Litli leikklúbburinn í samstarfi við Tónlistarskólann á Ísafirði frumsýndi söngleikinn Fiðlarann á þakinu fyrir troðfullum Edinborgarsal, fimmtudaginn 1. febrúar.

Fiðlarinn á þakinu segir frá mjólkurpóstinum Tevje og gerist árið 1905 í þorpinu Anatevka í Rússlandi þar sem siðvenjur og hefðir eru fyrir öllu. Tevje og Golda konan hans eiga fimm dætur sem allar þurfa eiginmenn. Hjúskaparmiðlari þorpsins gerir sitt besta til að sinna hlutverki sínu en dæturnar hafa aðrar hugmyndir um örlög sín en foreldrarnir, miðlarinn og samfélagið.
Höfundar verksins eru Jerry Boch og Sheldon Harnick. Þýðandi er Þórarinn Hjartarson.

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir og um tónlistarstjórn sér Beáta Joó. Bergþór Pálsson, stórsöngvari og skólastjóri tónlistarskólans leikur aðalhlutverkið í verkinu, Tevje mjólkurpóst, en alls eru tæplega 30 leikarar í sýningunni. Hljómsveitin telur níu manns, þar eru núverandi og fyrrverandi nemendur Tónlistarskólans á Ísafirði, auk kennara. Fjölmargir koma einnig að uppsetningunni á bak við tjöldin við lýsingu, hljóð, búninga, leik- og sviðsmynd. Búningahönnuður er Jóhanna Eva Gunnarsdóttir og ljósahönnuður er Friðþjófur Þorsteinsson.

Litli leikklúbburinn og tónlistarskólinn hafa áður sett upp stóra söngleiki saman, en nokkuð er liðið síðan síðast, þegar Söngvaseiður var settur á svið árið 2003, en sú sýning var einmitt valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins og sýnd nokkrum sinnum fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu.

Sýningar á Fiðlaranum standa til 16. febrúar og er miðasala á www.litlileik.is.