Fimmtudagskvöldið 1. júní frumsýnir unglingadeild Leikfélags Kópavogs leikritið Dans eftir Hrund Ólafsdóttur en hún leikstýrir einnig verkinu. Aðstoðarleikstjóri er Arnar Ingvarsson.
Verkið var samið á æfingatímanum sem hófst með námskeiði fyrir unglinga á aldrinum 13 – 16 ára. Helmingur hópsins var á grunnnámskeiði hjá Hrund fyrir ári en hinn helmingurinn er ýmist að leika í fyrsta sinn eða hefur sótt námskeið annars staðar.
Leikritið Dans fjallar um þrjú ár í lífi Hildigunnar og vina hennar en þau eru að byrja í áttunda bekk þegar verkið hefst. Félagarnir skipta mestu máli en fjölskyldur þeirra líka og spurt er í verkinu hvort krakkarnir séu studdir af sínum nánustu þegar lífið hefur upp á svo margt að bjóða. Dans, ást, feimni, sjálfstæði, fullorðinsleikir eins og áfengisdrykkja og kynlíf ber á góma. Snúa björtu hliðar unglingsáranna að þessum krökkum eða eru hinar dökku hliðar ágengari?
Leikararnir eru tíu talsins, öll á grunnskólaaldri en auk þeirra koma að sýningunni búninga- og leikmyndahönnuðir og fleiri skapandi krakkar á framhaldsskólaaldri auk tæknifólks úr Leikfélagi Kópavogs.
Sýningar verða sem hér segir:
Frumsýning fimmtudaginn 1. júní kl. 20:00
Önnur sýning mánudaginn 5. júní kl. 20:00
Þriðja sýning þriðjudaginn 6. júní kl. 20:00
Miðapantanir á dans@kopleik.is og í síma 5541985
Nánari upplýsingar á kopleik.is