Allir á svið
Höfundar: Michael Frayn og Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson
Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir í Aratungu
Ærslafarsinn Allir á svið hefur allt til að bera sem til þarf í farsa. Vandræðaleg framhjáhöld og ástasambönd, enn vandræðalegra skilningsleysi og allir þeir hér skapofsamaðurinn, aulabárðarnir, hin vergjarna, hin drykkfellda og hin grátgjarna.
Í stuttu máli þá segir hér af leikhóp sem er að leggja upp í ferð um landið með leikritið Nakin á svið. Sem er farsi um framhjáhald, skattsvik og sardínuát. Í fyrri hluta sýningar horfum við á æfingu og sviðið með allri sinni dýrð snýr að okkur. Leikarar eru í lokaæfingu sem er aftur og aftur stöðvuð vegna dramatískra átaka milli leikaranna, skapofsa leikstjórans og síðast en ekki síst vegna ruglanda í einstaka leikurum sem vilja rétt fyrir frumsýningu breyta handritinu eða að minnsta kosti fá tækifæri til að ræða framvinduna.
Í seinni hlutanum sem gerist mörgum vikum síðar erum við baksviðs en leikarar hlaupa þá útaf til þess að fremja leiklist sína í leikritinu Nakin á svið. Þess á milli berast þeir beinlínis á banaspjótum enda lausbeislaðar ástir, svik, daður og drykkja allt orðið til að æra viðkvæmar sálir. Hér er hver sjálfum sér næstur og tilbúinn til að hrifsa þau holdlegu gæði sem gefast í þessum skrautlega leikhópi. Við kynnumst semsagt tveimur hópum leikara, svo dæmi sé tekið henni Buddu Brynjólfs sem skrollar og er snilldarlega leikin af Aðalheiði Helgadóttur. Síðan kynnumst við einnig Fröken Frankenheimer sem er leikin af fyrrnefndri Buddu eða semsagt einnig af Aðalheiði.
Það læddist að leikdómara sú hugsun að það hefði verið nógu gaman að sjá aðeins inn í þriðja leikhópinn, það er þennan úr Tungunum þar sem fyrrnefnd Aðalheiður tekst á við sambúð sína við hina átta leikarana og ótal hjálparkokka. En þetta er nú gamni sagt og vitaskuld hefur dramatíkin í hópi Tungnamanna aldrei verið jafn hástemmd eins og sú í leikhópunum tveimur sem við hér kynntumst.
Farsaatriðin eru prýðilega gerð og bráðfyndin en það hefði samt að skaðlausu mátt stytta verkið svolítið. Af frammistöðu einstakra leikara eru það einkanlega tvö sem skara framúr, fyrrnefnd Aðalheiður og Sigurjón Sæland sem leikur leikstjóra sem svo aftur leikur mjög tveimur skjöldum í kvennamálum.
Sérstakt hrós fær sviðsmyndin sem er eins og oft áður lagt mikið í hjá Tungnamönnum. Glæsilegt sumarhús Dandruffhjónanna þarf að þola mikinn hamagang þar sem í sama augnablikinu eiga sér stað svæsnar framhjátökur, morðtilræði, blómakaup til yfirbóta og síðan ringulreið þar sem leikarar og leikstjóri fá hól fyrir að brenglast aldrei í þeirri flóknu marglaga atburðarás – aldrei nema þegar það á að gerast til að fullkomna farsaveröldina.
Elín Gunnlaugsdóttir