Þann 1. febrúar mun Freyvangsleikhúsið frumsýna leikritið Dagatalsdömurnar eða Calendar girls eftir Tim Firth. Verkið er gamanleikrit og var valið besta gamanleikritið í London árið 2010. Þetta er í fyrsta skipti sem verkið er sett upp á Íslandi og fékk leikfélagið Davíð Þór Jónsson til að skella því yfir á íslensku. Leikstjóri er svo hin gamalreynda Sigrún Valbergsdóttir.

Verkið er byggt á sannsögulegum atburðum sem gerðust í London árið 1999. Kvennfélagskonur taka sig saman og ákveða að gera dagatal með fallegum myndum af sjálfum sér, fáklæddum. Dagatalið ætla þær síðan að selja til að safna fyrir sófa á krabbameinsdeildina á sjúkrahúsinu í bænum sem þær búa í því maður einnar þeirra greindist með krabba og þær vilja leggja sitt af mörkum til að gera biðstofuna á sjúkrahúsinu vistlegri. Það verða átök í hópnum um gerð dagatalsins og ekki minni um frægðina sem þær öðlast eftir að dagatalið birtist.

Ástæða þess að þetta verk varð fyrir valinu er að Freyvangsleikhúsið vill draga athyglina að baráttunni gegn krabbameini. Þessi sjúkdómur kemur beint eða óbeint við alla og hefur Freyvangsleikhúsið fengið að kynnast því. Öll laun fyrir höfunda- og sýningarrétt renna óskert til rannsókna á sjúkdómnum, en einnig hefur Freyvangsleikhúsið ákveðið að gera enn betur og ánafna Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis hluta af innkomunni.