Í vor útskrifuðust tíu nemendur af brautinni fræði og framkvæmd við Listaháskóla Íslands. Brautin leitast við að skapa grundvöll til nýsköpunar og auka fjölbreytni í íslensku sviðlistaumhverfi. Þremur nemendum var boðið að sýna lokaverkefni sýn á leiklistarhátíðinni Lókal.

Svörður fyrir sálina er söngleikur eftir Aude Busson sem fjallar um tengsl einstaklingsins við „heima” og hvötina að skapa sér þjóð og þjóðarímynd.

Ættjarðarást
gef ekkert fyrir svoleiðis fínt kjaftæði
sagði sjómaðurinn ungi
og hellti í glasið…
(Vilborg Dagbjartsdóttir)

Sýningin verður sýnd kl 14.00, sunnudaginn 4. september í Þjóðmenningarhúsinu.

Dagskrá um eldingar eftir Ragnheiði Hörpu er sýning sem rannsakar hið stórfenglega og hið hversdagslega. Dulúðinn er horfin fyrir rökhyggjunni, rómantíkin farin. Dagskráin setur fram andstæður sem benda á fegurðina hvor í annarri, vefur saman eldingar og íspinna, pylsur og píanoleik, þrumur og ótta.  Sýnt er á Norðurpólnum föstudaginn 2. september kl. 18.00.

Grande segir sögu af hommahækju í Hlíðunum sem hefur brennt allar brýr sér að baki og syni hennar.  Saman æfa þau dragsýningu með laginu I know him so well með Susan Boyle og Elaine Page fyrir fimmtudagsafmæli ,,fyrrum” homma hennar á meðan sonurinn strögglar við að flytja að heiman.  Hjörtur Jóhann Jónsson leikur bæði hlutverk og er á lokaári í leikaranámi sama skóla.  Tyrfingur skrifaði og leikstýrði verkinu.  Sýningin er í Listaháskólanum Sölvhólshötu 13, laugardaginn 3. september kl. 13.00 og 21.00.

Miðaverð er 1.500 kr. á allar sýningar og eru miðar keyptir við innganginn.