Freyvangsleikhúsið
Þorskur á þurru landi
Höfundar Karl Tiedemann og Allen Lewis Rickman
Leikstjóri og þýðandi Daníel Freyr Jónsson

Freyvangsleikhúsið frumsýndi amerískan farsa fimmtudaginn 20. febrúar og er hér um Íslandsfrumsýningu að ræða, en leikstjóri sýningarinnar, Daníel Freyr Jónsson, þýddi leikritið og staðfærði að hluta. Og maður verður ekki svikinn af kvöldskemmtun í Freyvangi nú frekar en fyrri daginn þótt sannarlega hafi stundum verið ráðist í metnaðarfyllri sýningar þar á bæ.

„Þorskur á þurru landi”, en svo heitir leikritið, gerist í bústað breska sendiherrans hjá Sameinuðu þjóðunum í New York seint á sjötta áratug síðustu aldar. „Þar segir frá vanhæfum breskum sendiherra sem þarf að glíma við sendifulltrúa frá smáríki sem Bretar eiga í fiskveiðideilu við”  –  eins og segir í leikskrá. En auk þeirrar glímu þarf sendiherrann einnig að glíma við eigin breyskleika og einfeldningshátt sem dregur ýmsa dilka á eftir sér.

Í þýðingu Daníels Freys er smáríkið auðvitað Ísland og sendifulltrúinn Hans G. Andrésson, bráðsnjöll staðfærsla sem gengur algerlega upp. Og eins og farsa sæmir, snýst hér allt um hagræðingu sannleikans, jafnvel skrök, misskilning og vandræðagang „ .. og íslenski sendifulltrúinn tapar bæði rænunni og fötunum sínum” eins og segir líka í leikskrá. Sumt er nokkuð fyrirsjáanlegt í atburðarásinni, en annað skemmtilega óvænt og glimrandi flott, en söguþráðurinn verður ekki rakinn hér.

Umgjörð sýningarinnar er góð, sviðið rúmgott, lýsing ágæt og sviðsmynd einföld og trúverðug nema kannski innanstokksmunir sem tæplega hæfa sendiherraskrifstofu þótt gömul sé. Búningar og önnur leikgervi í besta lagi og heildarmynd sýningarinnar ágæt.

orskur2Eitt af því sem einkennir farsa er mikill hraði og þétt atburðarás. Takist vel til þar, er hálfur leiksigur unninn. Og þar tókst leikurum vel til. Þeir héldu fullri ferð og spennu sýninguna alla og auðséð að leikstjórinn hefur ekki gefið neitt eftir hvað þetta varðar og almennt stóðu leikarar sig vel.

En það er ekkert spaug að leika grín. Haukur Guðjónsson leikur hinn vanhæfa sendiherra sem situr í skjóli tengdaföður síns. Haukur gerir margt vel og heldur karakter alla sýninguna, en mætti vera svolítið mýkri og yfirvegaðri í fumi og vandræðagangi sendiherrans. Frú hans leikur Anna María Hjálmarsdóttir, ekki mjög skemmtilegt hlutverk, en Anna leikur það ágætlega. Kokk sendiherrans leikur Svanur Jóhannesson af stakri prýði. Hannes Örn Blandon fer á kostum sem íslenski sendifulltrúinn Hans G. Andrésson. Það er svo sem ekki ný bóla að Hannes Örn vinni leiksigra, hann gerir það nær undantekningarlaust þegar hann stígur á svið, ekki síst þegar hlutverkin henta honum svo vel sem í þetta skipti. En það er líka eins og öll hlutverk henti Hannesi vel, líklega vegna þess hversu mikill afbragðs leikari hann er. Önnur hlutverk eru smærri í sniðum en ágætlega af hendi leyst af þeim Hjálmari Arinbjarnarsyni, Þráni Ingólfssyni, Hafdísi Þorbjörnsdóttur og Úlfhildi Örnólfsdóttur.

Freyvangsleikhúsið á sínar djúpu rætur í eyfirskri alþýðumenningu þótt græðlingarnir séu farnir að spretta upp víðar. Það er mikill sómi að því hversu vel sveitarfélagið styður við þetta öfluga, en þó svo viðkvæma menningarstarf með hinni góðu aðstöðu og umgjörð sem leikhúsinu er búin í Freyvangi. Þangað er alltaf gaman að koma og óþarfi að láta sér leiðast heima ef maður á kost á skemmtilegri kvöldstund með Freyvangsleikhúsinu. Takk fyrir skemmtunina!

Steinþór Þráinsson.