Síðasta sýning Borgarleikhússins og Vesturports á Faust verður næstkomandi laugardag 29. Maí. Nú kveður sýningin Ísland og heldur í sumarlok til London þar sem hún verður frumsýnd í Young Vic leikhúsinu vinsæla í október. Sýningin verður kl. 16 svo spenntir Eurovision áhugamenn þurfa ekki að missa af neinu. Þeir geta bæði notið stórkostlegrar uppsetningar á Faust og fylgst með Heru heilla Evrópu.

Þessi uppsetning Borgarleikhússins og Vesturports hlaut mikið lof bæði gagnrýnenda og áhorfenda þegar verkið var frumsýnt á Stóra sviðinu í janúar síðastiðnum og hefur verið sýnt fyrir fullu húsi frá frumsýningu.

Sýningin verður hluti af hátíðardagskrá Young Vic sem fangar 40 ára afmæli leikhússins á næsta leikári. Samstarf Borgarleikhússins, Vesturports og Young Vic á sér átta ára sögu og hófst um leið og heimsferðalag Rómeó og Júlíu Vesturports og Borgarleikhússins hófst. Síðan þá hafa leikhúsin átt gjöfult samstarf sem skilar sér nú inn í afmælisdagskrá Young Vic.

Æfingar eru jafn framt hafnar á leikritinu Enron í Borgarleikhúsinu. Stefán Jónsson leikstýrir verkinu og hefur hann ekki setið auðum höndum í undirbúningi sínum fyrir verkefnið. Hann hefur fengið sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum til að kynna fyrir hópnum hvað gerist þegar stórfyrirtæki líkt og Enron fellur. Sérfræðingar á sviði geðlækninga, siðferðis og fjármála hafa komið og rætt við hópinn um siðblindu, siðferði og þann frumskóg sem fjármál Enron voru orðin að þegar fyrirtækið féll eins og frægt er orðið.
Hvað fer í gegnum huga forstjóra sem veit að leiknum er lokið? Hvernig taka lögfræðingar ákvarðarnir? Hvort er mikilvægara peningar eða völd? Slíkar spurningar er hópurinn að glíma við núna í upphafi æfingarferilsins.

Margt í verkinu segir hópurinn minna óþyrmilega á atburðina sem gerðust hér árið 2008 þegar íslenska bankakerfið hrundi. Það verður því spennandi að sjá Enron nú í haust. Verkið er sagt útskýra fjármálaheiminn á aðgengilegan og einfaldan hátt og hefur höfundurinn Lucy Prebble verið valin ein af 25 helstu útskýrendum fjármálahrunsins í heiminum af tímaritinu Fortune. Frumsýnt í september.

Nú í sumarbyrjun hægist á sýningarhaldi í Borgarleikhúsinu og fer það síðan í sumarfrí 16. júní þegar uppskeruhátíð ársins fer fram, Gríman. Nokkur verk koma svo aftur á fjalirnar í haust, Fjölskyldan, sem kemur aftur á Stóra sviðið, Harry og Heimir og Jesús litli sem mæta á Litla sviðið.  Gauragangur verður einnig tekinn upp aftur strax í haust en sýnt hefur verið fyrir fullu húsi frá frumsýningu verksins í mars.

Þetta leikár endar á stórsýningunum Gauragangi og Rómeó og Júlíu á Stóra sviðinu og bráðskemmtilegum gamanleik, Dúfunum, á Nýja sviðinu sem hefur hitt í mark með sínum ískalda húmor.

{mos_fb_discuss:2}