Leikritið Trúðleikur eftir Hallgrím H. Helgason verður frumsýnt í Frystiklefanum í Rifi þann 1. júní næstkomandi. Trúðleikur er sprellfjörugur og hjartnæmur gamanleikur fyrir alla í fjölskyldunni. Leikritið er nú sett upp í fyrsta sinn síðan það sló rækilega í gegn í Iðnó um aldamótin síðustu. Trúðleikur er þriðja uppfærsla Frystiklefans í Rifi og fylgir á eftir einleiknum Hetju og karókísplatternum Góðir hálsar sem báðar hlutu frábæra dóma bæði gagnrýnenda og áhorfenda á sínum tíma.

Leikritið fjallar um trúðana tvo Skúla og Spæla sem hafa starfað saman langalengi. Skúli er ævinlega kátur og bjartsýnn, finnst yndislegt að sprella og getur ekki ímyndað sér neinn annan starfa, enda streyma hugmyndirnar og skemmtileg dellan upp úr honum eins og gosbrunni. Spæli er hins vegar krumpuð og tortryggin týpa. Fljótlega í leikritinu kemur babb í bátinn. Spæli kveður upp úr með að þeir félagar hafi greinilega enn einu sinni lent á vitlausum áhorfendum sem hlæi á kolröngum stöðum.

Leikstjóri verksins er Halldór Gylfason og leikarar þeir Benedikt Karl Gröndal og Kári Viðarsson. Hulda Skúladóttir hannaði búninga, Friðþjófur Þorsteinsson sá um ljósahönnun og hönnun leikmyndar var í höndum hópsins. Leikhússtjóri Frystiklefans er Kári Viðarsson.

Almennt miðaverð er 2.500 kr. og miðasala er á frystiklefinn@gmail.com, í símum 865-9432, 862-6362 og á Miði.is.

{mos_fb_discuss:2}