Leikhópurinn Royndin úr Nólsoy í Færeyjum sýndi leikritið Havgird í leikstjórn Ágústu Skúladóttur á leiklistarhátíð NEATA á Akureyri í ágúst 2010. Verkið er frumsamið og handritið skrifaði Ágústa, að einhverju leyti í samstarfi við leikhópinn. Efni sýningar er áhugavert og stendur okkur nærri, bæði á Íslandi og í Færeyjum. Hafið. Nánar tiltekið, hvað verður um þá sem týnast á hafi úti? Sigríður Lára Sigurjónsdóttir lýsir hér upplifun sinn af sýningunni a sýningunni.

Í handritinu er að finna gott samspil margra áhrifaríkra þátta. Grín, jafnvel með uppistandsívafi á stöku stað, áhrifamikinn harm og dulúð. Umhverfismál skjóta líka upp kollinum. Í verkinu spila saman ævintýri og hversdagsleiki. Samspil þess sem gerist á sviðinu og á „útsviðinu“ er líka mjög áhugavert og gengur vel upp.

Leikmynd Kartínar Þorvaldsdóttir gerir glæsilega umgjörð um verkið. Mikið er unnið með smáatriði þannig að umhverfið verður hæfilega kaótísk án þess að óreiðan taki of mikla athygli frá framvindu. Lýsing er líka snjöll og brúar vel yfir í mismunandi þætti og element sýningarinnar.

Leikarar standa sig allir mjög vel og ráða vel við hlutverk sín. Allt frá afslöppuðum stór(ó)leik hinna tæknimennsku kafara, leiknum af Súna Joensen og Petri Hans Poulsen til kostulegra gríntakta og skemmtilegs samleiks Leos Poulsen og Hilmars Joensen og dulúðar Barböru Andreassen í hlutverki Magnhildar (sem mögulega er eldri en hafið sjálft) og frábærrar túlkunar Mariann Hansen á hinni harmrænu persónu Elisabeth. Nicolai Falck er síðan traustur í hlutverki sjómannsins sem bætist í hópinn og raskar jafnvægi þessa litla samfélags á hafsbotni.

Þetta er ein besta leiksýning sem ég hef séð. Og þykist marga fjöruna hafa sopið í þeim efnum. Þarna liggur að baki mjög mögnuð hugmynd (án þess að ég vilji segja of mikið) og öll úrvinnsla úr henni gerir útkomuna magnaða leikhúsupplifun. Royndin fékk mikið og verðskuldað lof fyrir þessa sýningu á áðurnefndri hátíð á Akureyri í ágúst. Nú eru Færeyingar komnir aftur með þessa sýningu til landsins og sýna í Gaflaraleikhúsinu laugardaginn 16. og sunnudaginn 17. apríl.

Enginn leikhúsunnandi ætti að láta þessa frábæru sýning framhjá sér fara.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

{mos_fb_discuss:2}