Verkið Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson, í leikgerð Bjarna Jónssonar, verður frumsýnt á nýja sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 27. október. Leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir. Verkið er sjálfstætt framhald Híbýla vindanna sem frumsýnd voru í janúar 2005 og hlutu frábærar viðtökur.
“Lífsins tré” leiðir áhorfandann á slóðir Íslendinga í Winnipeg, þar sem þeir hafa tekið upp breska siði, aka í cörum, reka verslun, sníða kjóla og reisa vöruhús og bindindishallir.
Jens Duffrín, yngsti sonur Ólafs fíólín og Elsabetar, seinni konu hans, er kynlegur kvistur á ættartré fólksins frá Seyru í Borgarfirði. Eftir að hafa slitið barnsskónum í hreysahverfum Winnipeg og meðal Mennóníta, flakkar Jens um Bandaríkin með Alþjóðasirkusnum í Minneapolis. Síðar gerist hann götusópari í sinni heimaborg og hermaður bresku krúnunnar. Málmfríður systir hans helgar líf sitt hins vegar fjölskyldu sinni, börnum og “Dætrum fjallkonunnar”, framfarafélags íslenskra kvenna. Bréf hennar til Ólafs heiðarsveins, bróðurins sem varð eftir á Íslandi, eru einlægur vitnisburður um gleði og sorgir Vesturíslendinga. Þau varpa einnig ljósi á tónlistargáfu ættmenna Ólafs fíólín og þörf þeirra fyrir að finna henni farveg í lífi sínu.
Halldór Gylfason leikur Jens Duffrín, Eggert Þorleifsson leikur Ólaf fíólín og Sóley Elíasdóttir konu hans Elsabetu. Með önnur hlutverk fara Sigrún Edda Björnsdóttir, Hildigunnur Þráinsdóttir, Gunnar Hansson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Valur Freyr Einarsson og Þór Tulinius.
Hljóðfæraleikarar: Pétur Grétarsson (píanó og orgel), Eðvarð Lárusson (rafgítar og banjó) og Kristín Björg Ragnarsdóttir (fiðla).
Tónlist: Pétur Grétarsson
Ljós: Lárus Björnsson
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Búningar: Filippía I. Elísdóttir
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Dans: Lára Stefánsdóttir
Leikstjóri: Þórhildur Þorleifsdóttir