Á komandi haustmisseri verður ráðist í metnaðarfullt verkefni hjá Íslensku óperunni – sviðssetningu á einni af umfangsmestu óperum Verdis, Don Carlo, sem aldrei hefur verið sviðssett á Íslandi áður.
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir sýningunni og hefur hún Pál Ragnarsson ljósahönnuð og Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur búninga- og leikmyndahöfund sér til fulltingis. Guðmundur Óli Gunnarsson verður hljómsveitarstjóri. Flutt verður fjögurra þátta útgáfan af þessu mikla verki Verdi, og verður hún sungin á ítölsku með íslenskum skjátexta.
Frumsýning verður í Eldborg í Hörpu 18. október og eru þrjár aðrar sýningar ráðgerðar, í október og nóvember.Eingöngu íslenskir söngvarar taka þátt í sýningunni og ber þar fyrstan að nefna þekktasta óperulistamann Íslands um þessar mundir, bassasöngvarann Kristinn Sigmundsson, sem tekur þátt í óperuuppfærslu hjá Íslensku óperunni í fyrsta sinn í 12 ár og fer hér með eitt voldugasta bassahlutverk tónbókmenntanna, Filippus konung og föður Don Carlo. Af öðrum söngvurum í sýningunni má nefna Jóhann Friðgeir Valdimarsson í titilhlutverkinu Don Carlo, Helgu Rós Indriðadóttur sem einnig snýr aftur á íslenskt óperusvið eftir nokkurt hlé í hlutverki Elísabetar drottningar og hinn unga og upprennandi baritónsöngvara Odd Arnþór Jónsson, sem nýverið lauk söngnámi frá tónlistarháskólanum í Vínarborg og sópar að sér spennandi verkefnum um þessar mundir, en hann verður í hlutverki Rodrigo. Auk þess syngja Hanna Dóra Sturludóttir, sem sló í gegn sem Carmen síðastliðið haust, hlutverk Eboli, Guðjón Óskarsson hlutverk Grand Inquisitor, en hefur aðallega sungið við erlend óperuhús á liðnum árum og söng m.a. í Arenunni í Verona á síðastliðnu ári og Viðar Gunnarsson, sem er íslenskum óperugestum að góðu kunnur í fjöldamörgum hlutverkum síðastliðin ár, syngur hlutverk Munksins. Þá verða Erla Björg Káradóttir og Hallveig Rúnarsdóttir í minni hlutverkum.
Flutt verður fjögurra þátta útgáfan af þessu mikla verki Verdi, og verður hún sungin á ítölsku með íslenskum skjátexta.
Frumsýning verður í Eldborg í Hörpu 18. október og eru þrjár aðrar sýningar ráðgerðar, í október og nóvember. Miðasala hefst næsta mánudag, 18. ágúst.
Ragnheiður milli jóla og nýárs
Ópera Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar, Ragnheiður, verður tekin upp að nýju á tveimur sýningum milli jóla og nýárs, laugardaginn 27. desember og sunnudaginn 28. desember. Sýningin sló rækilega í gegn fyrr á árinu og sópaði að sér tilnefningum og verðlaunum á Grímunni, þar sem hún var m.a. valin Sýning ársins 2014. Sömu söngvarar og prýddu uppfærsluna í vor verða í öllum hlutverkum og Petri Sakari stjórnar. Miðasala hefst í byrjun nóvember og verður einnig hægt að kaupa gjafakort á sýninguna.
Hádegistónleikar og samstarfsverkefni um Töfraflautuna fyrir börn
íslenska óperan heldur uppteknum hætti og býður upp á reglulega hádegistónleika í vetur þar sem söngvarar flytja valdar perlur óperu- og söngbókmenntanna. Þá mun Óperan einnig eiga samstarf við Hörpu og Töfrahurðina um uppsetningu á Töfraflautunni í styttri útgáfu fyrir börn í Norðurljósum. Edda Austmann, Gissur Páll Gissurarson, Ágúst Ólafsson, Viðar Gunnarsson, Gréta Hergils og Rósalind Gísladóttir syngja við undirleik Sherazade-hópsins undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.