Núna þegar vetrarstarf leikfélaganna er að hefjast er ekki úr vegi að íhuga hvernig hægt er að eyðileggja ánægju leikhúsgesta með einföldum aðferðum. Sömu ráðleggingar er vitaskuld hægt að nota til að auka þessa sömu áhyggjur með því að varast eftirtalin víti, ef menn eru þannig stemmdir.
Leikskrár án upplýsinga um persónur og leikendur
Stundum svíður fólkinu sem gerir leikskrána svo að taka ekki þátt í sköpuninni á sviðinu að það hefur látið eftir sér að gera leikskrána að listaverki útaf fyrir sig. Sem er allt í lagi, svo fremi sem lágmarksupplýsingar komi fram líka. Sérlega mikilvægt fyrir gagnrýnendur svo þeir fái hrós undir fullu nafni sem eiga það inni. Og svo hinir það sem þeir eiga skilið.
Fólk sem klappar í hvert skipti sem leikarar fara út af sviðinu
Hvað á þetta eiginlega að þýða? Þessi forni siður lifir góðu lífi, bestu þó sumstaðar á landsbyggðinni og er hreint óþolandi! Sérstaklega pirrandi þegar klappið hefur ekkert að gera með frammistöðuna, en er einfaldlega skylda, eins og að klappa sólóistum á jasstónleikum lof í lófa. Sem er reyndar óþolandi líka.
Ljósmyndun á meðan á sýningu stendur
Þarf að segja meira? Feitir kallar með langar linsur að troðast fram fyrir áhorfendur. Stemmningslýsing eyðilögð með leifturljósum. Einbeiting leikara og áhorfenda út um þúfur. Mig grunar að sum leikfélög láti þennan ósóma óátalinn, jafnvel að einstaka ljósmyndarar séu á vegum félagsins. Grrr!
Framköll á frumsýningum
Óþolandi þegar þau eru teygð í það óendanlega með því að hver sótraftur sem að sýningunni kom er á svið dreginn og handlama og kófsveittur áhorfendaskarinn er neyddur til að fagna afrekum fólks sem hann hefur ekki hugmynd um hvað hefur til þess unnið. Fögnuður áhorfenda beinist að þeim sem þeir sjá að verðskulda hann, með fullri virðingu fyrir aðstoðarmanni leikstjóra, sauma- og kaffikonum, og fyrrnefndum leikskrárhönnuðum. Verst er þó þegar öllu stóðinu eru færð blóm á sviðinu og til þess ætlast að frumsýningargestir haldi uppi fagnaðarlátunum á meðan. Sagði ég “verst”? Nei, alverst er þegar leyft er að prívatblómvendir séu afhentir á sviðinu. Ef kærasti stelpunnar sem lék afturendann á ljóninu í Dýrunum í Hálsaskógi vill tjá henni hrifningu sína er hann vinsamlega beðinn að gera það í einrúmi, án þess að mér sé gert að vera með sérstök fagnaðarlæti á meðan.
Hrifningarfelling
Í sumum leikhúsum hefur orðið svokallað "hrifningarskrið".
Hrifningarskrið er skylt Launaskriði og veldur hrifningarbólgu, sem aftur kallar á hrifningarfellingu. Hún lýsir sér í því að ef hæsta stig hrifningar er ekki auðsýnt á hverri einustu sýningu er eins og eitthvað hafi farið gróflega úrskeiðis. Svo dæmi sé tekið má nefna að í bæði þau skipti sem ég hef farið í Íslensku Óperuna hefur alltaf verið risið úr sætum, stappað og hrópað Bravó!, þó í hvorugt skiptið hafi sýningin kallað á svo ofsafengin viðbrögð. Hrifningarskrið þekkist vitaskuld á öðrum bæjum líka og er t.a.m. landlægt á leiklistarhátíðum. Hvað ætla óperugestir að gera þegar raunverulegir listrænir stórsigrar verða unnir í Gamla bíói? Falla í yfirlið? Tala tungum? Rífa þakið af húsinu með stórvirkum vinnuvélum?
Þorgeir Tryggvason