Halaleikhópurinn
Rympa á ruslahaugnum eftir Herdísi Egilsdóttur
Leikstjóri: Herdís Ragna Þorgeirsdóttir
Ég skrapp á laugardaginn á Rympu á Ruslahaugnum sem Herdís Ragna Þorgeirsdóttir setur upp með Halaleikhópnum í Halanum í Hátúni 12. Verkið sem er eftir Herdísi Egilsdóttur var fyrst sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 1987 við góðar viðtökur og hefur verið vinsælt viðfangsefni áhugaleikfélaga víða um land síðan. Það var því komin tími á að það rataði hingað í höfuðborgina fyrir nýja kynslóð áhorfenda.
Verkið er eins og mörg höfundaverk Herdísar með ákveðin skilaboð til yngstu áhorfendanna um það hvernig á að haga sér í samfélaginu og að þjófnaður og lygar reynist dýrkeypt þegar upp er staðið. Verkið er líka sterk skírskotun til þess að slæmar félagsaðstæður eins og fátækt, brotið fjölskyldulíf og útskúfun samfélagsins geti búið til þjóðfélagsþegna sem leiðast út í glæpi.
Í uppsetningu Halaleikhópsins er þó horft meira á skemmtigildi verksins en samfélagslega gagnrýni. Persónur eru litríkar og fjörugar og Rympa sem leikin er af miklum krafti af Margréti Eiríksdóttur hleypir miklu fjöri í sýninguna bæði í söng- og leikatriðum. Ásta Dís Guðjónsdóttir sem leikur hinn ísmeygilega og ógnvænlega fulltrúa kerfisins er mjög fyndin í öllu æði og tali og þar fer flink leikkona. Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Kristín A. Markúsdóttir sem léku börnin náðu góðum tökum á hlutverkum sínum og amman sem var leikin af Sóleyju B. Axelsdóttur var bráðskemmtileg. Eins voru skemmtilegar persónur sem bjuggu á ruslahaugnum eins og kötturinn álfurinn og kjóllinn og vel haldið utan um þær af Silju Kjartansdóttur,Telmu Kjartansdóttur og Maríu Hreiðarsdóttur. Eins var sjarmörinn SexVolta fyndin sem afar meðfærileg persóna á sviðinu og frekar líflaus og varð svo fjörið holdi klætt þegar hann lifnaði til lífsins í lok verksins í kraftmiklum meðförum Kristins Sveins Axelssonar.
Leikmyndin í verkinu er skemmtileg og passar vel verkinu í rýminu í Halanum og búningar Ólafar Davíðsdóttur litríkir og ruslalegir. Tónlist Einars Andréssonar er góð en lifandi flutningur hefði passað betur í ruslinu að mínu mati. Leikstjórn Herdísar Rögnu er ágæt og hún nær góðum tökum á leikarahópnum en hefði mátt vera markvissari á sumum stöðum í verkinu og gæta betur að tímasetningum og skiptingum. Áhorfendastæðin í Halanum er einnig erfið fyrir þá áhorfendur sem sitja á endum og staðsetningar í verkinu hefðu mátt taka meira tillit til þess.
Halaleikhópurinn er metnaðarfullur hópur og hefur lagt natni og vönduð vinnubrögð í sínar uppfærslur í gegnum árin. Rympa á ruslahaugnum er þar engin undantekning og mega þau vera stolt af þessari sýningu. Ég gef þessari sýningu 3 stjörnur og enda umsögnina með tilvitnun í sex ára afastelpuna sem kom með mér á sýninguna og sagði þegar við komum út í bíl eftir sýninguna „Afi, þetta er alveg rosalega skemmtileg sýning og það er ljótt að ljúga.“
Lárus Vilhjálmsson