Leikfélag Húsavíkur æfir nú á haustdögum leikritið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson. Oddur Bjarni Þorkelsson leikstýrir. Með helstu hlutverk fara þau Ármann Örn Gunnlaugsson, Helga Sigurjónsdóttir og Ingvar Björn Guðlaugsson. Einnig taka margir af reyndari leikurum félagsins þátt í sýningunni, þau Sigurður Illugason, Dóra Ármannsdóttir, Gunnar Jóhannsson og Katrín Ragnarsdóttir. Áhugi ungs fólks fyrir þátttöku í sýningunni var það mikill að leikstjórinn ákvað að hafa níu manna kór með. Leikfélag Húsavíkur þarf því ekki að hafa áhyggjur af endurnýjun í félaginu.
Fólkið í blokkinni er hjartnæm saga af skrautlegu lífi fólks í blokk í Reykjavík. Þar býr m.a. fjölskylda ein, þau Tryggvi og Solla, og börnin þeirra tvö, þau Sara og Óli. Tryggvi er meðlimur hljómsveitarinnar Sónar, sem sló í gegn fyrir 10 árum með smellinum Fólkið í blokkinni. Þeir í Sónum hyggja á „comeback“ og ætla að setja upp söngleik í blokkinni.
Söngleikurinn fjallar um fólkið sem þar býr en þar leynast sannarlega kynlegir kvistir. Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina sem æfir stíft í kjallara blokkarinnar. Robbi húsvörður er ekki allskostar sáttur við það og gerir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir að Sónum takist að setja söngleikinn upp. Í blokkinni býr líka pólska hóran Valerí sem setur sannarlega svip sinn á lífið í blokkinni. Svo er það Hannes, en hann er kærasti Söru og þeirra samband gengur svona upp og ofan.
Frumsýning er fyrirhuguð 24. október.