Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga var haldinn um síðustu helgi. Að þessu sinni bauð Leikfélag Fljótsdalshéraðs Bandalaginu heim, og var fundurinn því haldinn að Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. En Leikfélg Fljótsdalshéraðs átti einmit 40 ára afmæli á liðnu leikári.
Fundinn sóttu um 40 manns frá 14 leikfélögum og þykir miður að áhugi virðist fara dvínandi á því að sækja þessar, annars, stórskemmtilegu samkomur.
Fundurinn sjálfur varð þó engu að síður afkastamikill og nokkrar veigamiklar ákvarðanir teknar. Því er ljóst að í nokkur stórverkefni verður ráðist í nánustu framtíð samtakanna.
Formannaskipti og aðrar breytingar á stjórn
Það bar helst til tíðinda í stjórnarkjöri að sitjandi formaður, Guðrún Halla Jónsdóttir, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þorgeir Tryggvason bauð sig fram í hennar stað og var hann sjálfkjörinn í embættið.
Guðrún Halla kom inn í varastjórn Bandalagsins árið 1992 og hefur setið í stjórn síðan. Hún var kosin formaður á aðalfundi í Stykkishólmi árið 2005. Halla hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af starfi leikfélaga og hefur starfað með ýmsum félögum, eins og Litla leikklúbbnum á Ísafirði, Leikfélagi Selfoss og Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit. Það verður missir að henni úr stjórn Bandalagsins, en ekki hægt að segja annað en að hún sé búin að standa vaktina með sóma og sé vel að hvíldinni komin.
Sem betur fer kemur síðan alltaf maður í manns stað.
Þorgeir Tryggvason, nýkjörinn formaður, hefur lengi starfað með leikfélaginu Hugleik og hefur komið að flestu sem viðkemur leikhúsvinnu. Hann var um árabil ritari þjónustumiðstöðvar Bandalagsins og hefur setið í varastjórn, og aragrúa nefnda á vegum samtakanna. Í fyrra var hann síðan kosinn í aðalstjórn. Hér er því enginn nýgræðingur á ferð og Þorgeir á vafalaust eftir að koma sterkur inn í formannsembættinu.
Aðrar breytingar á stjórn urðu þær að Hrund Ólafsdóttir, sem setið hefur í varastjórn, var kosin í aðalstjórn til eins árs, til að sitja það sem eftir er af stjórnarsetu Þorgeirs. Þórvör Embla Guðmundsdóttir, ritari stjórnar, var í kjöri og var endurkjörin í stjórn til tveggja ára. Til þriggja sæta í varastjórn buðu sig fram Guðfinna Gunnarsdóttir, Hjalti Stefán Kristjánsson og Ólöf Þórðardóttir og voru þau sjálfkjörin.
Stuttverkahátíðir
Ákveðið var að halda stuttverkahátíðina Margt smátt í haust, í samstarfi við Borgarleikhúsið. Þetta verður í fjórða sinn sem hátíðin verður haldin. Einnig er stefnt að því að halda einþáttungahátíð í tengslum við aðalfund næsta vor.
Alþjóðleg leiklistarhátíð NEATA á Íslandi 2010
Nú hefur verið vitað um nokkurt skeið að leiklistarhátíð Norður-Evrópska áhugaleikhússambandsins verður haldin hér á landi sumarið 2010. Þessi hátíð hefur verið haldin á tveggja ára fresti síðan 1998, og eiga Norðurlandaþjóðirnar og Eystrasaltslöndin jafnan fulltrúa á þessum hátíðum. Þar að auki er oftast a.m.k. einni sýningu utan NEATA boðið til hátíðarinnar. Nú þarf að setja undirbúning í gang og meðal annars að hefjast handa við að afla fjár og sækja um styrki til hátíðarinnar. Aðalfundur samþykkti það sem eitt sérverkefna á starfsáætlun næsta leikárs.
Lög Bandalagsins
Stjórn var falið að setja af stað nefnd sem endurskoðaði lög Bandalagsins fyrir næsta aðalfund.
Húsnæðismál
Stjórn og framkvæmdastjóra var falið að selja húsnæði skrifstofu Bandalagsins við Laugaveg 96 og kaupa annað, helst á jarðhæð eða þar sem aðgengi er betra. Það hafa oft verið gerðar athugasemdir við að skrifstofan skuli vera á annari hæð og að hún skuli ekki vera aðgengileg fyrir hreyfihamlaða. Einnig er komið tími á mikið viðhald utan á núverandi húsnæði. Þar sem í sjálfu sér er ekki þörf á að skrifstofan sé í miðbænum þykir mönnum sýnt að hægt væri að fá hentugra húsnæði annars staðar í bænum fyrir andvirði húsnæðisins við Laugaveg.
Einnig var ákveðið að hafa áfram augun opin fyrir aðgengilegra húsnæði fyrir Leiklistarskóla Bandalagsins. Á fundinum heyrðist af því að á nokkrum stöðum væri verið að hætta hótelrekstri á sumrin og mætti athuga hvað hugsað er að komi í staðinn. Einnig kom fram tillaga um að sveitarstjórnum yrðu sendar fyrirspurnir um hvort hentugt húsnæði undir starfsemina fyndist e.t.v. í þeirra sveitarfélagi.
Fjámál
Nokkuð var rætt um fjáhagsvanda leikfélaganna og þjónustumiðstöðvar Bandalagsins.
Aðalfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, haldinn á Hallormsstað 5.-6. maí 2007, skorar á frambjóðendur til Alþingis að hlúa að blómlegu starfi áhugaleikfélaganna í landinu með því að kynna sér starf þeirra og auka þann fjárstyrk sem áhugaleikhúshreyfingin nýtur frá ríkisvaldinu. Áhugaleikhúsið er vagga leiklistar í landinu og hornsteinn menningar í hverju byggðarlagi.
Hjálpið okkur að halda landinu í byggð!
{mos_fb_discuss:3}