Tilraunaeldhús Leikfélags Kópavogs frumsýndi nú fyrir skemmstu sýninguna Fjórréttað sem er, eins og nafnið gefur lítillega til kynna, fjögur verk sem mynda eina sýningu. Þrjú verkanna eru eftir félaga í LK í samvinnu við leikstjóra ein er eftir útlending nokkurn. Ármann Guðmundsson var á staðnum og ákvað að tjá sig opinberlega um það sem var á boðstólnum. Tilraunaeldhús sem bragð er af – Fjórréttað hjá Leikfélagi Kópavogs
Ilse, Gaui
Nú þegar sumarið er um það bil að skella á með öllu sínu sólskini og veðurblíðu eru flest leikfélög skriðin í hýði til að safna kröftum fyrir næsta leikár. Önnur eru þó enn spriklandi af fjöri og Leikfélag Kópavogs er eitt af þeim, frumsýndi föstudaginn 9. maí fjögur leikverk og þar af þrjú samin af meðlimum leikfélagsins í samvinnu við leikstjóra. Herlegheitin eru sýnd undir formerkjum Tilraunaeldhúss LK.

Það var nú reyndar alls ekki ætlunin að skrifa um þessa sýningu þegar ég mætti í Félagsheimili Kópavogs á föstudagskvöldið en eftir að hafa séð sýninguna fann ég einhverja innri hvöt og ákvað að „hrifla“ smá um hana í þeirri von að bjarga einhverjum frá því að missa af stórskemmtilegri sýningu.

Fyrsta verkið var eina „ófrumsamda“ verk kvöldsins, Leikæfing eftir Peter Barnes í þýðingu Ingunar Ásdísardóttur. Það var Þorgeir nokkur Tryggvason sem sat í leikstjórastólnum og stýrði þeim Einari Þór Samúlessyni og Helga Róbert Þórissyni í jarðbundnasta verki kvöldsins. Sýningin var afar vel unnin hjá þeim öllum og verkið skemmtilegt þótt örlítið meiri snerpa á stundum hefði ekki komið að sök.
Dr.,Ilse,Igor
Sennilega statíska leikverk sem ég hef á ævinni séð fylgdi á eftir, Portrett eftir Örn Alexandersson og Magnús Guðmundsson í flutningi höfunda. Í verkinu tala tvö málverk saman og eiga nokkuð skemmtilegar samræður en eins og títt er um portrettmálverk þá hreyfðu persónurnar næsta lítið. Hugmyndin skemmtileg, útfærslan með ágætum en verkið bauð svo sem ekki upp á mikil tilþrif. Hápunkturinn var „nútímaljóðið“ sem persóna/málverk Magnús flutti, mesta bull sem ég hef nokkurntíma heyrt, en bráðfyndið.

Síðasta verk fyrir hlé var svo Óþekk(t) kona eftir Vigdís Jakobsdóttur leikstjóra og leikhópinn sem í voru Huld Óskarsdóttir, Hrund Ólafsdóttir, Ragnhildur Þórhallsdóttir og Sylvía B. Gústafsdóttir. Í verkinu segja fjórar óhrjálegar afturgengnar konur frá ævi sinn i og dapurlegum örlögum. Verkið bar einkenni skapandi og skemmtilegar spunavinnu þar sem persónur voru skýrar og lifandi (í óeiginlegri merkingu) og hvergi var dauður punktur. Að sönnu var verkið kaótískt, þar sem klippt var á milli eintala persónana og frumsömdum texta blandað við aðfenginn, en þrátt fyrir að það tæki mann smá tíma á að átta sig á hvert verkið stefndi var það alltaf skemmtilegt og spennandi.

Ég velti reyndar fyrir mér hvort þær skotturnar hefðu átt að kynna sig í byrjun verks eða alls ekki í stað þess að gera það í lokin en gef mér að leikstjóri hafi að vandlega íhuguðu máli komist að því að best væri að gera það þar. Mér fannst það þó litlu bæta við og að það hefði hugsanlega gert verkið heilsteyptara að sleppa þeim hluta. Búningar og gervi voru skemmtileg (enda í höndunum á galdarkonum Þóreyju B. Halldórsdóttur og Þórunni E. Hallsdóttur) og ef Tréhausinn hefði verið veittur fyrir „athyglisverðasta búning ársins“ hefði búningur Hrundar án efa sigrað!
Kolla&Kjartan
Eftir hlé var aðeins eitt verk í boði gamanhryllirinn Kolla og stöðumælaverðirnir (Ein lítil stúdía í mannlegri illsku). Þetta verk vann Hörður Sigurðarson leikstjóri með leikhópnum og er óhætt að óska þeim til hamingju með árangurinn því ég minnist þess ekki að hafa hlegið jafn mikið á rúmum hálftíma í leikhúsi, ekki á þessu leikári a.m.k. Leikstjórnarvinna Harðar var í alla staði prýðileg, vel útfærður ofleikur í „devised-stíl“, sem LK er orðinn helsti boðberi landsins í, en leikhópurinn stóð sig einnig afar vel og skapaði skemmtilega skopstælingar á þekktum hryllingsminnum.

Það er samt ekki hægt annað en að hrósa einu leikkonu hópsins, Ágústu Evu Erlendsdóttur, sérstaklega en túlkun hennar á gengilbeinunni Kollu og hinni þýsku ráðskonu Ilse hefði hæglega geta drepið meðal fíl úr hlátri (að því gefnu að fílar hafi húmor sem ekki er sannað). Sérstaklega voru óhuggulega fyndin og vel gerð samskipti þessara tveggja persóna og verð ég segja að Ágústa er vel að Tréhausnum komin. Einnig átti Jónas Gylfason frábæran leik í hlutverki afstyrmisins Igors. Hinir leikararnir áttu einnig mjög fína spretti, Ástþór Ágústsson sem Dr. Frankenstein, Arngrímur Vilhjálmsson og Jón Stefán Sigurðsson sem stöðumælaverðirnir gírugu og Kjartan Hearn sem maðurinn sem reynir árangurslaust að vara umheiminn við hryllingnum. Umgjörð verksins var einnig vel útfærð, eins og reyndar í hinum verkunum.

Það er sérdeilis ánægjulegt hve öflug og frjó nýsköpunarstarfsemi hefur verið undanfarin ár hjá LK og er ekki að sjá að þar verði breyting á á næstunni. Leikfélagið hefur tekist að skapa sér sérstöðu í íslenskum leikhúsheimi og heldur vonandi áfram á þeirri braut. En sem sagt, Fjórréttað er stórskemmtileg sýning sem fólk ætti að reyna að missa ekki af, sem þó gæti orðið erfitt því sýningarfjöldi verður afar takmarkaður.

Ármann Guðmundsson

PS: Myndirnar eru allar úr Kollu og stöðumælavörðunum, teknar á æfingu og því alls ekki endanleg heimild um sýninguna.