástfangið af. Brúðkaupsdagurinn er runninn upp. Brúðguminn vaknar með konu sér við hlið. Hann hefur aldrei séð hana fyrr. Hver er þessi kona? Hvað gerðist kvöldið áður? Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni, herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað…“